Samstarf Sýningarstjórarnir Ásmundur Ásmundsson, Hannes Lárusson og Tinna Grétarsdóttir árið 2011 þegar sýningin Koddu var opnuð.
Samstarf Sýningarstjórarnir Ásmundur Ásmundsson, Hannes Lárusson og Tinna Grétarsdóttir árið 2011 þegar sýningin Koddu var opnuð. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóst er að tjáningarfrelsi listamanna er gríðarlega mikilvægt og listasöfn þurfa að vera meðvituð um það og styðja slíkt frelsi.

Af myndlist

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Ég gæti tekið eitthvert klikkað fight sko, en ég bara nenni því ekki,“ sagði Ragnar Kjartansson listamaður í heimildarmyndinni Soviet Barbara: sagan um Ragnar Kjartansson í Moskvu. Þar mátti Ragnar þola ritskoðun á verkum sínum og eins og tilvitnunin hér gefur til kynna ákvað hann að lúffa frekar en að mótmæla eða hætta við sýninguna. Þessi heimildarmynd er einstök að því leyti að hún sýnir okkur þær siðferðislegu glímur sem geta komið upp innan listaheimsins. Í þessari grein verður sjónum beint að stöðu listasafna og hvernig þau geta staðið við bak listamanna og veitt þeim skjól til þess að tjá sig á þann hátt sem þeir kjósa. Þá verður tæpt á því hvaða tólum söfn geta beitt þegar upp koma flókin og umdeild mál.

Þegar fallegasta bókin var óhreinkuð

Ritskoðun er í eðli sínu stjórn á hugmyndum og henni er oftast beitt af söfnum eða öðrum til þess að forðast gagnrýni. Söfn geta lent milli steins og sleggju þegar sýning sem þar er haldin veldur usla meðal almennings en til eru dæmi um að íslensk listasöfn hafi verið sökuð um ritskoðun og að vega að tjáningarfrelsi listamanna. Nærtækt dæmi er þegar Nýlistasafn Íslands opnaði sýninguna Koddu þann 16. apríl 2011 í samstarfi við sýningarstjórana Hannes Lárusson, Ásmund Ásmundsson og Tinnu Grétarsdóttur. Sýningin var sögð fjalla um þjóðarsjálfið, uppganginn, tákngervinga góðærisins og hrunið. Þar var meðal annars til sýnis verkið „Fallegasta bók í heimi“ þar sem bók Eggerts Péturssonar og Ágústs H. Bjarnasonar, Flora Islandica, var óhreinkuð verulega meðal annars með brauðáleggi. Listaverkið varð mjög umdeilt og fór fyrir brjóstið á höfundum bókarinnar. Þá taldi útgefandinn að verkið bryti meðal annars í bága við sæmdarrétt höfunda og var þess krafist að verkið yrði fjarlægt.

Sýningunni lokað í sex daga

Safnið lokaði sýningunni í sex daga og þegar sýningin var opnuð að nýju var búið að fjarlægja verkið án samráðs við höfunda verksins eða sýningarstjórana. Höfundar verksins og sýningarstjórar töldu þetta vera grófa aðför að tjáningarfrelsinu.

Athyglisvert er að sýningin Koddu átti upphaflega að vera sett upp í Listasafni Árnesinga en samstarfið sigldi í strand vegna samstarfsörðugleika safnsins og sýningarstjóranna. Sýningarstjórarnir sökuðu safnið um ritskoðun á meðan safnstjóri viðurkenndi að hafa ekki getað sætt sig við eitt verkanna þar sem verið væri að setja út á annan listamann í því verki. Nýlistasafn Íslands mátti því vera ljóst að efni sýningarinnar væri viðkvæmt fyrir suma hópa og hefði getað undirbúið sig í samræmi við það í stað þess að loka sýningunni á meðan safnið var að ráða ráðum sínum.

Hvernig geta söfn brugðist við erfiðum málum?

Hér er ekki markmiðið að gagnrýna heldur einungis að benda á þetta sem dæmi okkur til gagns. Draga má lærdóm af þessu tiltekna máli sem undirstrikar mikilvægi þess að söfn séu vel undir það búin að takast á við eldfim málefni.

Viðbrögð Nýlistasafns Íslands voru til að mynda á skjön við það sem National Coalition Against Censorship (NCAC) leggur til í málum sem þessum en NCAC eru óháð samtök sem leitast við að veita ráðgjöf og stuðning við alla þá hópa sem þurfa að kljást við ritskoðun með einhverjum hætti eins og til dæmis bókasöfn, skóla, listasöfn og leikhús.

NCAC mælir ekki með því að listasöfn loki sýningum heldur skapi þess í stað umræðuvettvang og tækifæri til fræðslu eins og til dæmis með málfundum eða pallborðsumræðum.

Þá leggja samtökin mikla áherslu á að söfn móti sér ítarlega stefnu hvað tjáningarfrelsi varðar, birti hana og geti þar með vísað í hana þegar á þarf að halda. Í slíkri stefnu væri til dæmis hægt að koma inn á mikilvægi þess að safn sé hlutlaus vettvangur fyrir listamenn til að tjá sig frjálst, jafnvel með hætti sem getur snert á viðkvæmum málum. Með því að hafa til sýnis verk sem kunna að vera umdeild er ekki verið að taka afstöðu með hugmyndum eða skoðunum tiltekins listamanns heldur aðeins verið að virða rétt allra til þess að viðra ólíkar skoðanir og skapa vettvang til víðtækari umræðu innan samfélagsins. Starfsfólk og stjórnendur safna hafa þá eitthvað í höndunum til að styðjast við þegar á þarf að halda. Þetta hjálpar einnig til við að stuðla að gagnsæi og þar með jákvæðari samskiptum við almenning og kemur auk þess í veg fyrir að söfn hræðist að taka að sér krefjandi og umdeild verkefni.

Veigamikið hlutverk safna

Ljóst er að tjáningarfrelsi listamanna er gríðarlega mikilvægt og listasöfn þurfa að vera meðvituð um það og styðja slíkt frelsi. Listamaðurinn ber ábyrgð á sínum verkum fyrir dómstólum en í heilbrigðu samfélagi er mikilvægt að til sé hlutlaus vettvangur frjálsra lista og menningar og þar geta listasöfn gegnt veigamiklu hlutverki. Skýr stefna þarf að vera til staðar sem og aukin meðvitund meðal stjórnenda og starfsmanna um stöðu þeirra í samfélaginu til að standa vörð um frelsið svo að listamenn „nenni“ að taka slaginn þegar út í heim er farið.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir