Tækni Daníel Spanó, Ólafur William Hand, Skúli Mogensen, Róbert Híram og Ástvaldur eiga Spjallmenni.is. Þeir segja gervigreindina þróast hratt.
Tækni Daníel Spanó, Ólafur William Hand, Skúli Mogensen, Róbert Híram og Ástvaldur eiga Spjallmenni.is. Þeir segja gervigreindina þróast hratt.
Mikið er um þessar mundir rætt um hagnýtingu gervigreindar og nú hefur nýtt íslenskt fyrirtæki, á þessu sviði, Spjallmenni.is, haslað sér völl. Fyrirtækið var stofnað af þeim Ástvaldi Ara Guðmundssyni, Daníel Ólafi Stefánssyni Spanó og Róberti Híram Ágústssyni

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Mikið er um þessar mundir rætt um hagnýtingu gervigreindar og nú hefur nýtt íslenskt fyrirtæki, á þessu sviði, Spjallmenni.is, haslað sér völl.

Fyrirtækið var stofnað af þeim Ástvaldi Ara Guðmundssyni, Daníel Ólafi Stefánssyni Spanó og Róberti Híram Ágústssyni. Ástvaldur er verðandi fjármálaverkfræðingur, Róbert Híram er fjármálaverkfræðingur og verðandi tölvunarfræðingur og Daníel Spanó stundar nám í stafrænni stjórnun við Copenhagen Business School í Kaupmannahöfn.

Fyrir þjónustufyrirtæki

„Lausnin er hugsuð fyrir þjónustufyrirtæki og miðar að því að auka gæði svörunar og þjónustu við viðskiptavini. Jafnframt getur lausnin sparað umtalsverða fjármuni,“ segir Daníel í samtali við Morgunblaðið.

Hann bætir við að búnaðurinn svari flestöllum fyrirspurnum sem berast í gegnum algenga samskiptamiðla, eins og spjallmenni á vefsíðu, svörun og flokkun tölvupósts, Google Messages, Facebook Messenger, WhatsApp, Google Reviews o.fl.

„Við fóðrum gervigreindina á upplýsingum fyrirtækja sem eru í viðskiptum við okkur. Þannig geta spjallmenni frá okkur svarað öllum helstu fyrirspurnum.“

Nú þegar hefur lausnin verið tekin í notkun hjá sjóböðunum í Hvammsvík og ABC Hotels í Keflavík með góðum árangri. Spjallmennið í Hvammsvík heitir Freyja en hjá ABC Hotels heitir það Baldur.

Daníel segir að lausnin nýti sér spunagervigreind (e. generative AI) til að búa til sem fullkomnust svör.

„Ég var hluti af teyminu sem bjó til spjallmenni fyrir Arion banka á árunum 2021-2022. Þar var notast við fyrirfram tilbúin svör, eins mörg og mögulega þurfti. Munurinn á þessu og því sem við erum að gera er að við setjum saman þekkingargrunn sem gervigreindin notar ásamt spunagreindinni til þess að smíða sérsniðin svör.“

Eitt hundrað tungumál

Annað sem forrit Spjallmennis.is býður upp á er að það kann yfir eitt hundrað tungumál, þar á meðal íslensku. Kosturinn við að nýta búnaðinn er einnig að í gegnum hann er hægt að fá svör allan sólarhringinn, sem til dæmis getur verið gagnlegt á ferð um landið þegar leitað er að tjaldstæði seint um nótt. Þá er einfaldlega hægt að spyrja spjallmennið hvort í lagi sé að tjalda á einhverjum ákveðnum stöðum.

Gervigreind Spjallmennis.is lærir stöðugt að sögn Daníels og eykur við þekkingu sína dag frá degi, sem gerir hana sífellt betri í að svara fyrirspurnum. Um framtíð tækninnar og fyrirtækisins segir Daníel að gervigreindartæknin muni koma til með að þróast hratt. Ekki muni líða á löngu þar til gervigreindin geti framkvæmt aðgerðir sem þarfnast manneskju í dag svo dæmi sé tekið.

Daníel segir að Spjallmenni.is sjái mikil tækifæri á Íslandi en það hafi einnig vakið athygli erlendis.

Hann segir að þau fyrirtæki sem ekki gefi gervigreind gaum í sinni starfsemi geti einfaldlega setið eftir í þróuninni.

Skúli og Ólafur fjárfestu

Skúli Mogensen, athafnamaður og einn eigenda sjóbaðanna í Hvammsvík, tók ákvörðun um að fjárfesta í félaginu í samstarfi við Ólaf William Hand, eftir að hafa innleitt spjallmenni frá Spjallmenni.is í Hvammsvík.

„Maður er búinn að fylgjast með þróun gervigreindar á heimsvísu í dálítinn tíma og það er magnað að sjá fjármagnið sem ausið er í tæknina, milljarða dollara á milljarða dala ofan. Það fleytir tækninni áfram og hver uppfærsla verður betri og betri,“ segir Skúli. Hann segist hafa farið að velta fyrir sér með hvaða hætti hægt væri að nýta sér gervigreindina fyrir íslensk verkefni.

„Ég fór að grennslast fyrir um hverjir væru byrjaðir að spá í svona lausnir og það kom mér kannski svolítið á óvart hvað það virtist stutt á veg komið, þ.e. raunveruleg umræða um praktískar lausnir fyrir daglegan rekstur fyrirtækja. Ég rakst síðan á Spjallmenni og hafði samband við þá til að sjá hvað þeir gætu gert fyrir stað eins og Hvammsvík sem væri með kannski eitt hundrað þúsund gesti á þessu ári. Það vakna margar spurningar hjá viðskiptavinum um veðrið, eldgosaviðvaranir, flug og fleira, og fyrirspurnir geta verið gríðarmargar. Það er ógjörningur fyrir venjulegt þjónustuver að svara því öllu hratt og vel. Það sem er áhugavert við tækni Spjallmennis.is er að hún getur leyst langflestar spurningar mjög vel og svarað á öllum helstu miðlum. Því sem spjallmennið getur ekki svarað með fullnægjandi hætti er vísað áfram á réttan stað. Þetta einfaldar og stórbætir þjónustustigið okkar og ánægju viðskiptavina, ásamt því að lækka rekstrarkostnaðinn. Ég á von á því að innan þriggja mánaða geti Freyja svarað með fullnægjandi hætti 90% allra spurninga, sem er í raun lygilega gott.“

Skúli segir að þess verði ekki langt að bíða að gervigreindin svari í talformi líka og erfitt verði að sjá muninn á henni og alvöru fólki.

Um fjárfestinguna í félaginu segir Skúli að stofnendur séu ungir og efnilegir frumkvöðlar sem hann vilji styðja við bakið á.

„Ef ég væri tvítugur í dag væri ég örugglega á kafi í þessum fræðum,“ segir Skúli að lokum en sjálfur var hann framarlega í flokki í upplýsingatæknigeiranum á sínum tíma og var meðal annars einn stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins OZ.

Höf.: Þóroddur Bjarnason