Kjaraviðræður Viðsemjendur hafa átt fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara.
Kjaraviðræður Viðsemjendur hafa átt fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara.
„Kjaraviðræðum Visku við viðsemjendur sína miðar vel og góður gangur er í viðræðunum,“ segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, formaður Visku stéttarfélags. Viska er stærsta aðildarfélag Bandalags háskólamanna, sem á í viðræðum við…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

„Kjaraviðræðum Visku við viðsemjendur sína miðar vel og góður gangur er í viðræðunum,“ segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, formaður Visku stéttarfélags. Viska er stærsta aðildarfélag Bandalags háskólamanna, sem á í viðræðum við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga um endurnýjun kjarasamninga félagsmanna, sem runnu út í lok mars sl.

„Við höfum fundað með samninganefnd ríkisins á síðastliðnum vikum þar sem við höfum lagt áherslu á breiðu línurnar eins og jöfnun launa á milli markaða ásamt styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu og vaktavinnu,“ segir Brynhildur.

Leiði ekki til kjararýrnunar

„Við höfum líka sagt að sé ætlunin að horfa til samninga á almennum vinnumarkaði þá sé tryggt að þeir leiði ekki til kjararýrnunar fyrir ákveðna hópa hjá okkur. Það er einmitt ein af meginástæðum þess að háskólafólk á Íslandi situr eftir með meiri kjararýrnun en aðrir hópar. Við höfum þegar hitt samninganefndir Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, en búist er við því að meiri kraftur færist í þær viðræður eftir því sem samtali okkar við ríkið vindur fram,“ segir hún ennfremur.

Að sögn Brynhildar er líkt og venja er í kjaraviðræðum umtalsvert samráð á milli aðildarfélaga BHM og segir hún að einhver félög hafi hitt samningsaðila saman á fundum. „Viska er stærsta aðildarfélag BHM og er ekki í samfloti með öðrum aðildarfélögum BHM á eiginlegum samningafundum með viðsemjendum,“ segir hún, spurð hvernig félög háskólamanna standa að viðræðunum í yfirstandandi lotu.

Höf.: Ómar Friðriksson