Fæst gefins Sveitasetrið við Bogensee sem byggt var fyrir Joseph Goebbels.
Fæst gefins Sveitasetrið við Bogensee sem byggt var fyrir Joseph Goebbels. — AFP/John MacDougall
Sveitasetur, sem reist var fyrir Joseph Goebbels, áróðursmálaráðherra þýska Nasistaflokksins, fæst nú gefins. Húsið, sem nefnist Villa Bogensee og stendur á 17 hektara lóð skammt frá Berlín, var reist fyrir Goebbels árið 1936

Sveitasetur, sem reist var fyrir Joseph Goebbels, áróðursmálaráðherra þýska Nasistaflokksins, fæst nú gefins.

Húsið, sem nefnist Villa Bogensee og stendur á 17 hektara lóð skammt frá Berlín, var reist fyrir Goebbels árið 1936. Goebbels er sagður hafa notað það til að eiga leynilega fundi með leikkonum allt þar til hann og eiginkona hans frömdu sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi Adolfs Hitlers í Berlín í apríl 1945.

Byggingin hefur staðið auð frá árinu 2000 og er í mikilli niðurníðslu en borgaryfirvöld í Berlín hafa án árangurs reynt að selja hana.

Stefan Evers, fjármálaráðherra borgríkisins Berlínar, sagði á borgarstjórnarfundi í gær að svo kynni að fara að húsið yrði rifið.

„Ég býð hverjum þeim, sem vill yfirtaka húsið, að taka við því sem gjöf frá Berlín,“ sagði Evers.

Hann sagði að húsið væri í sambandsríkinu Brandenborg en hvorki ríkið, Berlín né þýska ríkisstjórnin hefði áhuga á að þiggja það að gjöf.

Þýskaland hefur lengi átt í erfiðleikum með að gera upp við sig hvað eigi að gera við mannvirki tengd nasistum. Mörg þeirra eru of stór og umfangsmikil til að hægt sé að rífa þau en ef þau eru látin standa er talin hætta á að þau verði að einskonar táknum fyrir nýnasista.

Eftir að síðari heimsstyrjöld lauk var hús Goebbels nýtt í stuttan tíma sem hersjúkrahús en síðan fengu ungmennasamtök það til afnota og ráku þar menningarstofnun. Margt í húsinu er upprunalegt, svo sem viðarþiljur, viðargólf og ljósakrónur en talið er að það myndi kosta margar milljónir evra að gera það upp.

Evers sagðist enn vonast til að Brandenborg muni taka húsið yfir, ella hefði Berlín einskis annars úrkosti en að jafna það við jörðu.