Þegar litið er yfir rekstur þriggja stærstu sveitarfélaga landsins, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Hafnarfjarðarbæjar, síðastliðin tíu ár sést hvernig umgjörð fjármála hefur þróast með gjörólíkum hætti

Fréttaskýring

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Þegar litið er yfir rekstur þriggja stærstu sveitarfélaga landsins, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Hafnarfjarðarbæjar, síðastliðin tíu ár sést hvernig umgjörð fjármála hefur þróast með gjörólíkum hætti. Á meðan bæði skuldahlutföll og skuldaviðmið Kópavogs og Hafnarfjarðar hafa lækkað nokkuð hefur hvort tveggja stóraukist í Reykjavík. Þá hafa skuldir á hvern íbúa í Reykjavík aukist umtalsvert á tímabilinu á meðan þær hafa aukist lítillega í Hafnarfirði og lækkað í Kópavogi. Eins og gefur að skilja af þessum tölum hafa skuldir á föstu verðlagi aukist um 8% í Kópavogi og 18% í Hafnarfirði á meðan þær hafa rúmlega tvöfaldast í Reykjavík.

Aukning um 85% á áratug

Í gröfunum hér á síðunni má sjá hvernig skuldir fyrrnefndra sveitarfélaga hafa þróast með mismunandi hætti á sl. áratug. Rétt er þó að hafa í huga að vísitala þróunar er aðeins einn mælikvarði á fjárhagsstöðu og rekstur sveitarfélaga. Þannig hafa fulltrúar meirihlutans í Reykjavík, sem á liðnum árum hafa ítrekað þurft að verja bága fjárhagsstöðu borgarinnar, bent á að skuldaviðmið, skuldahlutföll og skuldir á hvern íbúa séu lægri en í tilteknum sveitarfélögum.

Það er alveg rétt, skuldir á hvern íbúa eru til að mynda hærri í Hafnarfirði heldur en í Reykjavík – en aftur á móti hefur heldur dregið saman með sveitarfélögunum en hitt. Til að mynda voru skuldir á hvern íbúa í Reykjavík um 780 þús. kr. í lok árs 2014 (á föstu verðlagi) en eru nú um 1.450 þús. kr. Þannig hafa skuldir á hvern íbúa í Reykjavík aukist um 85% á áratug, á meðan þær hafa aukist um 5% í Hafnarfirði og lækkað um 11% í Kópavogi. Allt er þetta á föstu verðlagi.

Á sama tíma hefur íbúum í Reykjavík fjölgað um rúm 15%, um 11% í Hafnarfirði og um 20% í Kópavogi.

Önnur viðmið segja sömu sögu

Hér er eingöngu horft til A-hluta sveitarfélaganna, en A-hluti sveitarfélaga er aðalsjóður hvers sveitarfélags og er fjármagnaður með skatttekjum. Undir B-hluta heyra fyrirtæki í eigu sveitarfélaga. Orkuveita Reykjavíkur er sem kunnugt er í eigu Reykjavíkurborgar og það væri því ósamanburðarhæft að bera saman rekstur A- og B-hluta þessara þriggja sveitarfélaga, þá sérstaklega þegar horft er til skulda og efnahagsstöðu.

Skuldahlutfall og skuldaviðmið eru líka mælikvarðar sem gjarnan eru notaðir til að mæla fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Þróun beggja mælikvarða segir þó svipaða sögu. Skuldahlutfall A-hluta Reykjavíkurborgar hefur aukist um 47% á liðnum áratug á meðan það hefur lækkað um 34% í Kópavogi og 29% í Hafnarfirði. Þá hefur skuldaviðmið borgarinnar hækkað um 26% á liðnum áratug á meðan það hefur lækkað um 45% í Kópavogi og 47% í Hafnarfirði. Munurinn væri sem fyrr segir enn ýktari ef horft væri til A- og B-hluta sveitarfélaganna.

Til viðbótar má nefna að rekstrartekjur sveitarfélaganna þriggja, horft á hvern íbúa og á föstu verðlagi, hafa aukist meira í Hafnarfirði og Kópavogi en í Reykjavík. Á meðan rekstrartekjur á hvern íbúa í Hafnarfirði hafa aukist um 50% á liðnum áratug hafa þær aukist um 36% í Kópavogi og aðeins 27% í Reykjavík. Það gefur til kynna að tekjuhærri einstaklingar velji frekar að búa í Hafnarfirði eða Kópavogi en í Reykjavík.