Þjálfarinn Brynjar Karl Sigurðsson var kampakátur þegar lokaflautið gall á Sauðárkróki og Aþena var komin upp í úrvalsdeild í fyrsta skipti.
Þjálfarinn Brynjar Karl Sigurðsson var kampakátur þegar lokaflautið gall á Sauðárkróki og Aþena var komin upp í úrvalsdeild í fyrsta skipti. — Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er mesta þrjóskupróf sögunnar,“ var það fyrsta sem Brynjar Karl Sigurðsson þjálfari Aþenu sagði er hann ræddi við Morgunblaðið í gær. Brynjar stýrði Aþenuliðinu upp í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í fyrsta skipti á…

Aþena

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Þetta er mesta þrjóskupróf sögunnar,“ var það fyrsta sem Brynjar Karl Sigurðsson þjálfari Aþenu sagði er hann ræddi við Morgunblaðið í gær. Brynjar stýrði Aþenuliðinu upp í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í fyrsta skipti á þriðjudagskvöld, en félagið var stofnað árið 2019 og hafa hlutirnir því gerst ansi hratt.

Aþena hafði betur gegn Tindastóli, 3:1, í úrslitaeinvígi um sæti í deild þeirra bestu. Þar á undan vann Aþena sigur á KR í einvígi sem fór í oddaleik. Aþena hefur því leikið níu úrslitaleiki á skömmum tíma.

„Þetta er eins og heilt tímabil þegar deildin er búin. Þeir þekkja það sem hafa tekið þátt í úrslitakeppni, en stelpurnar mínar eru að gera þetta í fyrsta skipti,“ sagði hann.

Brynjar sagði það ekki skipta miklu máli fyrir sig í hvaða deild Aþena spilar, en það hjálpaði félaginu á bak við tjöldin gríðarlega að fara upp. Félagið fengi meiri stuðning sem úrvalsdeildarfélag, stuðning sem félagið þarf á að halda.

Drullusama í hvaða deild

„Ég er að keyra félag þar sem allt snýst um þróun. Fyrir mér snýst þetta um að gera stelpurnar góðar og ég hef aldrei tekið því mjög alvarlega að vinna einhverja titla. Mér er drullusama um hvar stelpurnar mínar eru að spila, hvort það sé 1. deildin eða efsta deild. Markmiðið er líka að vinna en aðalatriðið er að búa til góða körfuboltaleikmenn,“ sagði Brynjar og hélt áfram:

„Það skiptir miklu máli fyrir félagið að vinna þetta, því ég er með viðkvæmt félag í höndunum. Við erum á öðru ári í Efra-Breiðholti og það hefði orðið reiðarslag að vera áfram í 1. deild. Að fara upp virðist vera það eina sem okkar umhverfi skilur.

Ég gæti verið að hjálpa fullt af krökkum sem eru ekki í rosalega góðum málum en borginni og þeim sem eru í kringum þetta, stuðningsaðilum og öllum, er alveg sama um það. Þú færð hins vegar mikinn meðbyr með því að vinna titla og það er sorglegt að það sé staðan. Þetta var mikilvægt fyrir þetta hverfi og kvennakörfuboltann,“ útskýrði Brynjar.

Eins og áður hefur komið fram er Brynjari sjálfum sama um í hvaða deild lið hans spilar og því ákveðin kaldhæðni í því hve mikilvægt það var fyrir félagið að lið hans fór upp um deild.

„Það að fara upp var ekki aðalmálið og það var svolítið gott á mig að ég hafi verið settur í þessa stöðu að koma liðinu upp til að halda félaginu og baráttunni á lífi,“ sagði hann.

Þegar meistaraflokkur Aþenu varð til æfði liðið á Kjalarnesi. Síðustu tvö ár hefur liðið hins vegar verið í Efra-Breiðholti, þar sem fer vel um félagið unga. Hann ætlar að berjast fyrir því að vera áfram í Breiðholtinu. „Ef guð og borgaryfirvöld leyfa,“ svaraði Brynjar, en er hann bjartsýnn á að það gangi upp? „Bjartsýnismennirnir deyja fyrstir. Við þurfum að berjast fyrir þessu.“

Englar sem vernda okkur

Aþena er mjög lítið félag, enda aðeins fimm ára gamalt. Það er erfitt að halda uppi meistaraflokki og margt sem þarf að ganga upp.

„Við eigum engla sem vernda okkur og halda þessu gangandi. Það er samt mjög þunnskipaður hópur,“ sagði Brynjar, en mikil uppbygging á sér stað hjá Aþenu um þessar mundir.

„Við höfum verið að byggja upp yngri flokkana og vaxið fiskur um hrygg í þeirri deild. Það eru hins vegar ekki mörg fyrirtæki að styrkja Breiðholtið, en þetta er ódýr rekstur. Ég þjálfa frítt og það eru allir að gera allt frítt þarna. Þetta eru svo varla laun sem atvinnumennirnir okkar eru á, við höldum þeim bara gangandi,“ útskýrði hann.

Brynjar er umdeildur í körfuboltahreyfingunni á Íslandi og vegna þessa getur verið erfitt að fá nýja leikmenn. Þrátt fyrir það tókst honum að stýra liðinu upp um deild.

„Við fengum okkur bandarískan leikmann og svo erum við með pólska stelpu sem kom til okkar í september. Svo erum við búin að vera á fullu að leita að leikmönnum. Ef einhver kann að reima á sig skóna og að drippla er sá velkominn.“

Svíkja stelpurnar alla daga

„Við erum með svo fáar stelpur að við náum varla í lið. Það vilja engar eldri stelpur koma. Margar af þessum stelpum eru helvíti litlar í sér og vilja ekki koma í pönkið í Breiðholti,“ sagði hann ákveðinn.

Brynjar stofnaði Aþenu árið 2019 því honum fannst körfuboltahreyfingin ekki gera nóg til að lyfta kvennakörfunni upp. Hann fór ekki í felur með að honum þætti kvennakörfuboltinn á Íslandi ekki góður.

„Staðallinn í íslenskum kvennakörfubolta er hræðilegur. Aþena er stofnuð til að rífa þetta upp. Það er ekki verið að tala stelpurnar niður heldur verið að tala niður alla þá þjálfara og félög sem eru að svíkja stelpurnar á hverjum einasta degi. Það er ástæðan fyrir því að kvennakörfubolti er á verri stað og stelpurnar upplifa sig sem þriðja flokks borgara í stéttinni.

Þeim eru ekki gefin tækifæri og það eru ekki gerðar sömu kröfur. Kúltúrinn er fullur af bleikum sleikjum sem talar stelpurnar niður á lúmskan hátt. Þetta er svakalegt mein í íslensku íþróttalífi. Þetta er ástæða þess að Aþena var stofnuð. Það má ekki gleyma því,“ sagði Brynjar.

Tala okkur niður

Hann finnur fyrir slæmu umtali hjá leikmönnum annarra félaga í garð Aþenu. Brynjar sagði sína leikmenn vera að taka slaginn sem aðrar kynslóðir hafa haldið sig frá.

„Við erum svo með eldri stelpur í hreyfingunni sem tala okkur niður líka, því þær eru svo litlar í sér vegna þess að það eru yngri stelpur að taka slaginn sem þær hefðu átt að taka. Munurinn er sá að mínar stelpur eru búnar að fá hörkuuppeldi. Þær taka pláss og láta í sér heyra. Þær eru óhræddar við að gera mistök og setja sinn eigin staðal.“

En hvernig lítur næsta ár út hjá Aþenu?

„Nú leggjum við þetta bara niður,“ sagði Brynjar og hló en var snöggur að taka fram að um grín væri að ræða. „Þrjóskukastið er rétt að byrja,“ sagði Brynjar Karl.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson