Flókin staða kemur upp þegar konur kjósa að fæða barn án aðkomu fagfólks. Ekki er alltaf auðvelt að sannreyna að kona hafi raunverulega fætt það barn sem hún sækist eftir að skrá ef hún hefur hvorki sótt þjónustu mæðraverndar á meðgöngu né fætt barnið með aðkomu fagaðila

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Flókin staða kemur upp þegar konur kjósa að fæða barn án aðkomu fagfólks.

Ekki er alltaf auðvelt að sannreyna að kona hafi raunverulega fætt það barn sem hún sækist eftir að skrá ef hún hefur hvorki sótt þjónustu mæðraverndar á meðgöngu né fætt barnið með aðkomu fagaðila.

Það sem af er ári hafa þrjú börn fæðst án aðkomu fagfólks á Íslandi. Á síðasta ári voru börnin að minnsta kosti sex. Talan gæti þó verið hærri því að dæmi eru um að foreldrar kjósi að skrá börn sín ekki inn í kerfið og því eru engar heimildir til um tilvist þeirra.

Milli steins og sleggju

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að heimaljósmæður hafi í einhverjum tilfellum farið heim til fjölskyldna skömmu eftir fæðingu barns og skráð nýfædd börn inn í kerfið. Er það þó ekki gert nema að undangenginni skoðun á móður og barni.

„Ég held að heilbrigðiskerfið sé dálítið milli steins og sleggju af því að það er í raun ekkert verklag,“ segir Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítalanum, spurð að því hvernig skrá eigi börn inn í kerfið sem fæðast án aðkomu fagfólks.

Að mati félagsráðgjafa sem Morgunblaðið ræddi við er gat í kerfinu og ef það er notað skapist leið fyrir staðgöngumæðrun án eftirlits.

Heilbrigðisstarfsmenn segja tímaspursmál hvenær upp komi mansalsmál.

Höf.: Klara Ósk Kristinsdóttir