[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fylkir hefur teflt fram flestum uppöldum leikmönnum í Bestu deild karla í fótbolta í fyrstu fimm umferðunum á þessu keppnistímabili en flestir leikmenn í deildinni eru uppaldir í Breiðabliki. Þetta er meðal þess sem sjá má í kortinu hér fyrir ofan…

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Fylkir hefur teflt fram flestum uppöldum leikmönnum í Bestu deild karla í fótbolta í fyrstu fimm umferðunum á þessu keppnistímabili en flestir leikmenn í deildinni eru uppaldir í Breiðabliki.

Þetta er meðal þess sem sjá má í kortinu hér fyrir ofan þar sem fram kemur hversu marga uppalda leikmenn hvert lið deildarinnar hefur notað í leikjunum fimm.

Hjá Fylki eru 12 leikmenn af 20 sem tekið hafa þátt í leikjunum uppaldir í Árbænum. HK kemur í kjölfarið með 10 uppalda leikmenn af 20 og Skagamenn eru þriðja félagið sem nær því að vera með 50 prósenta hlutfall.

Á neðri hluta kortsins má sjá hvar leikmennirnir í deildinni eru uppaldir og þar kemur fram að 22 leikmenn koma frá Breiðabliki þó aðeins átta þeirra séu í röðum Kópavogsliðsins í dag. FH og Víkingur eru m.a. með þrjá Blika í sínum röðum hvort félag.

Valsmenn eru aftastir í röðinni en þeir hafa teflt fram einum uppöldum leikmanni á tímabilinu. Það er aldursforsetinn Birkir Már Sævarsson sem verður fertugur í haust.

Fjölnir á heilt lið í deildinni þó Grafarvogsfélagið leiki í 1. deild. Fjölnir á m.a. þrjá leikmenn í Val, tvo í KR og tvo í KA. Aðeins sex lið Bestu deildarinnar hafa alið upp fleiri leikmenn hennar en Fjölnir.

Afturelding er skammt undan því níu leikmenn í Bestu deildinni eru uppaldir í Mosfellsbænum. Þar er mest sláandi að fimm þeirra leika með Breiðabliki og svo þrír í KR.

Völsungur á Húsavík á fimm leikmenn í Bestu deildinni og fjórir þeirra leika með KA.

Valsmenn eru einnig neðstir á blaði á þessu sviði en þeir eiga engan leikmann í deildinni í öðru félagi.

Flestir frá Danmörku

Alls hafa 39 erlendir leikmenn frá 20 löndum komið við sögu í fyrstu fimm umferðunum. Tíu þeirra eru danskir en rétt er að taka fram að Frederik Schram, markvörður Vals, er talinn á meðal þeirra, þó hann sé íslenskur landsliðsmaður, þar sem hann ólst upp í Danmörku.

Þriðjungur erlendu leikmanna spilar með Vestra, eða 13 talsins af 21 leikmanni sem hefur spilað með nýliðunum í vor.

Tveir leikmenn hafa spilað með tveimur félögum á tímabilinu, Haraldur Einar Ásgrímsson með FH og Fram og Eyþór Aron Wöhler með Breiðabliki og KR. Þeir eru því báðir taldir fram á tveimur stöðum á efra kortinu en einu sinni á því neðra, Haraldur sem uppalinn Framari og Eyþór er uppalinn hjá Aftureldingu.