Mjólkárvirkjun Mjólkárvirkjun er aflmesta virkjunin sem miðlar orku til Vestfirðinga, um 11 megavött, sem er um fjórðungur þess sem þarf.
Mjólkárvirkjun Mjólkárvirkjun er aflmesta virkjunin sem miðlar orku til Vestfirðinga, um 11 megavött, sem er um fjórðungur þess sem þarf. — Moegunblaðið/Sigurður Bogi
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Ekki eru miklar líkur á að úr rætist í framboði á umhverfisvænni raforku á Vestfjörðum í bráð, en íbúar og fyrirtæki í landshlutanum hafa mátt þola skerðingar á ótryggri raforku frá Landsvirkjun í vetur og ekki eru líkur á að því ástandi linni fyrr en um miðjan þennan mánuð. Þá hefur Landsvirkjun fullnýtt 120 daga skerðingarheimildir sínar.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ekki eru miklar líkur á að úr rætist í framboði á umhverfisvænni raforku á Vestfjörðum í bráð, en íbúar og fyrirtæki í landshlutanum hafa mátt þola skerðingar á ótryggri raforku frá Landsvirkjun í vetur og ekki eru líkur á að því ástandi linni fyrr en um miðjan þennan mánuð. Þá hefur Landsvirkjun fullnýtt 120 daga skerðingarheimildir sínar.

Jarðhitaleit á Vestfjörðum hefur litlu skilað enn sem komið er, ef frá er talinn jarðhiti sem fannst á Drangsnesi sem ætlað er að geti þrefaldað afköst hitaveitunnar á staðnum. Orkusjóður greiddi tæpar 20 milljónir í styrk til jarðhitaleitarátaksins þar, þess fyrsta á öldinni.

Nýjar vatnsaflsvirkjanir í nýtingarflokki rammaáætlunar eiga talsvert í land, en þar er einkum horft til Hvalárvirkjunar sem samþykkt var í 2. áfanga rammaáætlunar árið 2013 og Austurgilsvirkjunar sem samþykkt var í 3. áfanga 2022. Þó eru horfur á að úr rætist með Hvalárvirkjun á næstu árum, en HS Orka vinnur að undirbúningi virkjunarinnar og stefnir að því að sinna skipulagsmálum og verkfræðivinnu á þessu ári. „Vonandi getum við hafið framkvæmdir í lok næsta árs,“ segir Tómas Már Sigurðsson forstjóri fyrirtækisins í samtali við Morgunblaðið. Gangi það eftir gæti orkuframleiðsla hafist árið 2029.

Fleiri virkjanakostir eru í undirbúningi og tillögugerð hjá verkefnastjórn rammaáætlunar, en skemmra á veg komnir. Einnig eru tveir vindorkukostir í vinnslu, Garpsdalsvirkjun og Hrútavirkjun, ofan Borðeyrar.

Raforkuþörf Vestfirðinga er nú mætt með orku m.a. frá Mjólkárvirkjun sem skilar um 11 megavöttum, en aðrar virkjanir Orkubús Vestfjarða skila 5 megavöttum til viðbótar. Nokkrar smávirkjanir gefa svo annað eins, þannig að orkuframleiðsla á svæðinu er um 21 megavatt. Önnur orka kemur frá Landsvirkjun um vesturlínu frá tengivirki í Hrútafirði. Aflþörf Vestfjarða er mest um 44 megavött, skv. upplýsingum frá Orkubúinu.

Á meðan þannig háttar til að Orkubú Vestfjarða sætir skerðingum frá Landsvirkjun er fyrirtækið nauðbeygt til að framleiða rafmagn með dísilolíu með tilheyrandi taprekstri.

Á vegum Landsnets er unnið að undirbúningi tengipunkts í Ísafjarðardjúpi, um hvern raforku frá Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun verður miðlað þegar þar að kemur, og áformar Landsnet að tengingar verði tilbúnar þegar þeirra verður þörf, en sú dagsetning er eðlilega óviss, enda framkvæmdir við hvoruga virkjunina hafnar.

Þá hefur Orkubú Vestfjarða farið þess á leit við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að aflétt verði friðlýsingarskilmálum á afmörkuðu svæði innan friðlandsins í Vatnsfirði, svo unnt verði að undirbúa þar umhverfismat á 20 til 30 megavatta virkjun. Erindið er til skoðunar í ráðuneytinu.

„Þetta er gott dæmi um hvernig ástandið er á Íslandi. Þegar verkefni eru vanrækt í 15 til 20 ár er engin töfralausn til,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

„Það er í forgangi hjá okkur að leysa úr þessum málum og við munum halda áfram að vinna að lausn þeirra með Vestfirðingum, því ástandið er mjög alvarlegt. Það er hægt að leysa það, en þá þurfa allir að leggjast á eitt, sveitarfélög, orkufyrirtæki og stjórnvöld,“ segir Guðlaugur Þór.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson