Bóluefni AstraZeneca hefur tekið bóluefnið Vaxzevira af markaði.
Bóluefni AstraZeneca hefur tekið bóluefnið Vaxzevira af markaði. — AFP/Louai Beshara
Bresk-sænski lyfjaframleiðandinn AstraZeneca tilkynnti í gær að bóluefnið Vaxzevira, eitt það fyrsta sem framleitt var gegn kórónuveirunni sem olli Covid-19, hefði verið tekið af markaði. Bóluefnið var m.a

Bresk-sænski lyfjaframleiðandinn AstraZeneca tilkynnti í gær að bóluefnið Vaxzevira, eitt það fyrsta sem framleitt var gegn kórónuveirunni sem olli Covid-19, hefði verið tekið af markaði. Bóluefnið var m.a. notað hér á landi við bólusetningar árið 2021 ásamt fleiri bóluefnum.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þróuð hafi verið bóluefni gegn Covid-19, sem vinni gegn ýmsum afbrigðum veirunnar, og það hafi leitt til minni eftirspurnar eftir Vaxzevria sem nú hafi verið hætt að framleiða og dreifa.

AstraZeneca þróaði bóluefnið í samvinnu við Oxford-háskóla, strax á fyrstu mánuðunum eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út á fyrri hluta ársins 2020. Bóluefnið var fyrst selt á kostnaðarverði en í lok árs 2021 ákvað fyrirtækið að selja það með hagnaði. Það fór hins vegar halloka fyrir svonefndum mRNA-bóluefnum, einkum þeim sem bandaríski lyfjaframleiðandinn Pfizer og þýski framleiðandinn BioNTech komu fram með, og einnig var sjaldgæf blóðtappamyndun rakin til bóluefnisins. Eftir að alþjóðlegum takmörkunum vegna faraldursins var aflétt hrundi salan.

Fyrirtækið segir að nú sé unnið að því að fjarlægja bóluefnið af markaði Í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Þá sé einnig unnið með lyfjaeftirlitum annars staðar í heiminum, þar sem engin eftirspurn sé eftir efninu, að taka það af skrá.

Í tilkynningu AstraZeneca er haft eftir talsmanni fyrirtækisins, að áætlað sé að um 6,5 milljónum mannslífa hafi verið bjargað með notkun Vaxzevira á fyrsta árinu eftir að það kom á markað og yfir 3 milljörðum skammta hafi verið dreift um heim allan. „Við erum afar stolt af því hlutverki sem Vaxzevria lék við að binda enda á heimsfaraldurinn.“