Dúó Brynjar og Aron hafa verið gríðarlega vinsælir síðustu ár.
Dúó Brynjar og Aron hafa verið gríðarlega vinsælir síðustu ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brynjar Barkarson og Aron Kristinn Jónasson, sem mynda poppdúóið ClubDub, segja sig besta tónlistargengi landsins. Þeir eiga erfitt með að lýsa tónlistinni sem þeir gera. „Það er ekki hægt, þú verður bara að hlusta á eitthvað af þessu

Brynjar Barkarson og Aron Kristinn Jónasson, sem mynda poppdúóið ClubDub, segja sig besta tónlistargengi landsins. Þeir eiga erfitt með að lýsa tónlistinni sem þeir gera. „Það er ekki hægt, þú verður bara að hlusta á eitthvað af þessu. Ég hugsaði í gær að það gæti enginn á Íslandi gert það sem við erum að gera. Þið getið reynt og reynt og reynt, það fer enginn í hljóðverið og gerir lag eins og ClubDub nema ClubDub,“ sögðu þeir í viðtali í Ísland vaknar í morgun.

„Við erum stundum að fara í gegnum gamalt efni frá okkur og hugsum bara: hvernig fórum við að þessu?“ bætir Brynjar svo við. „Maður reynir kannski að gera eitthvert ClubDub-lag fyrir stúdíóið og spyr sjálfan sig hvernig maður eigi að gera það. Fólk sendir okkur takta sem eiga að vera sniðnir að okkar hljómheimi en það er ekki hægt.“

Einbeita sér að móðurmálinu

Brynjar og Aron komu inn í íslenskan tónlistarheim með krafti árið 2018 og hafa mörg lögin þeirra slegið í gegn. Nú er komin út ný plata frá þeim, Risatilkynning.

„Þetta eru sjö lög sem við gefum út. Við höfum haldið spilunum þétt að okkur og höfum sjaldan verið á öðrum plötum og vinnum þetta mikið tveir. Á þessari plötu er samt Bríet með í einu lagi og Birnir í öðru,“ segir Aron.

Er ætlunin að fara með tónlistina út í heim?

„Ef heimurinn vill fá okkur þá förum við þangað,“ svarar Brynjar. „Ef við værum að sækjast eftir því þá værum við að gera tónlist á ensku. En það myndi kannski bitna á gæðunum. Við höfum gert lag á ensku og það var gott en erum bara núna að spá meira í að gera á móðurmálinu,“ bætir Aron við.

Þeir segjast ekki sjá mikið af streymistekjum enn þá og vonast þeir eftir verulegri spilun í útvarpi. „Svo fær maður eitthvað en þetta er peningur sem maður eyðir í eitthvert bull,“ segir Brynjar.

Þeir byrjuðu að vinna plötuna í nóvember síðastliðnum og ætla að fagna útgáfu hennar með veislu. „Það verður partí á morgun á Auto. Bara til að brúa bilið, það kostar næstum þrjár milljónir að gefa út plötu, það er alveg frekar mikið. Fyrir sjálfstætt starfandi tónlistarmenn þá hjálpar allt. Við ætlum að spila plötuna í gegn. Svo munum við gera myndband við lagið sem við gerðum með Birni. Mér finnst það svo töff að ég held að það fari út í heim. Eigum eftir að taka það upp en við erum með stóra sýn fyrir það. Ég vil ekki hræða ykkur en ég held að við séum bara farnir út eftir það.“

María Jónsdóttir

María Jónsdóttir stofnandi Djammleigunnar segir hugmyndina að fyrirtækinu hafa kviknað út frá því þegar vinkonur hennar voru oft að fá lánaða kjóla hjá henni. Hjá Djammleigunni geturðu pantað mátun og í kjölfarið leigt þér kjól. María segir þetta umhverfisvænan kost og hyggst hún stækka fyrirtækið í náinni framtíð.

„Ég hef alltaf haft áhuga á tísku og að gera mig fína. Ég var með fatasíðu þar sem ég seldi notuð föt og tók eftir því að vinkonur mínar voru mjög duglegar að fá lánaða kjóla og þá fékk ég þessa hugmynd. Það gekk mjög vel,“ sagði María í síðdegisþættinum Skemmtilegu leiðinni heim.

Hún segir leiguverðið misjafnt eftir kjólum en hún hefur keypt kjóla á mismunandi verðbili, allt frá 10 þúsund krónum og upp í 50 þúsund krónur. Þá sé sjaldgæft að hún fái ónothæfa kjóla til baka.

„Það hefur einstaka sinnum komið fyrir en mjög sjaldan, en það er á ábyrgð leigjanda og það vita það flestir. Þegar ég byrjaði á þessu kunni ég ekkert að þrífa og vissi ekki hvað ég væri að gera, en það næst nánast allt úr,“ segir hún og hlær.

Áhugamál sem stækkaði ört

María er að verða nítján ára, er enn í menntaskóla og bíður spennt eftir útskrift. Hún sér fyrir sér að stækka fyrirtækið. „Þetta var fyrst áhugamál sem stækkaði svolítið hratt. En það er margt spennandi fram undan, þjónustan og bókunarkerfið verður til dæmis bætt mjög fljótlega. Ég vil geta stækkað þetta og þetta stækkar hægt og rólega.“

María kannar það oft hjá viðskiptavinum sínum hvaða stærðir, liti og útgáfur af kjólum hún eigi að panta. „Nú erum við með stærðir XXS-L en ég set fram kannanir reglulega og panta eftir eftirspurn. Fyrir ári átti ég átta kjóla en nú á ég yfir hundrað.“

Emmsjé Gauti

„Ég er ekki til í að kalla mig uppistandara strax. Þetta er svona, því ég smíðaði stól um daginn, sem er mjög valtur, enda er ég enginn smiður. En þetta er ennþá í vinnslu og gengur vel,“ segir tónlistarmaðurinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, í Bráðavaktinni með þeim Hjálmari Erni og Evu Ruzu. Þar talar hann um listformið sem uppistand er og nýju uppistandstónleikana sem hann heldur síðar í mánuðinum.

„Marga af bröndurunum sem ég er með tók langan tíma að finna, í gegnum blaður eða bara heima, í raun og veru er ég í fyrsta sinn núna að setjast niður og hugsa hvað ég get sagt fyndið.“

Merkilegra listform en músík

Hann hefur fylgst vel með senunni hér á landi í dágóðan tíma. „Ég hef dáðst að þessu listformi og finnst þetta merkilegra listform en músík. Það er ekki alltaf hlegið í meðvirkni. Vitandi það að ég er góður á sviði en á samt móment sem eru erfið og það gerist reglulega með uppistandara. En þetta hræddi mig smá. Salur af þegjandi fólki á tónleikum getur verið geðveikt en salur af þegjandi fólki á uppistandi er hræðilegt. Svo þegar ég var óöruggur í partíum fór ég að þróa þetta með mér, þá fór ég að blaðra,“ segir Gauti og útskýrir hvernig hann komst inn í senuna í upphafi.

„Svo talaði ég við Sögu Garðars um þetta og hún hvatti mig til að láta vaða. Ég fór að prófa ýmislegt í kjölfarið og það gekk ótrúlega vel. Eitt kvöldið vantaði svo kynni á Púðursykur, ég fer þar inn og er kynnir nokkur kvöld. Svo er ég kominn inn í sýninguna,“ segir Gauti og bætir við að þetta hafi í rauninni gerst alveg óvart þótt það hafi lengi blundað í honum.

Hann var ekki tilbúinn að sleppa efninu enda kom hann seint inn í Púðursykurssýningarnar í vetur. „Mér líður eins og ég eigi inni, en blanda þessu við tónlistina því mér finnst ég ekki eiga klukkutíma. Í leiðinni fáum við einhverja hugmynd, en þetta er nýtt fyrir mér að gera þetta saman.“

Hlustaðu á viðtölin í heild á K100.is.