Alþingi Málefni Ríkisútvarpsins og Kveiks voru rædd á þingi á þriðjudag.
Alþingi Málefni Ríkisútvarpsins og Kveiks voru rædd á þingi á þriðjudag. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Í mínum huga skuldar Ríkisútvarpið skýringar á þeim ákvörðunum sem þarna bjuggu að baki. Það er lágmark að gera þá kröfu að það sé engum vafa undirorpið að Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, fylgi lögum og ræki hlutverk sitt af…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Í mínum huga skuldar Ríkisútvarpið skýringar á þeim ákvörðunum sem þarna bjuggu að baki. Það er lágmark að gera þá kröfu að það sé engum vafa undirorpið að Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, fylgi lögum og ræki hlutverk sitt af fagmennsku og heilindum,“ sagði Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í ræðu á Alþingi sl. þriðjudag, þegar rætt var um störf þingsins.

Tilefni orða Hildar var sú ákvörðun ritstjóra fréttaskýringaþáttarins Kveiks að taka fréttaskýringu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttamanns Ríkisútvarpsins af dagskrá þáttarins, þar sem borið var við skorti á fagmennsku. Fréttaskýringin var síðar sýnd í Kastljósi og vakti mikla athygli.

Hildur minnti á að sl. föstudag hefðu Sameinuðu þjóðirnar haldið alþjóðlegan dag fjölmiðlafrelsis.

„Á þeim degi er blaðamönnum um heim allan fagnað og þakkað hlutverk sitt í lýðræðissamfélögum, sem er mikilvægt,“ sagði Hildur.

Veita stjórnvöldum aðhald

„Fjölmiðlar hafa það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald. Á hinn bóginn verður almenningur að geta gert þá kröfu að slík umfjöllun sé hlutlaus og ekki valkvæð. Þetta á ekki síst við um Ríkisútvarpið sem hefur beinlínis það hlutverk að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem varða almenning og vera óháð stjórnmálalegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum. Í ljósi þessa skaut það skökku við þegar fréttir bárust af því að fréttainnslag, sem fjallaði um samninga Reykjavíkurborgar við olíufélög vegna lóða, yrði ekki lengur sýnt í fréttaskýringaþættinum Kveik líkt og til stóð,“ sagði hún.

Hildur sagði að í sínum huga væri morgunljóst að viðfangsefni innslagsins hefði átt erindi við almenning.

Hálfkveðnar útskýringar

„Íbúar Reykjavíkurborgar eiga rétt á að vera upplýstir um slíkar ráðstafanir og þá sér í lagi þegar milljarðar eru undir. Það er aftur á móti talsverðum vafa undirorpið hvers vegna fréttaskýringin var ekki sýnd í Kveik. Af hálfu Ríkisútvarpsins hafa verið nefndar einhverjar hálfkveðnar útskýringar um óklárað verk sem margir klóra sér í hausnum yfir nú eftir að hafa séð innslagið, sem var með ágætum,“ sagði Hildur.

„Með fullri virðingu, herra forseti, verður að viðurkennast að það er ekki hægt að segja að allar fréttir og fréttainnslög þeirrar stofnunar hingað til hafi einungis farið í birtingu eftir að hafa verið ritrýndar af fimm hlutlausum fagaðilum eða eitthvað slíkt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið,“ sagði Hildur í ræðu sinni á Alþingi.