Á Íslandi Rufus Wainwright 2008.
Á Íslandi Rufus Wainwright 2008. — Morgunblaðið/Eggert
Rufus Wainwright kennir þröng­sýni Breta eftir Brexit, þ.e. útgöngu landsins úr Evrópusambandinu, um það að söngleikurinn hans Opening Night hafi floppað í Bretlandi. Hætta þurfi sýningum tveimur mánuðum áður en til stóð vegna dræmrar miðasölu

Rufus Wainwright kennir þröng­sýni Breta eftir Brexit, þ.e. útgöngu landsins úr Evrópusambandinu, um það að söngleikurinn hans Opening Night hafi floppað í Bretlandi. Hætta þurfi sýningum tveimur mánuðum áður en til stóð vegna dræmrar miðasölu. Samkvæmt frétt The Guardian fékk uppfærslan mjög misjafna dóma hjá rýnum. Sjálfur telur Wainwright að áhorfendur á West End skorti „forvitni“ eftir Brexit og að breska pressan hafi snúist gegn sýningunni sökum þess að hún væri „of evrópsk“.

Opening Night, sem er fyrsti söngleikur Wainwrights, var í leikstjórn Ivo van Hove, en með aðalhlutverkið fór Sheridan Smith. The Guardian rifjar upp að þegar verkið var frumsýnt í mars hafi nokkrir áhorfendur labbað út í miðri sýningu og aðrir yfirgefið leikhúsið í hléi. Í því samhengi er bent á að í söngleiknum hafi Smith í einni senu skjögrað út úr leikhúsinu meðan hann var kvikmyndaður og myndefninu varpað beint á tjald á sviðinu. Wainwright segir ljóst að tilraunamennskan sem unnið hafi verið með í uppfærslunni hafi verið of mikil fyrir íhaldssama áhorfendur.