Rafnhildur Björk Eiríksdóttir fæddist 1. janúar 1943. Hún lést 13. apríl 2023.

Útför hennar fór fram 28. apríl 2023.

Í dag, 13. apríl 2024, er eitt ár síðan elsku amma mín Björk kvaddi okkur. Sorgin er mikil en þakklætið er meira. Ég ætla að einbeita mér að því. Ég er svo þakklát fyrir það að við mamma, Steinunn og Kolbjörn gátum verið hjá henni. Þakklát fyrir hjúkrunarfræðingana og sjúkraliðana sem hugsuðu öll svo vel um ömmu og okkur. Þakklát fyrir Hafdísi og Kristínu, sem vonandi vita hvað þær hjálpuðu okkur mikið, á svo marga vegu. Þakklát fyrir það að hafa, ásamt Steinunni, kennt ömmu á spotify fyrir nokkrum árum, þar sem hún hafði búið til ýmsa playlista með yndislegum lögum sem við spiluðum mikið á spítalanum. Mest af öllu er ég óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að eiga ömmu Björk að. Hún var umhyggjusamasta og umburðarlyndasta manneskja sem ég hef þekkt. Hún var líka rosalega fyndin og sniðug, sagði svo skemmtilega frá. Hún passaði alltaf mjög vel upp á að við vissum hve mikið hún elskaði okkur. Allt sem við Kolbjörn gerðum var fullkomið, allt sem við snertum varð að gulli, allt sem við sögðum var „groundbreaking stuff“! Alveg sama hversu ómerkilegt það var, ömmu fannst það frábært. Ömmu fannst við frábær. Skilyrðislausa ástin sem maður finnur frá foreldrum sínum er eitt, og ég er alveg sérstaklega heppin með stuðningsríka og hvetjandi foreldra, en skilyrðislausa ástin frá ömmu var á einhverjum allt öðrum mælikvarða.

Hún var mjög hæfileikarík og átti sér mörg áhugamál; var í kórum, spilaði á gítar (kenndi sér sjálf á gítar og gaf mér svo gítarbók í jólagjöf ein jólin og þá náði ég líka að kenna sjálfri mér á gítar, alveg eins og amma), málaði málverk (listaverk! mörg! ófaglærð!), teiknaði, fór með vísur og ljóð (mun aldrei skilja hvernig ein manneskja gat geymt svona mörg ljóð og margar vísur í kollinum á sér). Þrátt fyrir öll þessi áhugamál sem hún elskaði held ég að hún hafi samt kannski mest af öllu elskað að vera amma. Hún lét manni allavega líða þannig. Og hún var líka besta amma í heimi. „I learned from the best!“ sagði hún oft og átti þá við föðurömmu mína, ömmu Guðríði, sem var einmitt einstaklega frábær og fullkomin amma líka. Sem sagt: ég er að springa úr þakkæti. Takk fyrir allt, amma Björk.

Ísafold Björgvinsdóttir.