Forsetakosningar nálgast. Meðal frambjóðenda eru einstaklingar sem njóta lítils sem einskis fylgis og hefðu aldrei átt að ana í framboð.
Forsetakosningar nálgast. Meðal frambjóðenda eru einstaklingar sem njóta lítils sem einskis fylgis og hefðu aldrei átt að ana í framboð. — Morgunblaðið/Ómar
Hjá sumum gætir furðumikillar tregðu til að viðurkenna að í kjöri til forseta Íslands eru einstaklingar sem hefðu aldrei átt að ná svo langt að fá nafn sitt á kjörseðil.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Það er gott að eiga sér háleit markmið í lífinu en það er einnig mikið fyrirtak að gera sér grein fyrir eigin takmörkunum. Draumar geta nefnilega ekki alltaf ræst, hversu mjög sem maður annars óskar þess. Það má til dæmis láta sig dreyma um að verða forseti Íslands, en til að svo geti orðið þarf viðkomandi að hafa til að bera kosti sem heilla þjóðina, þannig að hún kalli á hann og hvetji til framboðs. Þegar kemur að forsetaframboði er nefnilega ekki nóg að koma að máli við sjálfan sig, þótt það geti verið hið besta mál við aðrar aðstæður. Þarna er eftirspurn algjört skilyrði. Eða réttara sagt, eftirspurn ætti að vera skilyrði en er það ekki lengur hér á landi því reglur varðandi forsetaframboð eru úr takti við heilbrigða skynsemi.

Þetta árið eru í framboði til forseta Íslands allnokkrir einstaklingar sem njóta einskis fylgis. Sú staðreynd truflar þá ekki. Þeir horfa einbeittir í augu fréttamanna og segjast ekki taka mark á skoðanakönnunum. Fróðlegt verður að sjá hvort þeir muni ríghalda í þá skoðun sína eftir að talið hefur verið upp úr kjörkössunum. Þessir frambjóðendur eiga það sameiginlegt að kvarta sárlega undan því sem þeir segja vera áhugaleysi fjölmiðla á framboði þeirra. Þeir virðast sannfærðir um að fái þeir rúman tíma í fjölmiðlum muni þjóðin átta sig á ágæti þeirra og fylgið streyma að. Þarna lifa þeir í afar slæmum misskilningi, en þeim finnst það greinilega skárra hlutskipti en að horfast í augu við þá nöturlegu staðreynd að þjóðin hefur engan áhuga á misráðnu framboði þeirra.

Erindi hinna fylgislausu frambjóðenda er misjafnt. Þarna er frambjóðandi sem á Íslandsmet í forsetaframboði, hefur alltaf verið hafnað en heldur ótrauður áfram að bjóða sig fram, enda lítur hann á sig sem sannan friðarhöfðingja og botnar ekkert í því að aðrir skuli ekki gera sér grein fyrir alþjóðlegu mikilvægi hans.

Annar frambjóðandi er haldinn þráhyggju gagnvart Katrínu Jakobsdóttur, bauð sig fram til höfuðs henni og virðist ekkert hafa fram að færa í kosningabaráttu sinni annað en að ausa svívirðingum yfir konu sem á mikið fylgi meðal kjósenda og yrði framúrskarandi forseti. Talsmátinn er þannig að hann hæfir engan veginn manneskju sem sækist eftir því að verða forseti Íslands.

Svo eru frambjóðendur sem steyta hnefann og gefa til kynna að í forsetaembætti muni þeir ekki láta vaða yfir sig, ríkisstjórninni sé því best að hafa sig hæga. Þeir boða beinlínis að þeir ætli að standa í stöðugu þrefi við ríkisstjórn landsins. Einhverjir fylgislausir frambjóðendur virðast svo líta á framboð sitt sem gott tækifæri til að vekja athygli á sér og fá sínar fimmtán mínútur af frægð. Allir þessir frambjóðendur misreikna sig illilega því þjóðin hefur engan áhuga á þeim, leiðist þetta brölt þeirra og flokkar sem slæma tegund af athyglissýki.

Þegar dregur nær kosningum munu fjölmiðlar vonandi hafa þá skynsemi til að bera að sigta út þá frambjóðendur sem hafa samkvæmt alvöru skoðanakönnunum þokkalegt fylgi, en skilja hina úti á berangri. Annars er hætt við því að kjósendur nenni ekki að eyða tíma í áhorf og hlustun. Einhverjir frambjóðendur munu góla hástöfum að þarna sé stórkostleg mismunun á ferð, en á það ber ekki að hlusta. Í upphafi hefðu þeir átt að íhuga stöðu sína og nýta gagnrýna hugsun í stað þess að láta óskhyggju ráða för. Þá hefðu þeir áttað sig á því að þeir eiga ekkert erindi í baráttu um embætti sem á að njóta virðingar.

Hjá sumum gætir furðumikillar tregðu til að viðurkenna að í kjöri til forseta Íslands eru einstaklingar sem hefðu aldrei átt að ná svo langt að fá nafn sitt á kjörseðil. „Lýðræðisveisla!“ segja einhverjir, því þeim finnst svo óskaplega fallegt að hver sem er geti stigið fram og boðið sig fram til forseta.

Auðvitað er það svo að 0,3-5 prósenta frambjóðendurnir munu alls engu máli skipta þegar kemur að úrslitum. Þeir fá að fljóta þarna með en svo að segja enginn tekur mark á þeim.