Afhending Hængsmenn og ávísun á upphæð fyrir bílakaupum. Í ræðupúlti er Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi sem veitti gjöfinni viðtöku.
Afhending Hængsmenn og ávísun á upphæð fyrir bílakaupum. Í ræðupúlti er Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi sem veitti gjöfinni viðtöku. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nærri 200 þátttakendur eru í svonefndu Hængsmóti í boccia sem haldið er nú um helgina á vegum Lionsklúbbsins Hængs á Akureyri. Mótið er nú haldið í 41. sinn, en það er árlegur þáttur í starfi Hængs. Keppni var háð í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær, föstudag, og í dag og eru áhorfendur velkomnir

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl

Nærri 200 þátttakendur eru í svonefndu Hængsmóti í boccia sem haldið er nú um helgina á vegum Lionsklúbbsins Hængs á Akureyri. Mótið er nú haldið í 41. sinn, en það er árlegur þáttur í starfi Hængs. Keppni var háð í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær, föstudag, og í dag og eru áhorfendur velkomnir. Í kvöld er svo veglegt lokahóf þar sem borinn er fram veislumatur og skemmtikraftar halda uppi stuði fram eftir kvöldi.

Mótshaldið í gær var liðakeppni sem Íþróttabandalag fatlaðra stendur fyrir. Í dag, laugardag, er mótið hins vegar einstaklingskeppni og á vegum Hængs.

Klúbburinn nýtur, að sögn Hængsmanna, mikillar velvildar í samfélaginu nyrðra og styrkja fjölmörg fyrirtæki mótshaldið. Þá lánar Akureyrarbær íþróttahöllina til mótsins án endurgjalds.

Gáfu bíl til skammtíma- vistunar fatlaðra

Við setningu móts í gær afhentu félagar í Hængi nýja bifreið til skammtímavistunar fatlaðra á Akureyri sem er til húsa við Þórunnarstræti. Sú leysir af hólmi eldri bifreið sem Lionshreyfingin gaf árið 2006. Bíllinn nýi er af gerðinni Mercedes Benz eVito; rafknúinn með hjólastólalyftu. Það er von Lionsmanna að hún nýtist vel og auðgi líf þeirra sem njóta.

„Á þessu móti er mikil spenna, og taumlaus metnaður meðal keppenda, sem koma af öllu landinu. Að taka þátt í framkvæmd þessa móts er gefandi, að ekki sé talað um þau sem taka þátt í því,“ segir Snæbjörn Sigurðarson, formaður nefndar sem sér um Hængsmótið.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson