Uppbygging Samtök atvinnulífsins segja í umsögninni að ekki gangi til lengdar að útgjöld og tekjur ríkissjóðs vaxi hraðar en hagkerfið sjálft.
Uppbygging Samtök atvinnulífsins segja í umsögninni að ekki gangi til lengdar að útgjöld og tekjur ríkissjóðs vaxi hraðar en hagkerfið sjálft. — Morgunblaðið/Eggert
„Áætlunin er ekki metnaðarfyllri en svo að gangi hún eftir hefur ríkissjóður verið rekinn með halla samfleytt í níu ár. Það er með öllu óásættanlegt,“ segir í ítarlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

„Áætlunin er ekki metnaðarfyllri en svo að gangi hún eftir hefur ríkissjóður verið rekinn með halla samfleytt í níu ár. Það er með öllu óásættanlegt,“ segir í ítarlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029. SA gera fjölmargar athugasemdir við fjármálaáætlunina og rekja þrjár leiðir sem megi fara til að bæta afkomu ríkissjóðs.

Bent er á að í gegnum tíðina hafi hallarekstur ríkissjóðs verið regla frekar en undantekning og að hallarekstur sé fyrirséður til ársins 2027. Þátt fyrir að undirliggjandi rekstur sé kominn í jafnvægi sé ekki nóg að gert til að tryggja svigrúm í rekstri. Hraður vöxtur hafi einkennt hagkerfið frá heimsfaraldri. Hið opinbera, ekki síst ríkissjóður, hafi notið góðs af þessum mikla vexti. Þessu hafi fylgt tekjuvöxtur sem hafi þrátt fyrir allt ekki orðið til þess að loka því gati sem skapaðist í rekstri hins opinbera á árum heimsfaraldursins. „Þvert á móti var ekkert gefið eftir á útgjaldahliðinni og enn er útlit fyrir áframhaldandi hallarekstur þótt farið sé að sjást til lands.“

SA segja ákjósanlegt að ríkissjóður hefði stutt við peningastefnuna í baráttu við verðbólguna „með því að halda að sér höndum þegar kom að útgjaldaaukningu, snúa hallarekstrinum við fyrr en ella og greiða hraðar niður skuldir. Þess í stað var óvæntum tekjum sífellt ráðstafað til aukinna útgjalda og ráðist í skattahækkanir sem hæglega hefði mátt komast hjá.“

Vakin er athygli á að það falli næstu ríkisstjórn í skaut að tryggja nærri 30 milljarða kr. bata á rekstri ríkissjóðs árið 2030. „SA hafa á umliðnum árum ítrekað bent á skort á aðhaldi í rekstri ríkissjóðs og talað fyrir því að óvæntum tekjum, sk. „tekjufroðu“, sé ekki varið til nýrra og varanlegra útgjalda heldur í að brúa það gat sem myndaðist í rekstri ríkisins í heimsfaraldri. Dempun hagsveiflunnar þurfi að ganga í báðar áttir og tryggja á ný svigrúm hjá hinu opinbera til að takast á við framtíðar áföll í hagkerfinu,“ segir í umsögninni.

SA taka þó fram að ekki verði annað séð í fjármálaáætluninni en að fjármagna eigi aukin útgjöld og ný verkefni að uppistöðu til með forgangsröðun og hagræðingu. Er það vel að mati SA sem taka þó fram að skrefin sem mörkuð eru séu smá í sniðum.

Afskriftir vega þungt

„Aftur á móti er augljóst að pólitíska getu og þor vantar til raunverulegs aðhalds. Breytt aðferðafræði við afskriftir skattkrafna, minni almennur varasjóður og frestun framkvæmda til viðbótar við almennt aðhaldsviðmið upp á 1% endurspegla ekki sérstaka stefnumörkun eða forgangsröðun fjármuna þótt þær tryggi afkomubata á áætlunartímabilinu,“ segir í umsögninni. Þá valdi vonbrigðum hversu stór hluti hagræðingar sé enn óútfærður.

Benda samtökin einnig á að ekki sé allt sem sýnist og að afskriftir skattkrafna vegi þungt í boðuðu aðhaldi. Breytt aðferðafræði við afskriftir þeirra hafi mest áhrif til lækkunar útgjalda á tímabili áætlunarinnar.

Samtökin leggja til þrjár leiðir til að bæta afkomuna; hagræðingu samhliða sameiningu stofnana, sölu ríkiseigna og aukinn einkarekstur og forgangsröðun og aukna festu með árangurstengingu og endurmati útgjalda. Minnt er á að eignarhlutir ríkissjóðs í hinum ýmsu félögum var bókfærður á nærri 900 milljarða í ríkisreikningi árið 2022.

SA leggja áherslu á að útgjaldaauki vegna aðkomu að kjarasamningunum megi ekki leiða til aukinnar skattlagningar á atvinnulífið. Í umfjöllun um skatta segir að enn á ný sé seilst dýpra í vasa skattgreiðenda til að brúa bilið. Ekkert bendi til að nauðsynlegt sé að auka skattheimtuna. Gert sé ráð fyrir að skatttekjur aukist um 14% til 2029 og heildartekjur ríkissjóðs um 12% en heildarútgjöld vaxi um nærri 7%. „Útgjöld á mann lækka um 51 þúsund krónur árlega en tekjur aukast um 110 þúsund. Skatttekjur aukast aftur á móti um 138 þúsund krónur á hvern íbúa – að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Enn virðist plan stjórnvalda því vera að „vaxa út úr vandanum“, með dass af aukinni skattheimtu.“