Teymið Þær sem standa fyrir hátíðinni í ár eru Karítas Ósk Harðardóttir, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, Guðfinna Birta Valgeirsdóttir, Edda Konráðsdóttir, Katie Hitchcock og Elísabet Hanna.
Teymið Þær sem standa fyrir hátíðinni í ár eru Karítas Ósk Harðardóttir, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, Guðfinna Birta Valgeirsdóttir, Edda Konráðsdóttir, Katie Hitchcock og Elísabet Hanna. — Ljósmynd/Elísabet Blöndal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýsköpunarhátíðin Iceland Innovation Week fer af stað í fjórða skiptið dagana 13.-17. maí með alls konar viðburðum um allt land. Þó munu flestir þeirra fara fram í miðbæ Reykjavíkur. Markmiðið með hátíðinni er að gera nýsköpun sýnilega og aðgengilega almenningi

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Nýsköpunarhátíðin Iceland Innovation Week fer af stað í fjórða skiptið dagana 13.-17. maí með alls konar viðburðum um allt land. Þó munu flestir þeirra fara fram í miðbæ Reykjavíkur. Markmiðið með hátíðinni er að gera nýsköpun sýnilega og aðgengilega almenningi. Áhugi erlendra fjárfesta á íslenskum sprotafyrirtækjum hefur einnig aukist síðan hátíðin var stofnuð og hefur nú skapast vettvangur hér á landi sem krefjandi þótti að finna áður.

Stofnendur Iceland Innovation Week eru þær Edda Konráðsdóttir og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir. „Við höfðum unnið saman að stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi í einhver ár og þar var hluti af okkar vinnu að sækja útlendar sprotaráðstefnur og hátíðir. Við fórum þangað með íslensk sprotafyrirtæki og fjárfesta. Í raun og veru vorum við alltaf að reka okkur á að við vorum svo oft spurðar hvenær væri svo hægt að koma til Íslands á okkar hátíð og við vorum aldrei með nein svör,“ segir Edda. „Það var enginn sambærilegur viðburður á ensku, allt var á íslensku eða í miklu minna formi. Þannig að við ákváðum að hætta í vinnunni árið 2019 og byrja að vinna að einhverju.“

Vinnan hófst og þær settu af stað stóra hátíð. Þegar allt er upp sett þá skellur heimsfaraldurinn á og þær urðu í kjölfarið að beita nýsköpunarhugsun. „Þetta var hálft á netinu og hálft í persónu en það gekk ótrúlega vel upp. Því þetta er nýsköpunarheimur og það má alveg hugsa út fyrir kassann og gera allt öðruvísi. Þannig byrjaði þetta og á árunum sem fylgdu þá hefur þetta stækkað.“

Skemmtun og öðruvísi nálgun

Þær leggja áherslu á að þetta sé hátíð en ekki ráðstefna til að kalla fram öðruvísi tilfinningu. „Það er miklu meiri skemmtun, listir og öðruvísi nálgun. Það eru fríir viðburðir gegnumgangandi um allan bæ og í raun og veru um allt land en svo setjum við á svið okkar eigin dagskrá sem hægt er að kaupa miða á.“

Það má segja að hópurinn sem sækir hátíðina sé tvískiptur. „Hátíðin með alla fríu hliðarviðburðina er í rauninni markaðssett gagnvart almenningi og öllum þeim sem hafa áhuga á að kynnast nýsköpun en eru ekki að hrærast í þessum heimi nú þegar. Þeim sem geta verið að ganga niðri í bæ og detta inn á einhvern viðburð hjá sprotafyrirtæki sem er að kynna nýja vöru eða á „Happy-Hour“ hjá fjárfestingarsjóði til að heyra hvað er um að vera í fjárfestingarheiminum. Svo er okkar sviðsprógramm og þeir sem mæta þangað eru að mestu leyti sprotafyrirtæki, fjárfestar og nýskapandi stórfyrirtæki,“ útskýrir Edda. Í dagskránni má svo finna fjölbreytta fyrirlesara.

„Við erum í rauninni með fimm þemu þetta árið. Þau eru umbyltandi tækni, loftslagsmál, heilsutækni, fjármögnun og loks leikjaiðnaður og gleði. Loftslagsflokkurinn og sjálfbærnin hefur verið og er alltaf stærsta þemað hjá okkur. Við erum með einn stóran viðburð sem haldinn er á hverju ári og heitir Ok bye, nafnið vísar í fyrsta jökulinn sem hvarf sökum loftslagsbreytinga,“ segir Edda.

Viðskiptahugmyndir kynntar

Hverju mælirðu með á hátíðinni? „Ég mæli auðvitað með okkar viðburðum sem verða haldnir í Kolaportinu 15. og 16. maí. Þar erum við með sviðsdagskrána okkar á degi eitt og loftslagsleikhúsið á degi tvö. Um kvöldið þann 16. erum við með stóra kynningarkeppni þar sem átta sérvalin íslensk sprotafyrirtæki geta komið og tekið þátt. Hún kallast Silicon Vikings og þar er verið að kjósa íslenskan fulltrúa sem getur farið á stóra sviðið á Slush í Helsinki í lok árs og kynnt fyrirtækið sitt. Það er alltaf mjög spennandi viðburður fyrir sprotasenuna. En mér finnst alltaf gaman að segja frá því að viðburðirnir sem eru í boði ná yfir allan skalann, þeir geta verið skemmtilegir eða alvarlegir og formlegir.“

En hvaða þýðingu hefur hátíðin fyrir íslensk fyrirtæki? „Á fimmta árinu erum við að sjá svart á hvítu áhrifin sem þetta hefur. Mælanleg áhrif eru erfið í þessum geira því þetta eru langar tímalínur. En sem dæmi erum við að sjá aukna erlenda fjárfestingu í íslenskum sprotafyrirtækjum eftir að hátíðinni var hleypt af stokkunum. Við höfum fengið að vita það frá fyrstu hendi að nokkrum mánuðum eftir hátíðina hafa sprotafyrirtæki heyrt í okkur og þakkað fyrir. Þá hafi þau hitt fjárfesta á hátíðinni og nokkru síðar lokað fjárfestingu. Þá líður okkur eins og við höfum verið að gera eitthvað og það sé ástæða fyrir því að við erum að standa í þessu.“

Á sama tíma er verið að búa til vettvang fyrir alla hagaðila nýsköpunar til að geta setið við sama borð að sögn Eddu. „Það hefur svolítið verið lenskan á Íslandi að vinna hlið við hlið en tala ekki saman um það. Svo við erum að búa til þennan vettvang fyrir íslenska samfélagið.“

Tæknirisar taka þátt

Mikil fjölgun hefur verið á erlendum gestum sem sækja hátíðina frá ári til árs. „Við erum einnig að búa til vettvang fyrir erlendu tengingarnar. Við vorum með 3.500 gesti á hátíðinni í fyrra og um 800 gesti sem keyptu miða á sjálft prógrammið. Í ár eigum við von á um eitt þúsund gestum á prógrammið og þar af eru 40% erlendir gestir. Stærsti hópurinn af erlendu gestunum eru fjárfestar og sprotafyrirtæki,“ segir Edda.

„Svo eftir fimm ár af samtölum erum við að sjá stóru tæknirisana koma á hátíðina. Fyrirtæki eins og Google, Microsoft og Snapchat eru loksins að koma og taka virkan þátt. Þetta eru stór tímamót í ár í tengingum og við erum að sjá þá stíga af miklum krafti inn í hátíðina og sjáum mörg tækifæri þarna.“

Meiri upplýsingar um hátíðina og dagskrá hennar nálgast á innovationweek.is.

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir