Barnabækur Ólafur Gunnar Guðlaugsson hlaut verðlaunin árið 2021.
Barnabækur Ólafur Gunnar Guðlaugsson hlaut verðlaunin árið 2021. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Íslensku barnabókaverðlaunin breyta um svip og verða myndabókaverðlaun, að því er segir í tilkynningu frá stjórn Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka og hljóta þau um leið nýtt nafn, Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin

Íslensku barnabókaverðlaunin breyta um svip og verða myndabókaverðlaun, að því er segir í tilkynningu frá stjórn Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka og hljóta þau um leið nýtt nafn, Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin. Héðan í frá verður eingöngu óskað eftir óútgefnum handritum að myndríkum bókum; allt frá myndabókum fyrir yngstu lesendurna að myndasögum fyrir unglinga. Verðlaunafé verður jafnframt hækkað úr 1.000.000 krónum í 1.500.000 krónur.

„Í hinni sjónrænu veröld streymisveitna og samfélagsmiðla hefur eftirspurn eftir ríkulega myndlýstum barnabókum [...] aukist umtalsvert,“ segir í tilkynningunni. Stjórn verðlaunasjóðsins „fannst mikilvægt að svara þessu kalli, nýta verðlaunin til að styðja sérstaklega við útgáfu slíkra bóka og styrkja þá sem skapa myndríkar bækur“.

Að verðlaununum standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf og Forlagið. Frestur til að senda inn handrit er til og með 1. október 2024.