Grótta Krían er komin og fólk hvatt til að sýna nærgætni á varptíma.
Grótta Krían er komin og fólk hvatt til að sýna nærgætni á varptíma. — Morgunblaðið/Kristinn
Varptími fuglanna er að ganga í garð og því hefur sumarlokun og ferðabann um friðlandið við Gróttu á Seltjarnarnesi tekið gildi. Það stendur frá 1. maí til 31. júlí. Á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar eru gangandi vegfarendur hvattir til að sýna tillitssemi

Varptími fuglanna er að ganga í garð og því hefur sumarlokun og ferðabann um friðlandið við Gróttu á Seltjarnarnesi tekið gildi. Það stendur frá 1. maí til 31. júlí.

Á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar eru gangandi vegfarendur hvattir til að sýna tillitssemi. Alls er óheimilt að vera með hunda á vestursvæðunum sem og eru kattaeigendur hvattir til að hafa kettina í bandi, nota trúðaól eða halda þeim innandyra fram yfir varptímann. Þessi tilmæli eiga við í varplöndum alls staðar á Íslandi.

Sjóiðkendum er jafnframt bent á að stunda sjóíþróttir norðan og sunnan Seltjarnarness í stað Seltjarnar á varptímanum.

Grótta er landföst, gróskumikil eyja utan við vestanvert Seltjarnarnes og einstök náttúruperla, segir á heimasíðu bæjarins.

Grótta var friðlýst árið 1974 og felst verndargildi friðlandsins þar í fjölskrúðugu fuglalífi árið um kring og mikilvægi þess sem varpsvæðis á sumrin. Þar ber helst að nefna hundruð kríupara sem verpa í og við eyjuna. Fyrstu kríurnar komu á Nesið í þessari viku. Auk kríunnar finnast einnig í eyjunni margar aðrar fuglategundir svo sem æðarfugl, fýll, sendlingur og tjaldur.

Mikið er af lífríkum sjávartjörnum og fjörum við Gróttu og á nærliggjandi svæðum, þar á meðal leirur og sjávarfitjar. sisi@mbl.is