Fjölskyldan Hjónin, börnin og tengdabörn, frá vinstri: Jón Trausti, Edda, Arnar Ingi, Dilja Björk, Auður, Hildur Karitas og Kári Daníel.
Fjölskyldan Hjónin, börnin og tengdabörn, frá vinstri: Jón Trausti, Edda, Arnar Ingi, Dilja Björk, Auður, Hildur Karitas og Kári Daníel.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Trausti Ólafsson fæddist 9. maí 1974 á Akranesi og ólst þar upp alla sína æsku. „Akranes er frábært bæjarfélag og það var gott að alast upp á Skaganum sem barn. Við vorum lengra frá höfuðborginni en í dag, það voru miklu færri íbúar á þeim …

Jón Trausti Ólafsson fæddist 9. maí 1974 á Akranesi og ólst þar upp alla sína æsku. „Akranes er frábært bæjarfélag og það var gott að alast upp á Skaganum sem barn. Við vorum lengra frá höfuðborginni en í dag, það voru miklu færri íbúar á þeim tíma, íþróttastarf var öflugt og alltaf hægt að sækja í ævintýri í fjörunum í kringum bæinn, Akrafjalli eða á Langasandi.“

Jón Trausti var nemandi við Brekkubæjarskóla sem er skólinn í eldri hluta bæjarins, þaðan fór hann í Fjölbrautaskóla Vesturlands og lauk þar námi við viðskiptafræðibraut. Þegar námið var hálfnað í fjölbrautaskólanum hélt Jón Trausti til Brasilíu þar sem hann var skiptinemi í Sao Paulo. „Að búa í Brasilíu í eitt ár var meðal eftirminnilegustu tímabila lífsins. Það var mjög þroskandi að flytja frá Skaganum og til stærstu borgar Suður-Ameríku. Ég var heppinn með fjölskyldu og með þeim og einnig á eigin vegum náði ég að ferðast aðeins um landið og tengjast Brasilíu. Ég á eftir að heimsækja þau að nýju en það er á dagskrá á næstu árum.“

Þegar Jón Trausti kom heim í Fjölbraut varð hann forseti nemendafélagsins í eitt ár. „Það var einnig mjög gott og gerði mér mjög gott að fara á fullu í félagslífið í framhaldi af ferðalaginu – félagsstörf hjá ungu fólki í skóla eru mjög mikilvæg og ég sé það í gegnum börnin mín í dag hvað þetta skiptir miklu máli.“

Öll sumur eftir skiptinemadvölina og samhliða námi í Háskólanum á Bifröst starfaði Jón Trausti sem fararstjóri í Portúgal hjá Úrvali-Útsýn og Samvinnuferðum-Landsýn. „Mér fannst tilvalið að nýta portúgölskukunnáttuna frá Brasilíu og finna mér sumarvinnu sem væri gott framhald af félagsstörfum mínum. Fararstjórn í Portúgal var því að mínu mati fullkomið sumarstarf fyrir mig þessi 4-5 ár í kringum tvítugt. Ég átti mína upphaldsferð þar með Íslendinga og það var til Lissabon og hef ég komið þangað í örugglega 40-50 skipti. Portúgal er afar gott land fyrir okkur Íslendinga að þvælast um. Á þessum tíma kynntist ég mjög mörgum og það reyndi á mig sem ungan mann að klóra mig fram úr alls konar aðstæðum sem upp komu. Oft síðar á lífsleiðinni hef ég horft til þessa tímabils sem frábærs skóla fyrir mig í lífinu.“

Árið 1998 útskrifaðist Jón Trausti frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Hann hóf þá störf síðar sama ár í Heklu og starfaði þar 1998-2010. Fyrst sem sölustjóri notaðra bíla, þá sem þjónustustjóri og loks sem markaðsstjóri. Samhliða því fékk hann það verkefni sem markaðsstjóri Heklu að vinna að undirbúningi bílaumboðsins Öskju. Mercedes-Benz vildi setja upp nýtt umboð á Íslandi og samdi þá við Heklu um það verkefni.

„Mér var falið af þáverandi forstjórum Heklu, fyrst Tryggva Jónssyni og síðar Knúti Haukssyni, að fara í þetta verkefni. Samstarf við þá báða var frábært og mér og þeim félögum er vel til vina. Frá því ég kom endanlega til Öskju hef ég svo átt frábæra samvinnu við meðeigendur okkar Eddu í fyrirtækjunum, þau Hjörleif Jakobsson og Hjördísi Ásberg, Frosta Bergsson og Halldóru Mathiesen og Egil Ágústsson og Hildi Einarsdóttur. Þetta er afar þéttur og góður hópur sem hefur staðið 100% við bakið á uppbyggingu Öskju í allan þennan tíma. Fyrir mig að fá rekstrarlegt uppeldi með þessum hópi hefur verið mjög góð reynsla og er ég þeim öllum afar þakklátur fyrir þetta tækifæri.

Móðurfélag Öskju heitir Vekra, sem er nafn sem við völdum og er gott íslenskt nafn sem þýðir að vaka yfir og efla. Það er réttnefni því félög Vekru eru í dag sex talsins og þar eru um 250 starfsmenn. Félögin eru Askja, Sleggjan, Hentar, Lotus, Una og Dekkjahöllin, sem á þessu ári fagnar 40 ára afmæli.“

Jón Trausti var formaður í Bílgreinasambandinu 2013-2020. Hann er í dag formaður Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins og situr einnig í stjórn Viðskiptaráðs.

„Helstu áhugamál mín eru ferðalög og golf með eiginkonu minni og vinum auk þess sem við höfum átt hund í langan tíma og daglegir göngutúrar með honum hjálpa mér að skipta um gír eftir vinnudaginn og ná að anda að mér íslensku lofti og fá góða hreyfingu. Við erum bæði byrjuð í golfi og erum hvort í sínum golfhópnum sem er frábært því vinahóparnir hafa bara stækkað við það og þar sem við erum bæði í þessu skemmtilega sporti þá er fullur skilningur fyrir þeim tíma sem golfið tekur.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns Trausta er Edda Björk Kristjánsdóttir, f. 9.11. 1976 sem er uppalin á Álftanesi. Edda er framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Húsasmiðjunni og hefur starfað þar í sex ár. Þau búa í Prýðahverfi í Garðabæ. „Okkur líður mjög vel í Prýðahverfinu þar sem við annars vegar erum við rætur Álftaness þaðan sem Edda kemur og hins vegar sjáum við upp á Skaga og erum í nálægð við náttúruna sem okkur finnst skipta miklu máli.“

Jón Trausti kynntist eiginkonu sinni árið 2003. „Ég var svo heppinn að eiga bókaðan tíma í klippingu hjá henni en hún starfaði þá sem hárgreiðslumeistari. Það var ást við fyrstu sýn, allavega af minni hálfu, en fljótlega eftir þennan fyrsta tíma kynntumst við betur í gegnum sameiginlega vini og höfum verið samferða í rúm 20 ár. Á þeim tíma höfum við bæði aukið við menntun okkar, ég kláraði MBA frá HR árið 2010 og Edda hefur náð sér í allavega þrjár háskólagráður. Hún lauk námi í viðburðastjórnun frá Háskólanum á Hólum, félagsfræði við Háskóla Íslands og mannauðsstjórnun sömuleiðis auk markþjálfunar.“

Foreldrar Eddu Bjarkar eru hjónin Kristján Hallgrímsson pípulagningameistari, f. 2.11. 1949, og Steinhildur Sigurðardóttir félagsráðgjafi, f. 20.10. 1953. Þau eru búsett í Borgarnesi.

Börn Jóns Trausta og Eddu eru: 1) Dilja Björk Trausta Örvarsdóttir, f. 30.11. 1996, starfar í dag hjá Eimskip, býr í Reykjavík. Faðir hennar er Örvar Helgason; 2) Arnar Ingi Traustason, f. 16.11. 1997, starfar í dag hjá Arion banka og er nemi í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, býr í Kópavogi. Móðir hans er Bryndís Jónsdóttir; 3) Hildur Karitas Traustadóttir, f. 4.4. 2006, nemandi við Verzlunarskóla Íslands, býr í foreldrahúsum.

Systur Jóns Trausta eru Jóhanna Ólafsdóttir ljósmóðir, f. 10.1. 1977, og Karitas Ósk Ólafsdóttir grunnskólakennari, f. 10.4. 1987. Báðar búa þær ásamt mökum sínum og fjölskyldum á Akranesi.

Foreldrar Jóns Trausta eru Ólafur Óskarsson bifvélavirki, frá Beitistöðum í Leirársveit, f. 5.8. 1949, og Kristný Lóa Traustadóttir heilbrigðisgagnafræðingur, frá Akranesi, f. 26.4. 1956. Þau eru búsett á Akranesi.