Grindavík Þórkatla vinnur að kaupum á húseignum í Grindavík.
Grindavík Þórkatla vinnur að kaupum á húseignum í Grindavík. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fasteignafélagið Þórkatla hefur afgreitt allar þær umsóknir sem bárust félaginu í mars vegna kaupa á húseignum í Grindavík og ekki þurfti að skoða sérstaklega, en þær voru alls 528 talsins. Enn er þó unnið að vinnslu umsókna sem kröfðust sérstakrar skoðunar

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fasteignafélagið Þórkatla hefur afgreitt allar þær umsóknir sem bárust félaginu í mars vegna kaupa á húseignum í Grindavík og ekki þurfti að skoða sérstaklega, en þær voru alls 528 talsins. Enn er þó unnið að vinnslu umsókna sem kröfðust sérstakrar skoðunar. Á næstu dögum hefst vinna við úrvinnslu 130 umsókna sem bárust fyrri hluta apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur og fram að félagið hafi boðið eigendum um 415 húseigna í Grindavík kaupsamning til undirritunar sem eru rúm 55% allra umsókna.

Í tilkynningunni segir að nú liggi fyrir 380 þinglýstir kaupsamningar þar sem kaupverð nemur um 30 milljörðum króna og hafi félagið greitt kaupsamningsgreiðslu í 358 viðskiptum að upphæð 17,5 milljarðar króna og yfirtekið lán frá 16 lánastofnunum að upphæð um níu milljarðar króna. Segir að Þórkatla geri nú á bilinu 30-40 kaupsamninga á dag og stefni að því að ljúka gerð kaupsamnings í næstu viku við alla þá 528 aðila sem sóttu um í mars.

Kvartað hefur verið yfir hægagangi í afgreiðslu mála hjá félaginu, en Þórkatla segir ýmis mál hafa flækt frágang nokkurra kaupsamninga, t.d. þegar um tryggingarbréf og veð frá einkaaðilum hafi verið að ræða, kvaðir á húsum sem standa á einkalóðum, útrunnin rafræn skilríki o.fl.