Samskiptin milli granneyjanna mættu vera meiri en raun ber vitni

Um páskana var haldið skákmót í þorpinu Ittoqqortoormiit á Grænlandi. Mótið var haldið í boði Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands. Mót þetta á sér merkilega sögu, sem hófst snemma á þessari öld þegar skákfélagið Hrókurinn undir forustu Hrafns Jökulssonar ákvað að breiða út fagnaðarerindi skákarinnar á Grænlandi.

Skömmu eftir að átak Hrafns hófst kom liðsauki frá Kalak. Héðan hafa farið árlegir skákleiðangrar til Grænlands og grænlensk börn hafa heimsótt Ísland og gert sér glaðan dag.

Fjallað var um páskamótið í Morgunblaðinu á fimmtudag. Þar kemur fram að í Ittoqqortoormiit búi nú nokkrir efnilegir skákmenn og keppnisskapið hafi verið mikið á mótinu. Fjölmennt hafi verið á mótinu, sem sýni að það sé orðinn fastur liður í bæjarlífinu.

Grænland er aðeins steinsnar frá Íslandi, en í hugum fólks kann fjarlægðin að vera meiri. Samskiptin milli Grænlands og Íslands mættu að ósekju vera meiri en raun ber vitni á öllum sviðum milli íbúa einnar elstu eyja heims og einnar þeirra yngstu.

Hið árlega skákmót í Ittoqqortoormiit er liður í að efla tengslin.

Hrafn Jökulsson gekk til allra verka af krafti og eldmóði. Hrókurinn var lagður niður árið 2020 eftir 22 ára starf. Þegar það var gert fór fram sérstök söfnun fyrir börnin á Grænlandi.

Kalak hefur góðu heilli haldið áfram að halda skákmót á Grænlandi um leið og vinafélagið sinnir öðrum verkefnum. Með því er minningu Hrafns sýndur sómi og hans góða frumkvæði fylgt eftir.