Engum lík Læðan Púkarófa var afar sérstök læða og þrautseig, enda lifði hún við harðneskju villikatta í 15 ár.
Engum lík Læðan Púkarófa var afar sérstök læða og þrautseig, enda lifði hún við harðneskju villikatta í 15 ár. — Ljósmyndir/Kolbeinn Vorms
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Púkarófa var mögnuð læða, sérdeilis falleg með gulgræn augu og gríðarlega þrautseig. Hún varð 17 ára, sem er mjög hár aldur fyrir villikött. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að fóstra hana tvö síðustu ár ævi hennar,“ segir Kristín…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Púkarófa var mögnuð læða, sérdeilis falleg með gulgræn augu og gríðarlega þrautseig. Hún varð 17 ára, sem er mjög hár aldur fyrir villikött. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að fóstra hana tvö síðustu ár ævi hennar,“ segir Kristín Kolbeinsdóttir um frægu villilæðuna Púkarófu sem fór í sumarlandið nú í byrjun maí, eftir harða og viðburðaríka ævi.

„Púkarófa átti stóran aðdáendahóp og var einhverju sinni valin samfélagsmiðlastjarna dýranna, enda hafa margir fylgst með henni árum saman á Facebook-síðunni Óskasjóður Púkarófu. María Þorvarðardóttir sér um Óskasjóð Púkarófu, sem er styrktarsjóður hafnfirskra villikatta, og Púkarófa kom sjóðnum af stað þegar María kynntist henni. Á vegum sjóðsins er villiköttum í bænum gefið, þeim skaffað kisuskjól og ungir kettir fangaðir til að fara með þá í geldingu.“

Kristín segir að læðan Púkarófa hafi komið í heiminn í lóninu í Hafnarfirði og hafi verið villiköttur næstum alla ævi, eða í 15 ár.

„Ég kynntist henni fyrir sjö árum þegar ég byrjaði að gefa villiköttum á gjafasvæði mínu, en þar var hún drottningin sem réð yfir öllu. Ég heillaðist af henni, hún var svo falleg og sérstök, rosalega stór persónuleiki. Eftir að hafa gefið henni úti annan hvern dag í fimm ár, þá myndaðist smám saman ákveðið traust á milli mín og Púkarófu, þó að hún hafi aldrei leyft mér að snerta sig eða klappa.

Í desember fyrir tveimur árum var ákveðið að grípa inn í, því hún var með mikla hnjúska á bakinu, en út frá þeim geta komið sýkingar og sár. Við náðum henni í fellibúr og henni var gefið róandi áður en dýralæknir rakaði af henni allt hár á bakinu, til að losa hana við hnjúskana. Hún var líka með þvagfærasýkingu og komin með gigt. Þar sem þetta var um hávetur kom ekkert annað til greina en að fóstra Púkarófu inni á meðan hún jafnaði sig. Villikattasamfélagið er þannig að um leið og sá köttur sem ræður yfir ákveðnu svæði fer í burtu, þá missir hann yfirráð sín.

Þannig var það með Púkarófu, nýr villiköttur tók hennar sess og hún hefði því ekki átt afturkvæmt. Ég græjaði því gestaherbergið mitt fyrir hana og þar var ég með myndavél til að fylgjast með henni. Hún var með ákveðinn stað í herberginu þar sem hún faldi sig þegar ég kom inn til hennar með mat og til að skipta um sand, en hún sendi mér eitrað augnaráð frá felustað sínum. Hún horfði á mig eins og ég væri fífl þegar ég kom með dót í bandi handa henni.“

Var rámari en Janis Joplin

Kristín segir að aðlögunarferlið hafi verið langt, enda fjórir aðrir kettir fyrir á heimilinu og allir fyrrverandi villikettir.

„Ég keypti barnaöryggishlið til að hafa í dyrunum á Púkarófuherbergi, en heimiliskettirnir stukku ekki yfir til að fara inn til hennar, enda var hún miklu eldri en þeir. Þeir virtu lífsreyndu drottninguna, en sáu inn til hennar og hún sá fram til þeirra. Púkarófa varð smám saman forvitnari og eftir tæpa fimm mánuði fór hún að kíkja fram og hún gargaði á mig til að láta mig opna hliðið. Villikettir mjálma ekki þegar þeir eru villtir úti í náttúrunni, því kettir mjálma fyrst og fremst til að eiga samskipti við fólk. Þegar Púkarófa fór að mjálma var hún rámari en Janis Joplin,“ segir Kristín og hlær að minningunni.

„Sambýlið gekk fáránlega vel með hinum köttunum og Púkarófa fór að leika sér með dót, uppáhaldið hennar var fjólublá hjartalaga mús, sem nú er komin inn í glerskáp hjá mér með öðrum gersemum. Púkarófa færði sig smám saman meira upp á skaftið og fór að lokum að hoppa aðeins upp í sófa og jafnvel upp í rúm, en allt var þó á hennar hraða og forsendum. Hún leyfði hvorki mér né neinum öðrum að klappa sér eða halda á sér. Ég vildi ekki þvinga hana til þess, ég vildi ekki missa traustið, enda stóð aldrei til að gera hana að heimiliskisu. Við vildum bara að hún væri sátt og örugg, en ég fékk stundum að strjúka aðeins á henni loppurnar.

Mér finnst með ólíkindum að kisa sem hafði verið villiköttur í 15 ár hafi náð að aðlagast mannaheimili með fjórum öðrum köttum. Við hleyptum henni eðli málsins samkvæmt aldrei út, en þegar nágrannaköttur okkar vogaði sér að kíkja á glugga hjá okkur, þá tjúllaðist hún og fór að verja sitt heimili. Hún beit okkur aldrei eða klóraði en Púkarófu var laus loppan, hún var dugleg að slá mig, fast, ef henni mislíkaði. Hún var hrikalega vanaföst, ef ég brá út af morgunrútínu í tengslum við matinn hennar, þá lamdi hún mig eins og harðfisk með loppunni. Hún hefði verið góð í boxhringnum, enda algjör nagli sem hafði lifað við erfiðar aðstæður í heimi villikatta. Undir það síðasta gat ég næstum matað hana og hún elti mig. Ef ég svaf of lengi þá sat hún í herbergisdyrunum og gargaði á mig. Ég var fullnýttur þjónn.“

Trillukarlar gáfu henni nafn

Kristín segir að Púkarófa hafi fengið nafnið sitt af því að hún hafi verið algjör púki.

„Nafnið gáfu henni trillukarlarnir í lóninu, þar sem hún kom í heiminn, en sömu karlar hafa verið með sína útgerð þar árum saman og eru enn. Þeir heilluðust af henni, eins og aðrir, enda var eitthvað sérstakt við Púkarófu og tvö fyrirtæki á Hvaleyrarholtinu hugsuðu vel um hana þegar hún var villilæða. Þar fékk hún rjóma á hverjum morgni,“ segir Kristín og bætir við að sérstakt útlit Púkarófu, stutt sver rófa og stuttir fætur, séu áberandi einkenni á afkomendum hennar.

„Læðan Snjóloppa býr núna á svæði Púkarófu ömmu sinnar, en ég fylgist með mörgum afkomendum hennar.“

Kristín segir að síðustu mánuðina í lífi Púkarófu hafi hún flutt inn í herbergi til sonar hennar, en þá var hún farin að heyra og sjá illa.

„Hún varð fyrir vikið svolítið óörugg, ef kettirnir hlupu óvænt fram hjá henni hvæsti hún á þá, því hún heyrði þá ekki koma. Hún léttist hratt undir það síðasta og var orðin mikið veik, svo við ákváðum að leyfa henni að fara í sumarlandið. Það var hræðilega erfitt, en við kveðjustundina gat ég knúsað hana, þegar búið var að gefa henni róandi lyf. Þetta var dýrmæt stund mikillar snertingar með einstakri kisu. Hún var rosalega harður villiköttur fyrstu árin sín, enginn hefði viljað mæta Púkarófu í myrkri, hún var árásargjörn yfirráðadrottning. Ég er þakklát fyrir að hafa náð að gefa henni þessi rúmlega tvö síðustu ár hennar inni í hlýjunni, þar sem hún var ofdekruð.“