Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að stýrvextir verði lækkaðir um hálfa prósentu á seinni helmingi þessa árs og standi í 8,75% um næstu áramót. Seðlabanki Íslands tilkynnti í gærmorgun ákvörðun sína um að stýrivextir yrðu óbreyttir

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að stýrvextir verði lækkaðir um hálfa prósentu á seinni helmingi þessa árs og standi í 8,75% um næstu áramót.

Seðlabanki Íslands tilkynnti í gærmorgun ákvörðun sína um að stýrivextir yrðu óbreyttir. Næsta ákvörðun peningastefnunefndar verður tilkynnt þann 21. ágúst næstkomandi.

Í yfirlýsingu nefndarinnar kom fram að áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum á eftirspurn væru ekki að fullu komin fram. Þótt hægt hefði á vinnumarkaði væri spenna enn til staðar sem gæti ýtt undir launaskrið með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.

Í greiningu Íslandsbanka kemur fram að á næsta ári gætu vextirnir lækkað umtalsvert ef spárnar um kaldara hagkerfi og hjaðnandi verðbólgu ganga eftir. Greiningardeildin gerir ráð fyrir að stýrivextir verði komnir niður í 6-6,5% í árslok 2025. Samkvæmt könnun markaðsaðila sem birt var á dögunum hafa væntingar um vaxtalækkunarferli að jafnaði hliðrast fram í tímann miðað við fyrri kannanir sem gerðu ráð fyrir vaxtalækkunarferli nú í vor. Miðað við miðgildi svara í könnuninni gera aðilar á fjármálamörkuðum ráð fyrir því að vaxtalækkunarferli hefjist á þriðja ársfjórðungi, stýrivextir verði komnir niður í 8,5% um áramótin og í 7,25% á vordögum 2025.