Varið land Hér má sjá þrettán af þeim fjórtán sem stóðu að undirskriftasöfnun Varins lands við upphaf söfnunarinnar 15. janúar 1974. F.v.: Stefán Skarphéðinsson, Valdimar Magnússon, Unnar Stefánsson, Jónatan Þórmundsson, Hreggviður Jónsson, Þorvaldur Búason, Þorsteinn Sæmundsson, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson, Óttar Yngvason, Ólafur Ingólfsson, Björn Stefánsson, og Hörður Einarsson. Á myndina vantar Bjarna Helgason.
Varið land Hér má sjá þrettán af þeim fjórtán sem stóðu að undirskriftasöfnun Varins lands við upphaf söfnunarinnar 15. janúar 1974. F.v.: Stefán Skarphéðinsson, Valdimar Magnússon, Unnar Stefánsson, Jónatan Þórmundsson, Hreggviður Jónsson, Þorvaldur Búason, Þorsteinn Sæmundsson, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson, Óttar Yngvason, Ólafur Ingólfsson, Björn Stefánsson, og Hörður Einarsson. Á myndina vantar Bjarna Helgason. — Morgunblaðið/Sveinn Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Efnt hefur verið til samvinnu nokkurra manna undir kjörorðinu Varið land.“ Með þeim orðum hófst tilkynning sem hópur fjórtán manna sendi frá sér til fjölmiðla hinn 15. janúar 1974. Tilefnið var upphaf undirskriftasöfnunar, þar sem…

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Efnt hefur verið til samvinnu nokkurra manna undir kjörorðinu Varið land.“ Með þeim orðum hófst tilkynning sem hópur fjórtán manna sendi frá sér til fjölmiðla hinn 15. janúar 1974. Tilefnið var upphaf undirskriftasöfnunar, þar sem skorað var á ríkisstjórnina og Alþingi að „standa vörð um öryggi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar með því að treysta samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins, en leggja á hilluna ótímabær áform um uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin og brottvísun varnarliðsins.“

Við völd sat þá ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Samtaka frálslyndra og vinstrimanna undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, en ríkisstjórnin hafði þá á stefnuskrá sinni að segja upp varnarsamningnum frá 1951, og knýja á um leið að Bandaríkjaher viki af landinu. Ákvað vinstristjórnin um miðbik ársins 1973 að fara fram á endurskoðun samningsins, en þar sem hún hafði ekki farið fram gat ríkisstjórnin sagt samningnum einhliða upp að hálfu ári liðnu.

Aðdragandi undirskriftasöfnunarinnar var sá að þeir Þorsteinn Sæmundsson, Ragnar Ingimarsson og Þorvaldur Búason hittust síðla árs 1973 til þess að ræða þá stöðu sem þá var komin upp í varnarmálunum. Í almannaumræðu var þá nánast gengið að því vísu að meirihluti landsmanna vildi að varnarstöðinni yrði lokað, og ræddu þeir leiðir til þess að sýna fram á að svo væri ekki. Ákváðu þeir þá að ráðast í almenna undirskriftasöfnun.
Hópurinn stækkaði ört, og á endanum voru þeir orðnir fjórtán sem ákváðu að kalla framtak sitt „Varið land“. Þarna voru samankomnir menn úr Sjálfstæðisflokki, Alþýðuflokki og Framsóknarflokki, en hópnum var umhugað um að ekki væri hægt að bendla Varið land við einn ákveðinn stjórnmálaflokk.

Tímaramminn sem hópurinn valdi sér var frá 15. janúar og til 20. febrúar 1974, eða um hávetur. Þorsteinn heitinn Sæmundsson stjörnufræðingur rifjaði síðar upp að hann hefði talið það gott ef að það myndi takast að safna 5.000 undirskriftum, og lét hópurinn útbúa 1.000 lista með 20 línum á hverjum lista fyrir undirskriftirnar. Kláraðist sá bunki hins vegar fljótlega.

Viðtökurnar voru hins vegar mun betri en Þorstein og flesta í hópnum hafði órað fyrir. Hópurinn naut aðstoðar fjölda sjálfboðaliða, sem fóru um með listana, og voru þeir um 2.000 talsins sem aðstoðuðu við hið mikla verkefni að safna undirskriftunum. Þá tók við mikil vinna við að staðreyna hvert einasta nafn, en tryggja þurfti að viðkomandi einstaklingur væri til og búsettur þar sem hann hafði skrifað, hvort hann hefði náð tvítugsaldri, sem þá var lágmarksaldur kosningaréttar, og að lokum að viðkomandi hefði ekki skrifað nafn sitt áður á listann.

Varið land bjó þar að því að einn meðlima hópsins, Ragnar Ingimarsson verkfræðingur, var einn af frumkvöðlum Íslands í tölvunarfræðum og hjálpaði það hópnum við að nýta sér tölvutækni til þess að fara yfir listana og tryggja að þeir væru réttir, enda þótti skipta öllu máli að ekki væri hægt að kasta rýrð á söfnunina með röngum undirskriftum.

Þrjátíu kassar af gataspjöldum

Tölvuvinnslan varð þó að einu haldreipi þeirra, sem lögðust gegn undirskriftasöfnuninni, en hafa ber í huga að hún fór fram áður en einkatölvur komu til sögunnar og var fólk því minna upplýst um tölvur en nú er.

Hópurinn leigði aðgang að tölvu sem IBM-fyrirtækið var með á Klapparstíg. Var tölvan nýtt til þess að raða nöfnum þeirra sem skrifuðu undir í stafrófsröð og eftir heimilisföngum og prenta svo út. Listinn sem þannig fékkst var síðan borinn handvirkt saman við kjörskrá. Þurfti að víkja um 2.000 undirskriftum af listanum eftir þá yfirferð, þar sem eitthvað var um tvítekningar eða að menn fyndust ekki þar sem þeir höfðu skráð sig til búsetu.

Rétt er að ítreka hér hvað tölvuvinnsla var með allt öðru sniði á þessum tíma en síðar varð. Disklingar voru varla til, engir minniskubbar eða flakkarar og ekki var netinu til að dreifa. Öll gögnin sem tölvan þurfti að vinna úr voru því geymd á gataspjöldum og var mikið verk að útbúa þau. Gögnin fylltu hátt í þrjátíu kassa með 2.000 spjöldum í hverjum kassa.

Þá var gataspjöldunum öllum eytt þegar úrvinnslunni var lokið, en hópnum var meðal annars borið á brýn að ætla sér að nýta persónuupplýsingarnar til þess að aðstoða hina ýmsu aðila, allt frá Sjálfstæðisflokknum til bandaríska varnarmálaráðuneytisins, við persónunjósnir. Hópurinn hélt þó eftir einu afriti undirskriftalistans á segulbandsspólum, þar sem hann vildi geta sannað að um réttan lista væri að ræða, og einnig til þess að eiga annað eintak ef eitthvað kæmi fyrir listann sjálfan.

„Fallegur er kassinn“

Þegar upp var staðið reyndist hópurinn hafa safnað saman undirskriftum 55.522 kosningabærra manna, eða um 43,9% þeirra sem höfðu kosningarétt. Undirskriftirnar voru prentaðar út og bundnar inn í 33 bindi, sem sett voru í stálkistu sem Sveinbjörn Jónsson í Ofnasmiðjunni gaf hópnum.

Upphaflega hafði staðið til að afhenda undirskriftirnar 1. mars 1974, en úrvinnsla þeirra dróst svo á langinn, að það var ekki fyrr en 21. mars sem hægt var að afhenda kassann með undirskriftunum. Hélt hópurinn þá ásamt þeim Árna Bjarnarsyni og Bjarna Einarssyni, sem stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni á Akureyri, til þinghússins. Tóku Eysteinn Jónsson, forseti sameinaðs Alþingis, og Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra þar við undirskriftunum.

„Fallegur er kassinn, hvað svo sem segja má um innihaldið,“ sagði Ólafur þegar honum voru afhentar undirskriftirnar, og þótti ljóst að honum var ekki skemmt. Ríkisstjórnin tilkynnti sama dag og undirskriftirnar voru afhentar að hún hygðist halda sig við fyrri stefnu sína í varnarmálum, en hún fól m.a. í sér að Bandaríkjaher myndi yfirgefa landið ekki síðar en árið 1976.

Undirskriftasöfnunin þótti þó sýna með afgerandi hætti að hinn þögli meirihluti væri andvígur því að loka varnarstöðinni. Ríkisstjórnin sprakk um sjö vikum síðar, og við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þar sem kúvent var í varnarmálum.

Áhrif Varins lands sáust þó kannski best í því, að þótt áfram væri tekist á um varnarmál hér á landi var ekki gerð önnur tilraun til þess á tíma kalda stríðsins að rifta varnarsamningnum eða víkja varnarliðinu á brott.