Bleikt „Herdís Anna [Jónasdóttir] var mjög sannfærandi á „sviðinu“, lék og söng jöfnum höndum,“ segir í rýni um Óperuna hundrað þúsund.
Bleikt „Herdís Anna [Jónasdóttir] var mjög sannfærandi á „sviðinu“, lék og söng jöfnum höndum,“ segir í rýni um Óperuna hundrað þúsund. — Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið Óperan hundrað þúsund ★★★★★ Tónlist: Þórunn Gréta Sigurðardóttir. Texti: Kristín Eiríksdóttir. Leikstjórn: Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir. Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir. Lýsing: Friðþjófur Þorsteinsson. Myndband: Hákon Pálsson. Hljóðfæraleikarar: Katie Elizabeth Buckley, Franciscus Wilhelmus Aarnik og Grímur Helgason. Einsöngur: Herdís Anna Jónasdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 3. maí 2024.

ópera

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það er ekki á hverjum degi sem ný íslensk ópera er frumsýnd. Leikhópurinn Svartur jakki í samstarfi við Þjóðleikhúsið stóð hins vegar fyrir slíkum viðburði í Kassanum fyrsta föstudag maímánaðar. Verkið sem um ræðir ber heitið Óperan hundrað þúsund og er eftir tónskáldið Þórunni Grétu Sigurðardóttur við líbrettó Kristínar Eiríksdóttur.

Um er að ræða um það bil klukkustundarlangan einþáttung sem segir af því er hirðbílstjóri veikist og neyðist þá drottningin til þess að taka leigubíl. Skemmst er frá því að segja að leigubílstjórinn finnur ekki höllina á staðsetningartæki sínu og fær reisupassann. Allt að því hugstola drottningin vill þó vita hvers vegna almenningur er svona niðurdrepandi og hvort hún getur komið honum til hjálpar. Í lýsingu leikhópsins segir enn fremur: „Óperan hundrað þúsund fjallar um molana sem hrynja af svignandi borðum, detta í gólfið og eru fljótlega ryksugaðir.“

Það fyrsta sem áhorfendur taka eftir við komu í salinn er að höfð hafa verið endaskipti á sætum og sviði. Meðal annarra orða, þá standa áhorfendur á sviðinu en óperan er flutt á áhorfendapöllum. Á heimasíðu Þjóðleikhússins er mælt með að áhorfendur mæti í þægilegum skófatnaði, enda eru aðeins stólar fyrir fótfúna, aðrir standa. Þar sem þessi tilmæli höfðu farið fram hjá undirrituðum mætti hann á „dönskum“ skóm. Reyndar kom það lítt að sök því þessi klukkustund leið hratt, enda verkið mikið sjónarspil.

Tónlist Þórunnar Grétu Sigurðardóttur er gegnumsamin og það eru því ekki eiginlegar aríur í verkinu, það er að segja í þeim skilningi sem við myndum leggja í það orð værum við að fara að sjá uppfærslu á hefðbundnum verkum eftir til að mynda Verdi eða Puccini. Hljóðfæraskipan er líka önnur en við eigum að venjast í eldri verkum: Harpa, klarínett, slagverk og ýmsir aukahlutir sem gefa frá sér hljóð. Mér fannst tónlistin á margan hátt grípandi og vel samin. Hún kom líka skemmtilega á óvart hér og þar og greinilegt að hugmyndaflug tónskáldsins er mikið. Texti Kristínar Eiríksdóttur var líka skarpur og hnyttinn; raunar uppfullur af ádeilu á samfélagið og gildismat þess.

Það var bara ein söngkona á sviðinu, Herdís Anna Jónasdóttir, en persónurnar sem hún túlkaði voru þrjár talsins: Drottningin, móðirin og dóttirin. Herdís Anna var mjög sannfærandi á „sviðinu“, lék og söng jöfnum höndum, og textaframburður var í flestum tilvikum eins og best verður á kosið. Létt og lýrísk rödd hennar barst vel, eiginlega sama hvar hún stóð í Kassanum. Hljóðfæraleikur var í höndum Katie Buckley, Franks Aarniks og Gríms Helgasonar og hann var góður og studdi oftast vel við sönginn (ekki síst hrynjandi). Hljóðfæraleikarar brugðu sér líka í ýmis önnur hlutverk í sýningunni; þannig sýndi Frank Aarnik til að mynda mikla leikræna tilburði í uppfærslunni.

Leikmynd og búningar Guðnýjar Hrundar Sigurðardóttur voru frumleg og mikið gert úr litum; andrúmsloftið var allt í bleikum tón. Mér fannst hins vegar lýsing Friðþjófs Þorsteinssonar nánast stela senunni á köflum, ekki síst í stórfenglegri lokasenunni. Myndband eftir Hákon Pálsson lék stórt hlutverk en heildarbragur, það er að segja leikstjórn, var í höndum Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur. Af uppfærslunni að dæma hafði hún skýra sýn á verkið og inntak þess.

Ég er sjálfsagt farinn að hljóma eins og gömul plata þegar ég nefni tvennt: Mikilvægi þess að setja á svið óperur á Íslandi og nauðsyn þess að samtímatónlist fái að njóta sín. Allir vita að Íslenska óperan hefur safnast til feðra sinna og það er vel að Þjóðleikhúsið sinni því hlutverki að sinna opinberum óperuflutningi á meðan beðið er eftir næstu skrefum stjórnvalda. Mikil gróska er í grasrótinni, svo mikið er víst. Hvað samtímatónlist varðar gerir Þórunn Gréta Sigurðardóttir vel í að takast á við óperuformið og sýnir með sannfærandi hætti fram á að allar fréttir af andláti þess eru stórlega ýktar. Bæði flutningur og hljóðritun á samtímatónlist eru gríðarlega mikilvægur þáttur í listalífi sjálfstæðra þjóða. Það er alkunna að tíminn er fljótur að líða og þessi tónlist verður orðin klassísk áður en við náum að depla auga.