Ísfólkið Guðlaug er hér með sonum sínum, Steingrími Ellertssyni til vinstri og Ólafi Jónssyni. Ís fyrir alla og mikið er hún mamma glöð!
Ísfólkið Guðlaug er hér með sonum sínum, Steingrími Ellertssyni til vinstri og Ólafi Jónssyni. Ís fyrir alla og mikið er hún mamma glöð! — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Árbæingar hafa alltaf verið okkur góðir. Þeim og öðrum viljum við þakka fyrir tryggðina á tímamótum nú,“ segir Guðlaug Steingrímsdóttir, kaupmaður í söluturninum Skalla við Hraunbæ í Árbæjarhverfinu í Reykjavík

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Árbæingar hafa alltaf verið okkur góðir. Þeim og öðrum viljum við þakka fyrir tryggðina á tímamótum nú,“ segir Guðlaug Steingrímsdóttir, kaupmaður í söluturninum Skalla við Hraunbæ í Árbæjarhverfinu í Reykjavík. Um þessar mundir eru liðin rétt 40 ár síðan Gulla, eins og hún er jafnan kölluð, tók við Skalla, en stofnað var til rekstrarins nokkrum árum fyrr. Þetta er staður sem í tímans rás hefur notið mikilla vinsælda, meðal annars fyrir kjarngóða skyndibita en ekki síst ís í ýmsum útgáfum. Til hátíðabrigða verður gestum og gangandi svo í dag, uppstigningardag, milli klukkan 13 og 16, boðið upp á ís í brauðformi. Einn á mann!

Félagsmiðstöð og sjoppa Árbæinga

„Niðri í Lækjargötu var sjoppa sem hárlaus maður átti og rak. Meðal nemenda í MR var sá víst alltaf kallaður Skalli og þegar forveri minn hér þurfti nafn á sinn rekstur kom þetta upp. Skallanafnið er líka sígilt og hefur virkað vel,“ segir Gulla, sem er kaupmaður af lífi og sál. Byrjaði ferilinn ung; átti og rak kjörbúðir á Seltjarnarnesi, í Hlíðum og Árbæ. Þegar tækifærið bauðst stökk hún svo á rekstur Skalla, sem fljótlega tók allt annað yfir.

„Þetta var árið 1984 og þá þóttist ég sjá að tími litlu hverfisbúðanna væri að líða undir lok. Færði mig því yfir á Skalla, sem í tímans rás hefur verið sjoppa Árbæinga, en líka öðrum þræði félagsmiðstöð. Hingað hafa þræðirnir legið og ég þekki flesta þá krakka sem hafa alist upp hér í hverfinu á síðustu áratugum,“ segir Gulla. Hún er komin fast að áttræðu en kemur enn á hverjum degi á Skalla og gengur í verkin. Hitann og þungann af daglegu starfi bera þó synir hennar, þeir Steingrímur Ellertsson og Ólafur Jónsson. Þá hefur systir Gullu, Sveinbjörg, lengi starfað á Skalla en saman hefur þetta fólk með fleirum myndað þann góða brag sem einkennir staðinn.

„Glaðværð, spjall á léttum nótum, gæðavörur og að fólk finni sig velkomið. Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér. Þessi atriði þurfa að vera í formúlunni, og að við sem stöndum að þessum fjölskyldurekstri séum sem mest sjálf hér á staðnum tel ég mjög mikilvægt,“ segir Gulla á Skalla og að lokum:

„Fastir viðskiptavinir hér eru margir, Árbæingar og fleiri. Einn af Seltjarnarnesi kemur hingað oft til að fá samloku með rækjusalati sem hann segir hvergi betri. Sú var líka tíðin að ef hópar frá Selfossi voru á leið austur var oft stoppað hér á Skalla, til dæmis eftir íþróttaleiki eða bíó. Svo var líka afar gaman þegar forseti Íslands, í opinberri heimsókn til Reykjavíkur síðasta haust, leit hér inn. Forsetinn er einn af mörgum sem koma stundum hér við og bjóða börnunum upp á ís, sem nú er ókeypis í einn dag.“