Vortónleikar Valskórinn og Gissur Páll komu saman á æfingu í vikunni og eru hér við Kapelluna á Hlíðarenda.
Vortónleikar Valskórinn og Gissur Páll komu saman á æfingu í vikunni og eru hér við Kapelluna á Hlíðarenda. — Morgunblaðið/Eggert
Valskórinn á Hlíðarenda heldur árlega vortónleika sína í Háteigskirkju næstkomandi sunnudag kl. 16. Á tónleikunum verða tónlist og útsetningar Báru Grímsdóttur í hávegum í tilefni af því að hún hefur verið stjórnandi kórsins í 20 vetur

Valskórinn á Hlíðarenda heldur árlega vortónleika sína í Háteigskirkju næstkomandi sunnudag kl. 16. Á tónleikunum verða tónlist og útsetningar Báru Grímsdóttur í hávegum í tilefni af því að hún hefur verið stjórnandi kórsins í 20 vetur. Sérstakur gestasöngvari verður Gissur Páll Gissurarson tenórsöngvari og Sigurður Helgi verður meðleikari

Bára tók við stjórn Valskórsins haustið 2004 og fljótlega fóru lög hennar og útsetningar að prýða söngskrá kórsins. Efniviðurinn var fjölbreyttur, sálmalög við aldagömul eða nýort ljóð, útsetningar á lögum Bítlanna og erlendra söngleikjahöfunda og baráttusöngur fyrir náttúruvernd, svo dæmi séu tekin.

Á tónleikunum 12. maí syngur Gissur Páll m.a. lag Báru, A Young Man's Song, við ljóð enska skáldsins Williams Blakes. Frumflutt verður lagið Bæn einstæðingsins eftir einn af stofnendum Valskórsins, Dýra Guðmundsson, sem lést fyrr á árinu, við texta Gísla á Uppsölum og Ómars Ragnarssonar.

Bára starfar sem tónskáld, söngkona, tónlistarkennari og kórstjóri. Hún hefur samið fjölda kórverka, óperuna Jón biskup Arason, hljómsveitarverk, kammerverk og sólóverk fyrir ýmis hljóðfæri. Verk hennar hafa verið flutt víða í Evrópu, í Bandaríkjunum, í Kína og Ástralíu og eru flutt reglulega á Íslandi og mörg hafa verið gefin út á geisladiskum.

Valskórinn var stofnaður í september 1993 og fagnaði því 30 ára afmæli á síðasta ári með veglegum tónleikum og utanlandsferð. Enn syngja nokkrir stofnfélagar í kórnum og hafa ánægju af. Nýir félagar eru alltaf sagðir velkomnir á æfingar í Friðrikskapellu á mánudagskvöldum. Kemur kórinn fram nokkrum sinnum á ári, innan og utan Hlíðarenda.

Vortónleikarnir eru sem fyrr segir í Háteigskirkju á sunnudaginn. Miðasala er á tix.is og við innganginn.