Á flugi Krían er ekki allra og getur verið forn í skapi á slæmum degi.
Á flugi Krían er ekki allra og getur verið forn í skapi á slæmum degi. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Ísfirðingar leitast áfram við að finna lausn á vandamáli tengdu kríunni í Skutulsfirði. Íbúar í Tunguhverfi, eða inni í firði eins og heimamenn orða það gjarnan, eru margir hverjir orðnir leiðir á sambúðinni við kríuna

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ísfirðingar leitast áfram við að finna lausn á vandamáli tengdu kríunni í Skutulsfirði. Íbúar í Tunguhverfi, eða inni í firði eins og heimamenn orða það gjarnan, eru margir hverjir orðnir leiðir á sambúðinni við kríuna.

Krían hefur fært sig til í Skutulsfirði ef horft er til nokkurra áratuga. Seint á síðustu öld var hún inni í firði en þá hafði minna verið byggt á svæðinu. Þar sem Bónus-verslunin stendur í dag var áður malarvöllur fyrir knattspyrnuiðkendur svo dæmi sé tekið. Síðar færði krían sig á Suðurtangann og mun hafa haldið sig þar í allmörg sumur áður en hún tók aftur stefnuna nærri Tunguhverfinu.

Cristian Gallo, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða, segir ekki mikið ákjósanlegt land í boði fyrir varpið nærri þeim slóðum sem varpið var upphaflega. Hann segir Íslendinga hafa litla reynslu af því að stýra kríuvarpi á nýja staði en það sé ekki óþekkt erlendis.

Gallo fór yfir málin á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar nýlega en aðgerðir sem gripið var til í fyrra virkuðu ekki að hans sögn þegar reynt var að halda kríunni frá leikvöllum og göngustígum í hverfinu með viðvörunarhljóðum. Til standi að reyna að leysa málin í samvinnu við bæinn. Mögulega sé hægt að finna nálægt svæði þar sem fuglinn geti verið rólegri og íbúarnir ánægðari.

Krían er friðuð en kríuvarp er það ekki. Cristian bendir á að þótt krían geti verið stygg vegna mannaferða þá sæki hún samt sem áður í að vera nærri mannabyggðum. Í því felist visst öryggi fyrir fuglinn í náttúrunni en krían sé vissulega ógnandi við manninn þegar hún er búin að verpa eða þegar ungarnir eru litlir.