Eftir tæplega hálftíma símaspjall mitt við hinn einstaka Brynjar Karl Sigurðsson, sem má að hluta til sjá hægra megin við þennan bakvörð, er erfitt fyrir mig að heillast ekki af manninum. Brynjar fer sínar eigin leiðir og er ófeiminn við að segja…

Jóhann Ingi

Hafþórsson

Eftir tæplega hálftíma símaspjall mitt við hinn einstaka Brynjar Karl Sigurðsson, sem má að hluta til sjá hægra megin við þennan bakvörð, er erfitt fyrir mig að heillast ekki af manninum.

Brynjar fer sínar eigin leiðir og er ófeiminn við að segja skoðanir sínar, þótt hann viti manna best að þær kunni að vera umdeildar. Brynjar vakti mikla athygli, jákvæða sem neikvæða, þegar heimildarmyndin Hækkum rána kom út árið 2021.

Í henni var fjallað um réttindabaráttu 8-13 ára stúlkna sem Brynjar þjálfaði á sinn hátt, líkt og þær væru fullorðnir atvinnumenn, og hvernig þær máttu ekki spila gegn strákum í sama aldursflokki.

Þegar lið Brynjars varð meistari í sínum flokki tóku leikmenn hans verðlaunapeningana utan af hálsinum, misstu þá viljandi í gólfið og gengu í burtu þar sem körfuboltinn snerist um eitthvað miklu meira en að vinna titla. Körfuboltaæfingarnar voru orðnar að kvenréttindabaráttu hjá ungum stúlkum sem voru ófeimnar við að taka pláss og láta í sér heyra.

Þjálfunaraðferðir Brynjars eru hins vegar ekki allra og mörgum þykir hann allt of harður við leikmenn á öllum aldri. Er hann ófeiminn við að öskra á barnungar stúlkur þegar honum þykir tilefni til.

Fólk má sannarlega vera á móti þeim aðferðum, en hjartað er á réttum stað hjá Brynjari. Hann trúir því innilega að hann sé að gera það sem er best fyrir hans leikmenn, þótt margir eigi erfitt með að sjá þann vinkil. Hann brennur fyrir að styrkja leikmenn sína, innan sem utan vallar, á sinn einstaka hátt.