Fæðingar Vinsældir þess að fæða barn án aðkomu fagfólks aukast.
Fæðingar Vinsældir þess að fæða barn án aðkomu fagfólks aukast. — Ljósmynd/Pexels
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þrjú börn hafa fæðst án aðkomu fagfólks á Íslandi það sem af er ári og voru þau sex á síðasta ári. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins, en talan gæti þó verið hærri þar sem dæmi eru um að foreldrar kjósi að skrá börn sín ekki inn í kerfið og þar með eru engar heimildir til um tilvist þeirra

Fréttaskýring

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Þrjú börn hafa fæðst án aðkomu fagfólks á Íslandi það sem af er ári og voru þau sex á síðasta ári. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins, en talan gæti þó verið hærri þar sem dæmi eru um að foreldrar kjósi að skrá börn sín ekki inn í kerfið og þar með eru engar heimildir til um tilvist þeirra.

Vinsældir fæðinga án aðkomu fagfólks hafa farið vaxandi hér á landi á undanförnum árum og hafa ljósmæður áhyggjur af þróuninni. Er það meðal annars vegna þess að ekkert verklag er til um skráningu þessara barna og telja ljósmæður sem blaðið ræddi við einungis tímaspursmál hvenær mansalsmál af þessu tagi kemur upp. Eins hafa þær áhyggjur af heilsu móður og barns í fæðingunni sjálfri og spyrja sig hver réttur barns til heilbrigðisþjónustu sé í aðstæðum sem þessum.

Um er að ræða svokallað „freebirth“ sem felst í því að foreldrar kjósa að fæða barn sitt í eigin umhverfi án aðkomu ljósmæðra eða annars heilbrigðisstarfsfólks. Ekkert íslenskt heiti hefur rutt sér til rúms í þessu samhengi og því verður hér fjallað um fæðingu án aðkomu fagfólks.

Vinsældir fæðinga án aðkomu fagfólks jukust hér á landi í kringum árið 2019. Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir fæðingarteymis Landspítalans, lýsir því að síðan þá hafi feður tekið að hringja á fæðingardeildina með bón um aðstoð við að skrá nýfædd börn inn í kerfið.

Ljóst er að fjöldamargar konur hafa í gegnum tíðina fætt barn án aðkomu fagfólks, en í seinni tíð hefur það helst verið vegna þess að konur ná ekki á fæðingardeildina í tæka tíð, eða af öðrum sértækum ástæðum. Hulda segir starfsfólk spítalans fyrst um sinn hafa staðið í þeirri trú að um þess konar tilvik hafi verið að ræða og því orðið við bón þessara feðra.

Ekki í mæðravernd

„Ég held að það hafi verið félagsráðgjafarnir okkar sem hugsuðu þetta skrefinu lengra og spurðu: „Bíddu, hvernig vitið þið að þessi kona hafi átt þetta barn?““ segir Hulda og útskýrir að á þeim tíma hafi legið ljóst fyrir að einhverjar þeirra kvenna sem kjósa að fara þessa leið, kjósi jafnframt að sækja ekki mæðravernd á meðgöngu.

Í slíkum tilfellum hafi ljósmæður ekki í höndunum neinar upplýsingar um meðgöngu móður og þar með verði flóknara að sannreyna að barnið sé í raun barn þeirra sem gera tilkall til þess.

„Þetta þýðir þó ekki að spítalinn neiti að skrá þessar konur inn í kerfið, hann hefur breiðar skyldur og þarf að horfa til fleiri sjónarmiða. Því kalla ljósmæður eftir því að verklagið verði skýrt,“ segir Hulda.

„Jafnvel þó að kona hafi verið í mæðravernd, hringi inn og segist hafa verið að fæða barn, þá getur þú ekki verið alveg viss um að hún hafi verið að eignast nákvæmlega það barn sem er verið að sækjast eftir að skrá,“ segir Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítalanum.

„Var einhver annar sem átti það og gaf þeim það? Fóru þau til útlanda og sóttu það? Þetta eru hlutir sem við vitum ekkert um,“ segir Hulda til að undirstrika áhyggjur ljósmæðra.

Ekki skýrt verklag

Í kjölfarið segja þær að tekin hafi verið ákvörðun um að fæðingardeild Landspítalans myndi ekki þjónusta þessar beiðnir lengur og í dag sé því engin augljós leið til að skrá umrædd börn inn í kerfið.

„Það þótti bara svo fjarlægt að þetta myndi gerast að það var enginn sem hugsaði um þennan möguleika,“ segir Hulda og bætir við að síðastliðið ár hafi verið unnið að því að leita leiða til að finna aðrar leiðir til að skrá umrædd börn, en samkvæmt reglugerð er það þannig að tilkynningar um fæðingu barna skulu berast frá heilbrigðisstofnunum eða sjálfstætt starfandi ljósmæðrum og þurfa viðkomandi heilbrigðisstarfsmenn strangt tiltekið að vera viðstaddir fæðinguna til að mega tilkynna fæðingu barns. Fleiri ljósmæður og heilbrigðisstarfsmenn hafa lýst yfir áhyggjum sínum af þróuninni í samtali við mbl.is. Ein þeirra er Helga Sól Ólafsdóttir, leiðtogi félagsráðgjafa hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Helga starfaði um tíma á kvennadeild Landspítalans og hefur meðal annars tekið þátt í að leita annarra leiða til að skrá börn inn í kerfið sem fæðast án aðkomu fagfólks.

Helga deilir að mörgu leyti sömu áhyggjum og Hulda og Guðlaug. Veltir Helga sérstaklega fyrir sér hvernig megi fá fullvissu um að tiltekin kona hafi fætt tiltekið barn. „Ef það er gat í kerfinu þá er það notað og þarna erum við komin með leið fyrir staðgöngumæðrun algjörlega án eftirlits. Þrátt fyrir að maður búist ekki við því.“

Af samtölum blaðamanns við ljósmæður og heilbrigðisstarfsmenn má heyra að áhyggjur þeirra af þróun fæðinga án aðkomu fagfólks eru þungar. Ein þeirra sagði til að mynda: „Ég bíð bara eftir því að það verði mansalsmál. Það er bara spurning hvenær það verður hér á Íslandi, ekki hvort.“

Nánar verður fjallað um hætturnar sem geta fylgt því að fæða barn án aðkomu fagfólks og rétt barnsins til heilbrigðisþjónustu á mbl.is á næstu dögum.