Uppbygging Hótel Vos hefur verið rekið við góðan orðstír frá 2017. Loo Eng Wah hyggst stækka hótelið mikið á næstu árum og auka umsvif þess.Hótelið er núna rúmir 600 fermetrar.
Uppbygging Hótel Vos hefur verið rekið við góðan orðstír frá 2017. Loo Eng Wah hyggst stækka hótelið mikið á næstu árum og auka umsvif þess.Hótelið er núna rúmir 600 fermetrar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég held að menn séu áhugasamir um að skoða hvort þarna séu tækifæri til að gera meira. Við teljum klárlega að Vos geti vaxið,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég held að menn séu áhugasamir um að skoða hvort þarna séu tækifæri til að gera meira. Við teljum klárlega að Vos geti vaxið,“ segir Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra.

Malasíski kaupsýslumaðurinn Loo Eng Wah hefur fest kaup á Hótel Vos í Þykkvabæ og hefur tekið við rekstri þess. Hótelið hefur verið í rekstri síðan árið 2017 og greiddi félag í eigu Loos 260 milljónir króna fyrir það. Þar af var yfirtaka á skuldum upp á 90 milljónir, að því er fram kom á vef Viðskiptablaðsins á dögunum.

Loo hefur stór áform um uppbyggingu á svæðinu sem er við bæinn Norður-Nýjabæ. Áformin eru svo stórtæk að þau kalla á nýtt deiliskipulag og breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Hótelið er núna rúmir 600 fermetrar að stærð og þar rúmast 55 gestir í 18 herbergjum. Loo stefnir á allt að 5.000 fermetra stækkun á núverandi hótelbyggingum á allt að þremur hæðum. Smíðaverkstæði á staðnum verði stækkað í allt að 1.500 fermetra. Þá verði starfsfólki heimiluð föst búseta á svæðinu í allt að 12 litlum íbúðum í rað- og parhúsum. Jafnframt er gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði með allt að þremur íbúðarhúsalóðum. Séraðkoma verði að hverri lóð.

Gestum verður ekki í kot vísað. Fyrir er glæsilegur veitingastaður og Loo hyggst auk þess bjóða upp á afþreyingu á svæðinu, til að mynda fjöruferðir, útsýnis- og norðurljósaferðir. Gerðir verða göngustígar með útsýnisstöðum.

Opnar veitingastað á Hellu

Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um uppbyggingaráform Loos í Rangárþingi ytra síðustu fimm árin. Stórtæk uppbygging hans að Leyni 2 og 3 í Landsveit hefur verið afar umdeild og mætt andstöðu nágranna en þar hugðist hann reisa allt að 200 fermetra þjónustuhús fyrir tjaldsvæði, allt að 800 fermetra byggingu fyrir veitingastað, verslun, móttöku og fleira og allt að 45 gestahús á einni hæð, sum þeirra 60 fermetra að stærð og kúluhús við hvert og eitt. Ekkert hefur þokast í uppbyggingu þar síðasta árið eftir að endanlega varð ljóst að framkvæmdir Loos þurfa að fara í umhverfismat eigi þær að halda áfram.

Þá hefur hann fengið úthlutaðar þrjár lóðir á Hellu. Jón sveitarstjóri segir við Morgunblaðið að Loo hafi nú skilað tveimur lóðanna en stefni enn á framkvæmdir á þeirri þriðju. Sú er við bensínstöð Orkunnar. Hyggst Loo byggja þar veitingastað en eftir á að klára eignaskiptasamning milli hans og Orkunnar. „Þetta er í skipulagsfasa,“ segir sveitarstjórinn.