Gasasvæðið Ísraelsk fallbyssa sést hér skjóta í átt að suðurhluta Gasasvæðisins í gær, en talið er að Ísraelsher undirbúi nú landhernað þar.
Gasasvæðið Ísraelsk fallbyssa sést hér skjóta í átt að suðurhluta Gasasvæðisins í gær, en talið er að Ísraelsher undirbúi nú landhernað þar. — AFP/Jack Guez
Ísraelsher hélt áfram loftárásum sínum á Rafah-borg í gær, auk þess sem fótgönguliðar gerðu árásir á nokkrar byggingar í borginni. Vopnahlésviðræður standa enn yfir í Kaíró, en ekki þykja miklar líkur á að samið verði um hlé á átökunum á næstu dögum

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ísraelsher hélt áfram loftárásum sínum á Rafah-borg í gær, auk þess sem fótgönguliðar gerðu árásir á nokkrar byggingar í borginni. Vopnahlésviðræður standa enn yfir í Kaíró, en ekki þykja miklar líkur á að samið verði um hlé á átökunum á næstu dögum.

Aðgerðir Ísraelshers í gær komu í kjölfarið á því að skriðdrekasveitir þeirra hertóku landamærastöð borgarinnar, en ýmsir þjóðarleiðtogar hafa lýst yfir áhyggjum af því að öll landamæri Gasasvæðisins séu nú lokuð fyrir neyðaraðstoð við óbreytta borgara.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, sagði hins vegar í gær að aðgerð hersins í Rafah hefði verið nauðsynleg til þess að neita hryðjuverkasamtökunum Hamas um birgðalínu, sem gæti nýst þeim til að halda völdum á Gasasvæðinu.

Ísraelsmenn eru nú sagðir undirbúa frekari landhernað í borginni, þrátt fyrir ótta alþjóðasamfélagsins um að slík aðgerð gæti haft í för með sér vondar afleiðingar fyrir þá Palestínumenn sem leitað hafa til borgarinnar sem flóttamenn.

Þannig hafa Bandaríkjamenn, helstu bandamenn Ísraelsmanna, lagst mjög gegn árás á Rafah-borg. Háttsettur embættismaður í Bandaríkjastjórn greindi frá því í gær að stjórnvöld vestanhafs hefðu stöðvað hergagnasendingu til Ísraelsmanna í síðustu viku, þar sem Bandaríkjamenn voru ekki sáttir við þau svör sem þeir fengu frá Ísraelsmönnum um áform þeirra varðandi Rafah-borg.

Innihélt sendingin rúmlega 3.500 sprengjur fyrir flugher Ísraels. Daniel Hagari, varaaðmíráll og talsmaður Ísraelshers, gerði þó lítið úr tíðindunum í gær og sagði Bandaríkjastjórn hafa veitt Ísraelsmönnum mikinn stuðning.

Ísraelsher greindi svo frá því í gær að hann hygðist opna á ný landamærastöðina við Kerem Shalom, en henni var lokað um síðustu helgi eftir árásir Hamas-liða á hana.Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO, varaði við því í gær að sjúkrahús á Gasasvæðinu hefðu nú einungis eldsneyti til næstu þriggja daga, en að án þess yrði ekki hægt að sinna neinni neyðaraðstoð við íbúa svæðisins.