Arnheiður Ingólfsdóttir fæddist 16. apríl 1942. Hún lést 10. apríl 2024.

Arnheiður var jarðsungin 23. apríl 2024.

Tiltölulega nýlent á japanskri grund bárust undirritaðri þær sorgarfréttir að mín ástkæra vinkona Arnheiður hefði látist óvænt í faðmi fjölskyldu sinnar í Frakklandi og fór jarðarför hennar fram á meðan ég var enn á fjarlægum slóðum.

Arnheiði kynntist ég fyrst þegar hún gekk til liðs við „systur“ í Soroptimistaklúbbi Bakka og Selja árið 1988 hvar ég var stofnfélagi og urðum við fljótlega mestu mátar.

Á vordögum 2013 urðum við báðar fyrir þeirri miklu sorg að eiginmenn okkar féllu frá með fárra vikna millibili. Við þær sorglegu og erfiðu breytingar á högum okkar dýpkaði vináttan. Við vorum samtaka í því að takast á við lífið framundan á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Við byrjuðum að ferðast saman, bæði á eigin vegum til útlanda en vorum jafnframt duglegar að sækja fundi á vegum soroptimista jafnt innan lands sem utan, nú síðast á alþjóðaþing soroptimista í Dublin í júlí síðastliðnum. Við deildum ávallt herbergi og var samvistin í misþröngum hótelherbergjum og káetum afar nærandi og gefandi enda Arnheiður einstakur ferðafélagi, með afar hlýja nærveru og góður hlustandi. Kom það sér vel fyrir síblaðrandi herbergisfélaga. Ekki var verra að við vinkonurnar vorum yfirleitt sammála um landsins gagn og nauðsynjar. Við vorum líka duglegar að ganga saman, fara í kvikmyndahús og sjá hinar ýmsu leiksýningar og þá yfirleitt í för með Önnu Guðleifsdóttur, svilkonu Arnheiðar. Til stóð að fara í næstu utanlandsferð 1. ágúst næstkomandi. Þá skyldi farið í eina fallegustu siglingaleið heims, þ.e. meðfram strandlengju Noregs en Arnheiði var afar hlýtt til Noregs eftir framhaldsnám þar í landi á árum áður. Í þeirri ferð verður hjartkær vinkona mín með mér í anda. Minningarnar lifa.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elsku fjölskylda Arnheiðar, hjartanlegar samúðarkveðjur.

Snjólaug
Sigurðardóttir.