Fjöruböðin Aðstaðan er hönnuð með tilvísun til verbúða og burstabæjanna. Einn pottur verður eins og áttæringur.
Fjöruböðin Aðstaðan er hönnuð með tilvísun til verbúða og burstabæjanna. Einn pottur verður eins og áttæringur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er búinn að ganga með þessa hugmynd í maganum í 10-15 ár og nú ætlar hún loksins að verða að veruleika,“ segir Elvar Reykjalín, framkvæmdastjóri Ektafisks á Hauganesi í Eyjafirði og frumkvöðull í ferðaþjónustu á staðnum

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég er búinn að ganga með þessa hugmynd í maganum í 10-15 ár og nú ætlar hún loksins að verða að veruleika,“ segir Elvar Reykjalín, framkvæmdastjóri Ektafisks á Hauganesi í Eyjafirði og frumkvöðull í ferðaþjónustu á staðnum.

Elvar og hans fólk hafa síðustu ár boðið upp á vinsæla baðaðstöðu á Hauganesi og veitingastað. Hefur þetta notið slíkra vinsælda að færri komast að en vilja. Nú á að gera bragarbót á og á teikniborðinu er mikil uppbygging á svæðinu; stækka á baðsvæðið og bæta, byggja hótel og fjölda smáhýsa fyrir gesti. Elvar segir í samtali við Morgunblaðið að skrifað verði undir viljayfirlýsingu við Dalvíkurbyggð í næstu viku um land undir þessi áform og vel hafi verið tekið í þau í sveitarstjórninni.

Mun baðaðstaðan hér eftir kallast Fjöruböðin. Ný og stærri böð verða byggð vestan við núverandi pottasvæði og segir Elvar að sami andi muni svífa yfir vötnum og á því fyrra sem hann byggði sjálfur fyrir átta árum. „Pottarnir hafa misheitt hitastig og eru annaðhvort ferskvatns- eða saltvatnspottar. Aðstaðan við Fjöruböðin er hönnuð með tilvísun til eldri verbúða og íslensku burstabæjanna og hefur sex burstir,“ segir í kynningu. Elvar segir enn fremur að næsta árið fari í undirbúningsvinnu og vonast hann til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Í millitíðinni sé verið að setja upp nýja klósett- og snyrtiaðstöðu og þjónustuhús fyrir tjaldsvæðið og pottana sem nýtist þar til uppbyggingu lýkur.

Í þessum uppbyggingaráformum er gert ráð fyrir byggingu um 30 bústaða í þremur mismunandi stærðum ofan við tjaldsvæðisreitinn. Þá verður byggt 40 herbergja hótel vestan við Fjöruböðin. Elvar segir að mikill skortur sé á gistingu á þessu svæði. Tækifæri séu til að laða fleiri ferðamenn að á veturna enda sé Hauganes vel staðsett út frá mörgum vinsælum skíðasvæðum fyrir norðan. „Það er svo margt hægt að gera hérna. Þetta er paradís,“ segir Elvar sem kveðst telja að hægt sé að skapa allt að 20 störf á svæðinu með þessari uppbyggingu. Hann hefur fengið til liðs við sig fjárfesta sem meðal annars hafa komið að byggingu hótels við Friðheima. Stefnt er að því að þessari uppbyggingu verði að mestu lokið árið 2029.

„Aðalmálið er að gera þetta vel og ekki spilla neinu. Við viljum fegra umhverfið hér. Þetta litla sjávarþorp er ekki lengur með útgerð og ég hef verið að minnka fiskvinnsluna hjá mér. Þetta gæti orðið alger bylting fyrir staðinn.“