Nýkrónur Peningaseðlarnir fjórir sem gefnir voru út í janúar 1981. Þrír þeirra féllu úr gildi aldarfjórðungi síðar.
Nýkrónur Peningaseðlarnir fjórir sem gefnir voru út í janúar 1981. Þrír þeirra féllu úr gildi aldarfjórðungi síðar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1981 „Þetta hefði þurft að gera fyrir löngu, það er ófært að hafa verðlausa peninga milli handanna.“ Gunnar Proppé verslunarmaður

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Það ríkti talsverð eftirvænting meðal þjóðarinnar föstudaginn 2. janúar árið 1981 þegar settir voru í umferð nýir peningaseðlar og mynt þar sem tvö núll höfðu verið tekin af gömlu krónunni. Á þessum tíma voru verslanir flestar lokaðar 2. janúar ár hvert vegna vörutalningar og bankar sömuleiðis. En þennan dag voru bankar og sparisjóðir opnaðir kl. 10 um morguninn þar sem fólk gat komið og skipt gömlum krónum yfir í nýjar þótt aðrar deildir bankanna væru lokaðar. Þá voru nokkrar verslanir opnaðar eftir hádegið þegar þær höfðu orðið sér úti um nýja gjaldmiðilinn.

„Þetta hefði þurft að gera fyrir löngu síðan, það er ófært að hafa verðlausa peninga milli handanna,“ sagði Gunnar Proppé verslunarmaður, einn þeirra sem biðu eftir að skipta peningum þennan morgun og Morgunblaðið tók tali. „Ég býst ekki við öðru en gjaldeyrisbreytingin gangi vel fyrir sig. Öll helstu atriðin voru útskýrð ágætlega í bæklingunum sem Seðlabankinn gaf út og fólk fer rólega í sakirnar,“ bætti hann við en gömlu krónurnar voru áfram löglegur gjaldmiðill næsta hálfa árið.

Þessi breyting úr gamalli krónu í nýja hafði verið í undirbúningi í nokkur ár. Viðvarandi verðbólga hafði gert það að verkum að gildandi mynt var orðin alltof dýr í framleiðslu miðað við verðgildi. Nokkrum árum áður hafði krónupeningur verið sleginn úr áli til að draga úr kostnaði; gárungarnir kölluðu þennan pening flotkrónu því hann flaut á vatni. Einnig voru færð þau rök fyrir gjaldmiðilsbreytingu að hún kynni að hafa hagstæð sálræn áhrif, draga úr verðbólguhugsunarhætti og gæti orðið tákn þess, að ný stefna væri tekin upp í efnahagsmálum.

Baráttan við verðbólgu

Alþingi samþykkti árið 1979 lög um verðgildi íslensks gjaldmiðils og í greinargerð með lagafrumvarpinu sagði m.a. að ríkisstjórnin hefði gert baráttuna gegn verðbólgunni að höfuðstefnumiði sínu.

„Enn er ekki víst, hvort þeirri viðleitni fylgi árangur sem erfiði. Hins vegar telur hún, að gjaldmiðilsbreyting nú sé ekki aðeins viðskiptalega hagkvæm, heldur leggi hún áherslu á þann eindregna vilja stjórnvalda, að hinn íslenski gjaldmiðill sé hafinn til vegs á ný og varðveisla verðgildis hans verði í framtíðinni eitt meginmarkmið íslenskrar efnahagsstefnu,“ sagði m.a. í greinargerðinni.

Um áramótin 1981 voru gefnir út fjórir nýir peningaseðlar, 10 krónur, 50 krónur, 100 krónur og 500 krónur auk þess sem slegnar voru nýjar myntir: 5 aurar, 10 aurar, 50 aurar, 1 króna og 5 krónur. Þessa peninga gat almenningur fengið í hendur í stað gömlu krónunnar.

Mikið lausafé

Morgunblaðið ræddi við nokkra viðskiptavini bankanna þennan föstudagsmorgun, þar á meðal Bjarnveigu Guðmundsdóttur, sem sagðist eiga svo litla peninga, að það tæki því varla að skipta. Hún sagði að sér litist ágætlega á gjaldmiðilsbreytinguna: „Einhverjum finnst þetta eflaust spennandi,“ sagði hún.

Erla K. Sigurgeirsdóttir skrifstofustúlka sagðist vera að skipta að gamni sínu til að sjá nýju peningana. Hún sagðist telja að breytingin yrði vandalaus því fólk virtist almenn vakandi fyrir henni. En gamla fólkið? spyr blaðið. „Ja, ég á afa, sem kominn er yfir sjötugt en hann var með allt sitt tilbúið á gamlárskvöld svo ég held að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur.“

Jónína Valdimarsdóttir, gjaldkeri í Vegamótaútibúi Landsbankans á Laugavegi, sagði að mikill erill hefði verið í bankanum frá því um morguninn en afgreiðslan hefði gengið ljómandi vel og viðskiptavinirnir hefðu verið skilningsríkir og þolinmóðir. „Við vorum fyrst að sjá nýju seðlana í dag og myntin er öll mjög svipuð svo það er erfitt að greina á milli peninganna í fljótu bragði, en eflaust fær maður þetta á tilfinninguna fljótt.“

Hún bætti við fólk virtist hafa mikið lausafé milli handanna og mynt hefði borist í ótrúlega miklu magni í bankann. „Svo er bara að sjá hvort kassinn stemmir í kvöld.“

Kjötverslun Tómasar var opnuð klukkan eitt eftir hádegið og þar var full búð þegar Morgunblaðið leit inn. Garðar H. Svavarsson kaupmaður sagði að afgreiðslan hefði gengið vonum framar og viðskiptavinir væru þolinmóðir og skilningsríkir. „Verslunin útvegaði sér nýjar krónur strax í morgun og afgreiðslufólkið hafði tíma til að æfa sig stuttan tíma fram að hádegi. Við fórum hægt af stað og þetta hefur gengið prýðilega.“

Yfirþyrmandi álag

Í blaðinu er einnig rætt við stjórnendur banka sem sögðu að mikið hefði verið að gera þennan morgun. Nefnt var að fólk hefði átt erfitt með að átta sig á smámyntinni og einnig hefðu komið upp vandamál vegna ávísana, sumum hætti til að hafa einu núlli of mikið, en það hefði lagast þegar leið á daginn.

Kristján Jóhannesson hjá Útvegsbanka Íslands á Akureyri segir við blaðið, að þar hafi verið yfirþyrmandi álag, hreinlega allt farið á annan endann.

„Það hafa miklu fleiri komið í bankann til að skipta en við bjuggumst við. Allt starfsfólk bankans hefur unnið baki brotnu í dag en þó höfum við hvergi nærri haft undan. Þó hefur allt gengið hér vandræðalaust. Fólk hefur sýnt okkur ákaflega mikinn skilning, farið í biðraðir og beðið rólegt eftir afgreiðslu. Veltan hefur verið geysimikil. Það sem kemur þó mest á óvart er hversu mikið af seðlum virðist vera hér í umferð. Einstaklingar hafa komið hér með á aðra milljón Gkr. til að skipta og fyrirtæki með mun hærri upphæðir. Ég treysti mér ekki til að segja til um hversu veltan mikil er en hún er verulega miklu meiri en við bjuggumst við.“

Verðbólga í vöggugjöf

Það er ekki hægt að segja að nýja krónan hafi fengið hagstæða efnahagsþróun í vöggugjöf. Þannig var gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1981 að verðbólga á því ári yrði 42% og verðbólguspár fjármálastofnana voru mun hærri en niðurstaðan varð sú framfærslukostnaður milli ársmeðaltala áranna 1980 og 1981 hækkaði um 50,9%. Raddir heyrðust raunar um að gjaldmiðilsbreytingin hefði beinlínis leitt til hækkunar verðlags.

Már Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóri, fór yfir þessi erfiðu uppvaxtarár nýkrónunnar árið 2013 þegar nýr 10 þúsund króna seðill var gefinn út.

„Það skal ekki dregin dul á það hér að þörfin á útgáfu nýs seðils er þegar öllu er á botninn hvolft slæmar fréttir þar sem hún á rætur að rekja til of mikillar verðbólgu hér á landi á undanförnum áratugum. Þegar tvö núll voru tekin af íslensku krónunni í byrjun árs 1981 var verðmesti seðilinn 500 kr. Það samsvarar um 20 þúsund krónum um þessar mundir. Verðgildi seðla hefur því rýrnað um tæp 98% á þessu tímabili. Stærstur hluti þeirrar rýrnunar átti sér hins vegar stað fyrsta áratuginn enda nam verðbólga að meðaltali tæplega 31% á níunda áratug síðustu aldar og fór hæst í 102,7% í ágúst 1983. Verðgildi seðla rýrnaði því um 93% á níunda áratugnum,“ sagði Már.

Nýju peningaseðlarnir urðu sumir ekki langlífir. Seðlabankinn hætti strax árið 1984 að setja 10 króna seðla í umferð, árið 1987 var útgáfu 50 króna seðla hætt og 1995 var hætt að setja 100 króna seðla í umferð. Í staðinn fyrir þessa seðla var slegin mynt með sama verðgildi. Seðlarnir voru síðan innkallaðir í lok ársins 2006 og eftir 1. júní árið 2007 var ekki hægt að nota þá lengur sem gjaldmiðil. 500 krónu seðillinn lifir þó enn.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson