Soffanías Cecilsson fæddist 3. maí 1924 á Búðum undir Kirkjufelli í Grundarfirði. Foreldrar hans voru hjónin Kristín Runólfsdóttir, f. 1898, d. 1972, og Cecil Sigurbjarnarson, f. 1896, d. í sjóslysi 1932

Soffanías Cecilsson fæddist 3. maí 1924 á Búðum undir Kirkjufelli í Grundarfirði. Foreldrar hans voru hjónin Kristín Runólfsdóttir, f. 1898, d. 1972, og Cecil Sigurbjarnarson, f. 1896, d. í sjóslysi 1932.

Soffanías og bræður hans hófu sjósókn á unga aldri og 12 ára gamall hóf Soffanías útgerð þegar hann ásamt Bæring bróður sínum keypti bátinn Óðin. Árið 1949 keyptu bræðurnir 38 tonna bát, Grundfirðing, og hófst þar með óslitin saga útgerðar og fiskvinnslu undir forystu Soffaníasar. Soffanías tók fiskimannapróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1954. Hann var um skeið formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, sat 22 ár í stjórn SÍF, sat í stjórn Félags rækju- og hörpudisksframleiðenda, var um skeið formaður Vinnuveitendafélags Breiðafjarðar, Útvegsmannafélags Breiðafjarðar og Bátatryggingar Breiðafjarðar.

Soffanías var sæmdur fálkaorðunni árið 1987. Hann tók virkan þátt í félagsmálum í Grundarfirði, sérstaklega innan Lionshreyfingarinnar.

Eiginkona Soffaníasar er Hulda Vilmundardóttir, f. 1936, búsett í Grundarfirði. Börn þeirra eru þrjú og fyrir átti Hulda eina dóttur.

Soffanías lést 24. mars 1999.