Harmonikur Framtíð Harmonikufélags Þingeyinga er björt, hér eru saman komin f.v. Indíana Þórsteinsdóttir kennari, systurnar Steindóra Salvör og Hallveig Salka Maríusdætur og loks Guðni Bragason tónlistarskólastjóri.
Harmonikur Framtíð Harmonikufélags Þingeyinga er björt, hér eru saman komin f.v. Indíana Þórsteinsdóttir kennari, systurnar Steindóra Salvör og Hallveig Salka Maríusdætur og loks Guðni Bragason tónlistarskólastjóri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aþjóðadagur harmonikunnar var 4. maí sl. og af því tilefni boðaði Harmonikufélag Þingeyinga til tónleika í félagsheimilinu Breiðumýri eins og venja hefur verið. Hefð er fyrir því að fá ungt fólk til þess að spila á þessum degi og í þetta sinn komu nemendurnir úr Öxarfjarðarskóla

Atli Vigfússon

Laxamýri

Aþjóðadagur harmonikunnar var 4. maí sl. og af því tilefni boðaði Harmonikufélag Þingeyinga til tónleika í félagsheimilinu Breiðumýri eins og venja hefur verið.

Hefð er fyrir því að fá ungt fólk til þess að spila á þessum degi og í þetta sinn komu nemendurnir úr Öxarfjarðarskóla. Það voru systurnar Hallveig Salka og Steindóra Salvör Maríusdætur sem eiga heima á bænum Presthólum í Norður-Þingeyjarsýslu. Þær eru níu og sjö ára. Auk þeirra spiluðu eldri félagar á harmonikur og varð úr þessu mjög ánægjuleg stund í samkomuhúsinu.

Formaður harmonikufélagsins, Jón Helgi Jóhannsson, setti samkomuna og bauð gesti velkomna og sérstaklega upprennandi tónlistarfólk eins og þær Hallveigu Sölku, sem er á öðru ári í harmonikuleik, og Steindóru Salvöru, sem er á fyrsta ári í fiðluleik. Hann sagði einnig frá því að Harmonikufélag Þingeyinga ætti 46 ára afmæli þennan dag. Þá steig einnig á svið Guðni Bragason, skólastjóri Tónlistarskólans á Húsavík, og þakkaði Harmonikufélagi Þingeyinga sérlega vel fyrir að hafa gefið fjórar Startone-harmonikur til kennslu á svæðinu nú í vetur. Þar er um að ræða tvær harmonikur 48 bassa fyrir yngstu nemendurna og tvær 72 bassa fyrir þá sem eru lengra komnir.

Heillandi harmonikuleikur

Tónleikarnir hófust með harmonikuleik Hallveigar Sölku og með henni á svið kom Indíana Þórsteinsdóttir sem kennir tónlist við Öxarfjarðarskóla. Hún sagði frá námi þeirra systra og eftir harmonikuleikinn kom Steindóra Salvör á sviðið og spilaði á fiðluna. Þetta kunnu tónleikagestir vel að meta og klöppuðu vel fyrir þeim systrum.

Að því loknu komu eldri harmonikuleikarar til sögunnar og spiluðu þeir Jónas Sigurðsson og Sigurður Skúlason nokkur vel valin lög sem minntu á vorið. Má þar nefna Lóan er komin, Dísir vorsins og Senn fer vorið á vængjum yfir flóann. Þá léku þeir franskan vals sem heitir Signa og fleiri góð lög. Síðan kom Rúnar Hannesson, einnig reyndur harmonikuleikari, á sviðið og spilaði með þeim og síðan einn og sér.

Í lokin kom svo Hallveig Salka aftur á svið og spilaði eitt lag til þess að enda tónleikana. Varð þetta hin besta skemmtun og heillaði harmonikuleikurinn gestina. Að öllu þessu loknu var boðið í veislukaffi og önnuðust félagar í Harmonikufélagi Þingeyinga þann hluta hátíðarinnar.

Hlé gert í sauðburðinum

Í kaffinu var mikið spjallað og sagði Hallveig Salka frá því að sér þætti mjög gaman að spila á harmoniku. Þá sagði hún að pabbi sinn, Maríus Halldórsson, kynni að spila og þannig hefði hún vitað af harmonikunni sem hljóðfæri. Þær systur hlakka til vorsins en heima hjá þeim, á Presthólum, er að hefjast mikill sauðburður og þá er ekki að vita nema það verði gert smá hlé á hljóðfæraleik. Þráðurinn verður tekinn upp síðar, en það fylgir því gleði og gaman þegar spilað er vel á fiðlu og harmoniku.

Starf félagsins er nokkuð viðburðaríkt. Auk þess að vera með dansleiki þá eru höfð bögglauppboð til fjáröflunar og einnig eru dansæfingar einu sinni í mánuði á veturna þegar færð er góð. Oft eru hagyrðingakvöld og svo eru félagsfundir alltaf fyrsta sunnudag í öllum vetrarmánuðum.

Í júnímánuði er alltaf haft grillkvöld og í júlí er útileguhátíð hjá Ýdölum í Aðaldal. Haust og vor er oft farið í ferðalög og í ágúst sl. var farið austur í Valaskjálf á dansleik. Í október var farið á dansleik og hagyrðingakvöld á Smyrlabjörgum í Suðursveit. Formaðurinn, Jón Helgi Jóhannsson, segir að þetta þjappi fólki saman og það auki samhygð.

Höf.: Atli Vigfússon