Hátíðahöld Fjölmargir fóru í kröfugöngu 1. maí.
Hátíðahöld Fjölmargir fóru í kröfugöngu 1. maí. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í vikunni fékk launafólk sinn árvissa frídag 1. maí. Þeim degi tengist órjúfanlega orðið verkalýður. Orðið á sér langa sögu. Það kemur meðal annars fyrir í Hákonar sögu í Heimskringlu. Þar er frásögn af Frostaþingi um miðja tíundu öld þar sem…

Tungutak

Ari Páll Kristinsson

ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Í vikunni fékk launafólk sinn árvissa frídag 1. maí. Þeim degi tengist órjúfanlega orðið verkalýður. Orðið á sér langa sögu. Það kemur meðal annars fyrir í Hákonar sögu í Heimskringlu. Þar er frásögn af Frostaþingi um miðja tíundu öld þar sem konungur biður þegna sína að kristnast og „halda heilagt hinn sjöunda hvern dag við vinnum öllum, fasta og hinn sjöunda hvern dag“. Lítil stemning var fyrir því á þinginu að taka upp slíkan frídag. „Kurruðu bændur um það er konungur vildi vinnur taka af þeim og svo að við það mátti landið eigi byggja. En verkalýður og þrælar kölluðu það að þeir mættu eigi vinna ef þeir skyldu eigi mat hafa.“ Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta, sem svo er nefnd, geymir sömu frásögn en þó ekki með orðinu verkalýður heldur vinnumenn: „En vinnumenn og þrælar …“

Fjölmörg samsett orð eru dregin af orðinu verkalýður. Í landinu starfa verkalýðsfélög, á verkalýðsdaginn minnast verkalýðsforingjar verkalýðsbaráttunnar og VR stendur fyrir verkalýðskaffi. Enn eitt samsett orð af sama toga er verkalýðssaga. Í tímaritinu Sögu 1983 var Ólafs R. Einarssonar (1943-1983) minnst sem brautryðjanda í þeirri sérgrein. Hugtakið gæti raunar verið á útleið hjá sagnfræðingum. Fyrr í vikunni kom út tímarit Hugvísindastofnunar, Ritið 1/2024, „Nýjar rannsóknir í vinnusögu“. Þar segir að sagnfræðingar hafi „horfið frá ýmsum viðteknum viðmiðum í því sem á íslensku hefur til skamms tíma verið kallað verkalýðssaga, en mætti líka kalla vinnusaga“ og tekið er fram að orðið vinnusaga samsvari labour history á ensku.

Undir lok 19. aldar hafði smám saman orðið almennt að nota orðið verkalýður og það tengdist meðal annars fræðilegri skilgreiningu á stéttum samfélagsins. Í Skírni 1884 segir til dæmis frá stöðu mála í Frakklandi (1871) og tekið er fram að um sumarið „bryddi lítið sem ekki á óspektum af hálfu verkalýðsins í París“.

Þorsteinn Erlingsson var ritstjóri og ábyrgðarmaður vikublaðsins Bjarka á Seyðisfirði frá stofnun 1896 fram til aldamóta. Í síðasta tölublaði ársins 1896 er sagt frá verkfallsaðgerðum erlendis undir fyrirsögninni „Skrúfan mikla í Hamborg“. Ritstjórinn hefur talið vissara að útskýra fyrirsögn sína því að textinn hefst á orðskýringu: „Skrúfur kalla menn það erlendis, þegar verkalýður tekur sig alt í einu saman um að neita að halda áfram einhverju starfi, til þess að fá meiri laun, eða auka rjettindi sín á einhvern hátt.“ Hamborgarskrúfan umrædda var verkfall hafnarverkamanna og fylgir sögunni að „vagnmenn og sjómenn“ hafi gengið í lið með „skrúfurunum“. Einhverra hluta vegna hefur Þorsteinn hér sneitt hjá orðunum verkfall og verkfallsmenn. Íslensku blöðin höfðu þá annars um árabil notað orðið verkfall. Í Skírni 1872 sagði: „Menn hafa að vísu gert hjer áður verkaföll – eða það sem Danir kalla „skrúfur“ (Englendingar strikes – grikki).“