Helgi Þorgils Friðjónsson (1953) Fiskar sjávar, 1995 Olía á striga 160,5 x 205 cm, 75,5 x 205 cm
Helgi Þorgils Friðjónsson (1953) Fiskar sjávar, 1995 Olía á striga 160,5 x 205 cm, 75,5 x 205 cm
Helgi Þorgils Friðjónsson lét að sér kveða á myndlistarvettvangi eftir nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám í Hollandi undir lok áttunda áratugarins. Kom hann fram sem einn helsti frumkvöðull hins svokallaða „nýja…

Helgi Þorgils Friðjónsson lét að sér kveða á myndlistarvettvangi eftir nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám í Hollandi undir lok áttunda áratugarins. Kom hann fram sem einn helsti frumkvöðull hins svokallaða „nýja málverks“ en rætur þess mátti rekja til pönkbylgjunnar og í raun allt aftur til þýska expressjónismans í anda De Brücke-hópsins þýska sem blómstraði í byrjun tuttugustu aldar. Helgi Þorgils notfærði sér jöfnum höndum myndasögur, veggjakrot og goðsöguleg minni við að skapa málverk sem voru full af húmor og þróttmikilli frásögn. Um miðjan níunda áratuginn urðu þau kaflaskil í verkum Helga að þau fóru að vísa æ sterkar í evrópska listhefð, um leið og hann fór að notfæra sér myndlíkingar með markvissari hætti og fága handbragðið. Uppreisnin sem finna mátti í fyrstu verkum hans vék smám saman fyrir sífellt flóknara táknmáli með sterkum vísunum í íslenska náttúru og heimahaga hans við Breiðafjörð.

Helgi Þorgils hefur skapað sér afar persónulegt myndmál þar sem hann sjálfur hefur leikið stórt hlutverk á myndfletinum. Sviðsett málverk hans minna einna helst á uppstillingar hollenskra málara frá 17. og 18. öld. Fiskar sjávar er í þeim flokki en þar má sjá nakinn karlmann sitja með útbreiddan faðminn og horfast í augu við áhorfandann. Upphaflega var verkið hugsað sem þrenna, í líkingu altaristöflu með vængjum til hliðanna. Samhverf myndskipanin minnir á altaristöflur fyrri alda og myndefnið á texta Biblíunnar, Esekíel 39:17: „En þú, mannssonur, svo segir Drottinn Guð: Ávarpa fuglana, öll vængjuð dýr og öll villidýr merkurinnar: Safnist saman og komið. Komið saman úr öllum áttum. Ég færi mikla sláturfórn fyrir ykkur á fjöllum Ísraels. Þið skuluð fá kjöt að eta og blóð að drekka.“ Helgiblær myndarinnar vísar til draumsins um samhljóm við náttúruna þar sem maður og náttúra eru eitt.