Harpa sýnir nýleg verk og eldri verk á sýningunni.
Harpa sýnir nýleg verk og eldri verk á sýningunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í verkum mínum er ég að reyna að framkalla það jafnvægi og þá kyrrð sem maður upplifir þegar maður er úti í náttúrunni.“

Skuggafall - Leiðin til ljóssins er yfirskrift sýningar Hörpu Árnadóttur í Listval galleríi Hverfisgötu. Þar sýnir hún olíuverk og vatnslitaverk. Sýningin stendur til 18. maí.

Sýningin samanstendur meðal annars af verkum af fossum. „Ég er með fossa á heilanum,“ segir listakonan. „Ég málaði lítinn foss þegar ég var í málaradeild Myndlista- og handíðaskólanum. Kennarinn, Björn Birnir, sá þessa litlu fossamynd og sagði: Harpa, þetta finnst mér besta verkið. Eftir það var ég kölluð Ásgríma í skólanum vegna þess að ég hafði málað klassískt landslagsverk í anda Ásgríms Jónssonar. Fossarnir hafa fylgt mér æ síðan og þetta litla verk er núna á vinnustofunni minni.

Ég hef gert risastór fossaverk. Ég gerði innsetningu í gryfju í Listaháskólanum sem samanstóð meðal annars af veggjastórum fossum. Amma mín, Magnea Þorkelsdóttir sagði þegar hún kom inn: „Ég sé innreiðina í Jerúsalem!“ Hún saumaði síðan hvítan dúk handa mér og gaf mér. Þar var einn listamaður í samtali við annan.“

Verkin á sýningunni í Listvali eru flest nýleg en elsta verkið Liljur, vatnslitir á striga er frá árinu 2012 og nokkuð impressjónískt. „Ég sýndi myndina í Stúdíó Stafni á sínum tíma en svo fannst mér að ég væri farin að færa mig aðeins of langt til hinna miklu meistara impressjónismans. Seinna var myndin sýnd á Snæfellsnesi á stórri sýningu sem hét Umhverfing og þá fór ég að taka hana aftur í sátt. Galleríistarnir hér í Listvali sáu myndina á vinnustofunni minni og vildu hafa hana með.“

Lifandi verk

Nokkur verkanna á sýningunni eru samsett úr lögum af vatnsleysanlegum lit og lími sem um síðir koma sprungur í. „Þessi verk verða til á löngum tíma og það tekur þau oft marga mánaði, stundum ár, að verða alveg tilbúið. Í byrjun legg ég lag yfir lag og smám saman fara þau að springa, það gerist mjög hægt. Ef sól skín á verkin springa þau eins og skriðjöklar með hvellum og brestum. Löngu seinna kemur svo stundum ein og ein viðbótarsprunga. Þannig má segja að þetta séu lifandi verk.“

Fyrsta verk Hörpu þessar tegundar varð til fyrir mistök. „Ég var í Konsthögskolan Valand í Gautaborg og ætlaði að laga verk sem ég hafði gert og bætti á það lögum af málningu en þá varð það enn verra og ég henti því út í horn. Með tímanum komu sprunguir í málverkið og þeir sem sáu það fóru að hafa orð á því að það væri fallegt.“

Stórbrotið umhverfi

Harpa ólst upp í Ólafsvík á Snæfellsnesi en faðir hennar, Árni Bergur Sigurbjörnsson, var þar prestur í átta ár. Umhverfið þar hefur haft áhrif á list hennar. „Prestbústaðurinn var við bakkana, Breiðafjörðurinn logaði í sólarlaginu, foss var uppi í hlíðinni og svo sást í Snæfellsjökul. Þetta var dramatískt og stórbrotið umhverfi,“ segir hún.

Harpa er alltaf með litla bók á sér, úrval úr Davíðssálmum sem afi hennar, Sigurbjörn Einarsson biskup, valdi. „Mér finnst gott að lesa einn og einn sálm. Titlarnir á myndum mínum koma stundum úr Davíðssálmum og líka úr tónlist og þeim bókum sem ég er að lesa í það skiptið.“

Myndskreytt ljóðabók

Í tilefni sýningarinnar kemur út ljóðabók með teikningum en Harpa hefur fengist við ljóðagerð og sent frá sér nokkrar bækur. „Ég er feimin við að segja að ég yrki. Ég hugsa beint á blöðin og hef gert síðan ég man eftir mér. Ljóðin í þessari bók snúast nokkuð um málverkið og teikninguna, þetta ferðalag sem maður fer í þegar maður er að skapa en svo verður áfangastaðurinn kannski allt annar en maður hafði ímyndað sér,“ segir Harpa.

Hún segir að sér þyki best að mála í flæði. „Þá er ég kannski að mála nokkur verk í einu og liturinn í einu verki flýtur yfir í næsta verk. Í verkum mínum er ég að reyna að framkalla það jafnvægi og þá kyrrð sem maður upplifir þegar maður er úti í náttúrunni. Leið mín í myndlistinni er andlegt ferðalag.“