Á Ríkisútvarpið að miðla á öllum miðlum?

Hvert er hlutverk Ríkisútvarpsins og innan hvaða marka á það að halda sig? Er til dæmis rétt að Ríkisútvarpið verji kröftum og peningum í að reka samfélagsmiðla? Í huga þeirra, sem stjórna stofnuninni, ber að skilgreina mörkin með mjög víðum hætti. Nýverið hóf Ríkisútvarpið rekstur TikTok-rásar og telja stjórnendur Ríkisútvarpsins að hann samræmist lögbundnu hlutverki þess.

Löggjafinn hefur ekki auðveldað túlkun á hlutverki Ríkisútvarpsins og mörkun starfsemi þess. Í Morgunblaðinu á mánudag birtist frétt um minnisblað, sem stjórnendur Ríkisútvarpsins gerðu til að gera grein fyrir rekstri TikTok-rásarinnar. Þar er vísað til laga um Ríkisútvarpið þar sem fjallað sé um skyldu þess „til þess að birta hluta efnis, breytta eða óbreytta, ásamt öðru þjónustuefni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlunarleiðum, þ.m.t. að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að efninu og/eða þjónustunni á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.“ Haldið er áfram með því að segja að þetta renni stoðum undir „möguleika Ríkisútvarpsins og þeirra sem nýta sér þjónustu þess til að nýta sér alla þá tæknilegu möguleika sem fyrir hendi eru á hverjum tíma til að miðla og taka á móti fjölmiðlaefni þess.“

Ríkisútvarpið hefur verið duglegt að nýta sér „aðrar miðlunarleiðir“ og sett í það mikið púður. Þær eru ekki aðeins nýttar til að miðla efni sem gert er fyrir útsendingar í útvarpi og sjónvarpi.

Ríkisútvarpið er ekkert einsdæmi í þessum efnum. Ríkismiðlar annars staðar á Norðurlöndum hafa einnig gert þetta og hafa einkareknir fjölmiðlar gagnrýnt það harkalega (án þess þó að hafa erindi sem erfiði).

Fyrir nokkrum árum gekk félag danskra blaðaútgefenda fram og gagnrýndi Danmarks Radio harkalega fyrir framgöngu þess á netinu. Blöðin börðust fyrir tilvist sinni og eygðu möguleikann á að bæta upp fyrir samdrátt í blaðsölu með fréttaþjónustu á netinu en fannst við ramman reip að draga að eiga þar í samkeppni við ríkisrisann. Sögðu útgefendur að það þjónaði engum tilgangi að danska ríkisútvarpið væri atkvæðamikið á netinu því að neytendur gætu hæglega fundið upplýsingarnar, sem það veitti, annars staðar.

Sérstaklega var gagnrýnt að löggjafinn skyldi ekki setja því skýr mörk hvers konar efni mætti vera á vefsíðu danska ríkisútvarpsins, þar væri ramminn allt of laus í sniðum.

Félag blaðaútgefenda orðaði það svo að starfsemi danska ríkisútvarpsins á netinu ætti að einskorðast við efni sem leiddi beint af útsendingum í sjónvarpi eða útvarpi. Aðgangur að efni á netinu væri það umfangsmikill að þar bæri danska ríkisútvarpið engar skyldur.

Það er eðlilegt að almenningur hafi aðgang að efni Ríkisútvarpsins úr útvarpi og sjónvarpi á netinu, en hverjar eru „skyldur“ þess umfram það? Aldrei hefur farið fram almennileg umræða um það hvort Ríkisútvarpið eigi að miðla á öllum miðlum eða bara á þeim miðlum, sem það var stofnað til að starfa við.

Í lögum er orðalagið það opið að engar ályktanir er hægt að draga um vilja löggjafans í þeim efnum. Það veitir þeim skjól, sem vilja ganga hvað lengst. Á ríkisstofnun að ryðjast fram á svið þar sem enginn skortur er á samkeppni og fráleitt að segja að fyrir sé tómarúm? Innanhúss virðast einu skorðurnar á nýtingu „annarra miðlunarleiða“ vera hugmyndaflugið. Þess er kannski ekki langt að bíða að Ríkisútvarpið gefi út dagblað?