Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Við tökum fagnandi á móti þeim aukna nemendafjölda sem nú streymir í skólann.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Fyrr á þessu vori urðu þau tíðindi í háskólamálum á Íslandi að ákveðið var að fella niður skólagjöld í tveimur sjálfstætt starfandi háskólum, Háskólanum á Bifröst og Listaháskóla Íslands. Áhrifin af þeirri ákvörðun létu ekki á sér standa því aðsókn í báða skólana jókst svo um munaði.

Við Háskólann á Bifröst hefur fjöldi nýrra umsókna nánast fjórfaldast það sem af er innskráningartímanum, og ekki útséð um endanlegar tölur enn þar sem innskráningu lýkur ekki fyrr en 5. júní. Þar sem Háskólinn á Bifröst er fyrst og fremst fjarnámsháskóli er útlit fyrir að við munum geta mætt þessari aðsóknaraukningu af sömu lipurð og fagmennsku og hefur hingað til verið aðalsmerki háskólans okkar, enda er húsnæði ekki takmarkandi þáttur í starfinu.

Háskólinn ber nafn sitt af Bifröst í Borgarfirði, þar sem hann var til húsa þar til fyrir ári. Hann er nú með starfsstöðvar í Borgarfirði og í Reykjavík, en kennslan fer að mestu leyti fram í skýinu því Háskólinn á Bifröst hefur um langt árabil sérhæft sig í fjarkennslu. Námið er skipulagt í stuttum sjö vikna lotum sem brotnar eru upp með einni vinnuhelgi eða staðlotu, sem svo er nefnd. Þá hittast nemendur og kennarar í eigin persónu og sinna verkefnum sem krefjast viðveru. Þetta fyrirkomulag hefur sannað gildi sitt. Gæðarýni okkar og kannanir hafa sýnt að almenn ánægja er meðal nemenda með fyrirkomulag kennslunnar. Nemendur svara því í könnunum að þeir fái persónulega þjónustu af hálfu kennara og annars starfsfólks skólans, þó að samskiptin séu rafræn að mestu.

„Lærðu heima“

Þetta slagorð okkar minnir á þá staðreynd að við Háskólann á Bifröst geta nemendur stundað námið á eigin forsendum, þar sem þeir eru staddir hverju sinni. Skólinn kemur til þeirra. Sú tíð er liðin að háskólanemar sitji dögum saman inni á rykföllnum bókasöfnum með bókastafla á borðinu og doðrant í hendi. Í dag er heimurinn inni í skjá fartölvunnar, einum áslætti frá þér. Bókasöfn og skólastofur eru ekki lengur forsenda heldur viðbót eftir þörfum – ferðir og líkamleg viðvera að mestu óþörf nema sérstaklega standi á. Þannig mætir fjarnámið flestum þörfum nútímamanns sem vill geta ráðið tíma sínum. Það teygir sig yfir sýslumörk og landamæri og er þess vegna bylting varðandi aðgengi fólks að háskólanámi. Er það í samræmi við það stefnumið sem Háskólinn á Bifröst hefur frá upphafi haft, að tryggja fólki sem sækist eftir háskólamenntun sambærilegan aðgang að henni óháð búsetu og öðrum ytri aðstæðum.

Háskólinn á Bifröst hefur í heila öld menntað fólk til áhrifa og ábyrgðar í íslensku samfélagi og atvinnulífi. Í því skyni býður háskólinn fram nám við þrjú fræðasvið: Viðskiptadeild með sjö mismunandi áherslum, lagadeild með áherslu á viðskiptalögfræði og félagsvísindadeild þar sem boðið er upp á fimm námslínur í grunnháskólanámi og tvær meistaranámslínur. Grunnnámslínurnar eru: Miðlun og almannatengsl; opinber stjórnsýsla; skapandi greinar; stjórnvísindi (heimspeki, hagfræði og stjórnmál); og öryggisfræði og almannavarnir. Meistaranámslínurnar eru áfallastjórnun og menningarstjórnun.

Við tökum fagnandi á móti þeim aukna nemendafjölda sem þessa dagana er að skrá sig í skólann. Háskólinn á Bifröst fór nýlega í gegnum viðamikla gæðaúttekt gæðaráðs háskólanna og stóðst það próf með láði. Við hlökkum þess vegna til að veita nýjum nemendum sýn inn í þá fræðaheima sem eru sérsvið Háskólans á Bifröst.

Höfundur er deildarforseti og prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst.

Höf.: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir