Golf Golfvellirnir eru gjarnan gulir en ekki grænir á þessum árstíma.
Golf Golfvellirnir eru gjarnan gulir en ekki grænir á þessum árstíma. — Morgunblaðið/Eggert
Níu golfvellir, aðallega á Suðurlandi og Suðurnesjum, eru nú opnir eftir vetrardvala. Þessa velli er nú hægt að leika eins og gert er ráð fyrir, þ.e.a.s. ekki á vetrarflötum sem í boði eru þegar tímabilið er ekki í gangi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Níu golfvellir, aðallega á Suðurlandi og Suðurnesjum, eru nú opnir eftir vetrardvala. Þessa velli er nú hægt að leika eins og gert er ráð fyrir, þ.e.a.s. ekki á vetrarflötum sem í boði eru þegar tímabilið er ekki í gangi.

Um er að ræða Þverárvöll á Hellishólum, Kirkjubólsvöll í Sandgerði, Þorlákshafnarvöll, Kálfatjarnarvöll á Vatnsleysuströnd, Silfurnesvöll á Hornafirði, Strandarvöll á Hellu, Hólmsvöll í Leiru og Vesturbotnsvöll á Patreksfirði. Þessir vellir voru í það minnsta opnir þegar maí gekk í garð og í einhverjum tilfellum höfðu klúbbarnir stefnt að opnun 1. maí eins og á Patreksfirði.

Korpan opnar 11. maí

Fjölmennasti klúbbur landsins, Golfklúbbur Reykjavíkur, birti á vef sínum á dögunum að Korpan yrði opnuð 11. maí og Grafarholtið viku síðar. Ekki er óalgengt að fjölmennu klúbbarnir opni fyrir umferð á aðalvelli sína um þetta leyti. Á næstu dögum verða fleiri vellir opnaðir eins og á Akranesi í dag fyrir félagsmenn og í Mosfellsbæ og á Selfossi á morgun.

Stíga þarf varlega til jarðar í upphafi sumars ef golfvellirnir eru viðkvæmir eða blautir. Um leið og fjölmennu klúbbarnir opna vellina þá er látlaus notkun frá morgni til kvölds og vellirnir þurfa því að vera tilbúnir fyrir slíkt álag.

Ljóst er að vellirnir eru opnaðir fyrr en í fyrra í mörgum tilfellum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrra voru vellirnir á suðvesturhorninu illa á sig komnir eftir frosthörkur um veturinn og urðu eins konar frostskemmdir á golfvöllunum. Voru þekktustu vellirnir opnaðir mjög seint í fyrra fyrir vikið eða í lok maí.

Metaðsókn á Akureyri

Í fyrra var hins vegar mun betra ástand fyrir norðan og Jaðarsvöllur á Akureyri var opnaður 11. maí í fyrra. Svo fór að sett var met á Jaðarsvelli þegar spilaðir voru tæplega 30 þúsund hringir frá maí og fram í október. 201 hringur á dag var að meðaltali spilaður á Jaðarsvelli frá opnun og fram í september, sem er það mesta hjá GA frá því slíkar mælingar hófust.

Ef skoðuð eru fleiri dæmi frá því í fyrra þá voru um 39 þúsund hringir leiknir á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Fækkaði þeim um liðlega tvö þúsund á milli ára og skýringuna má eflaust finna í því að golftímabilið hófst óvenju seint á höfuðborgarsvæðinu.

18 holu hringjum á Korpúlfsstöðum fækkaði töluvert á milli ára; í fyrra voru leiknir 27.590 hringir en 34 þúsund árið áður. Hringjunum fækkaði ekki nema um 300 á milli ára í Grafarholti en þar voru leiknir 31 þúsund hringir. Grafarholtið kemur ávallt seinna undan vetri og því munaði ekki svo miklu í fyrra miðað við önnur ár. Önnur grastegund er á flötunum í Grafarholtinu en á Korpunni.

Seltirningar virðast vanafastir ef marka má tölurnar. Á Nesvellinum voru leiknir 31.955 hringir en árið 2022 voru þeir 31.986.

Þess má geta að þótt tímabilið hafi byrjað seint hjá íslenskum kylfingum í fyrra viðraði mjög vel til golfiðkunar síðari hluta sumars. Þar af leiðandi urðu hringirnir býsna margir þótt tímabilið hafi byrjað seint hér heima.

Meðlimir nálgast 25 þúsund

Um 24.200 kylfingar voru skráðir í 62 golfklúbba víðs vegar um landið í fyrra og fjölgaði um 900 frá 2022. Er það fjölgun upp á 4%. Golfklúbbarnir mynda Golfsamband Íslands, sem er næstfjölmennasta sérsambandið innan Íþrótta- og ólympíusambandsins. Á þessari öld hefur fjölgunin í golfklúbbunum verið mjög mikil en sem dæmi voru 8.500 manns skráðir í klúbbana árið 2000.

Af þessum 24.200 eru 13% börn og unglingar. Karlar eru 66% og konur 34% en konum hefur fjölgað umtalsvert í íþróttinni á Íslandi ef horft er tíu til tuttugu ár aftur í tímann.

Þess má geta að hér eru einungis tölur yfir þá sem eru skráðir í klúbbana. Þá eru ótaldir þeir sem leika golf stöku sinnum án þess að vera með aðild að golfklúbbi.