[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eðli skattaumhverfis eldis hér á landi, og þess sem lagt er til í lagareldisfrumvarpi ríkisstjórnarinnar, er annað en skattaumhverfi slíkrar starfsemi í Noregi og Færeyjum. Stærsti munurinn er milli Noregs og núverandi og fyrirhugaðra breytinga á gjaldtöku af eldi hér á landi

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Eðli skattaumhverfis eldis hér á landi, og þess sem lagt er til í lagareldisfrumvarpi ríkisstjórnarinnar, er annað en skattaumhverfi slíkrar starfsemi í Noregi og Færeyjum. Stærsti munurinn er milli Noregs og núverandi og fyrirhugaðra breytinga á gjaldtöku af eldi hér á landi. Ástæðan er að Norðmenn miða gjaldtökuna við hlutdeild í hagnaði eldisfyrirtækjanna en innheimta gjalda hér á landi er alveg óháð afkomu og arðsemi starfseminnar.

Þetta er niðurstaða Leos A. Grünfelds, meðeiganda ráðgjafarfyrirtækisins Menon Economics, og Oddbjørns Grønviks, yfirhagfræðings ráðgjafarfyrirtækisins. Á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem haldinn var nýverið í Hörpu, kynntu þeir greiningu sína en tvær skýrslur þeirra um skattlagningu eldis á Íslandi hafa verið birtar.

Ekki bara skilar fyrirhuguð gjaldtaka ríkissjóði minni tekjum þegar fiskeldisfyrirtækjunum hefur tekist að vaxa og ná fram auknum hagnaði, heldur er einnig veruleg hætta á að núverandi og fyrirhugað fyrirkomulag gjaldtöku af eldi hér á landi komi í veg fyrir vöxt í greininni og þannig mögulegar framtíðartekjur af eldinu. Einnig getur fyrirhugað kerfi skaðað eldisfyrirtækin ef dregur úr arðsemi þeirra.

Skilar minni skatti

Í nýjustu skýrslu þeirra Grünfelds og Grønviks „Taxation of aquaculture in Iceland – follow up report“ eru skoðuð áhrif af gildandi skattaumhverfi, því sem lagt er til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lagareldi, norska skattakerfinu og því færeyska, við fernar ólíkar aðstæður. Fyrst miðað við arðsemi eldisfyrirtækja á Íslandi, svo áhrifin ef arðsemi eldis væri meiri en í dag, svo ef arðsemin væri jafn góð og í Noregi og loks ef hún væri lítil.

„Það sést að fyrirhugað kerfi skilar aðeins minni skatttekjum en núverandi útfærsla við allar þessar aðstæður. Borið saman við norsku og færeysku útfærslurnar skilar kerfið [sem lagt er til] lægri skatti þegar arðsemi fyrirtækjanna er góð, en óhagstæðari skattlagningu þegar arðsemin er minni. Þetta er afleiðing þess að íslenska líkanið er ekki breytilegt eftir kostnaði í dæmum okkar,“ segir í skýrslunni.

Þegar skoðuð eru áhrifin á hreinan hagnað eldisfyrirtækja eftir skatta og gjöld í þessum mismunandi skattkerfum er áberandi að fyrirhuguð gjaldtaka af eldinu kemur sér betur fyrir fyrirtækin ef miðað er við mjög jákvæða arðsemi, en við sviðsmyndir um minni arðsemi munu norska og færeyska líkanið vera betri fyrir fyrirtækin.

Tvenns konar sérgjöld

Tvenn sérgjöld eru tekin af eldinu hér á landi, annars vegar árgjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis og hins vegar framleiðslugjald.

Framleiðslugjaldið vegur þyngst og leggst það á hvert kílógramm slátraðs lax. Í núgildandi lögum er gjaldið miðað við „nýjasta 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á atlantshafslaxi.“ Byggist þessi skattheimta á markaðsverðinu óháð arðsemi eða afkomu starfseminnar. Innheimt eru 4,3% þegar verð er 4,8 evrur á kílógramm eða hærra, 2% þegar verð er á bilinu 4,3 evrur til 4,8 evrur á kílógramm og 0,5% þegar verð er lægra en 4,3 evrur.

Verði lagareldisfrumvarp ríkisstjórnarinnar að lögum verða þrepin hins vegar sjö og ná frá 1% upp í 11% eftir því hversu hátt verð er yfir framleiðslukostnaði sem ríkið reiknar út. Er kostnaðurinn áætlaður á grundvelli fóðurkostnaðar, samkvæmt innflutningstölum frá Hagstofunni, auk vísitölu neysluverðs og launavísitölu Hagstofunnar. Vegur fóður 60% en neysluverð 20% og launavísitala 20%.

Hagfræðingar Menon Economics benda hins vegar á að slíkar vísitölur gefa ekki rétta mynd af raunverulegum kostnaði fyrirtækjanna. Leggja þeir því til – ef á að taka tillit til kostnaðar með þessari leið – að einnig sé tekið mið af fjármagnskostnaði og afskriftum, sem getur haft veruleg áhrif á fyrirtæki, sérstaklega á uppbyggingarstigi

Tap fyrir samfélagið

Skýrsluhöfundar segja það „mikið áhyggjuefni“ að skattaumhverfið sem lagt er til í lagareldisfrumvarpinu taki ekki tillit til breytileika í arðsemi eldisfyrirtækja.

„Skattlagning sem hlutfall af hagnaði getur verið breytileg á bilinu 28-132% miðað við ákveðnar forsendur um breytileika í kostnaði og verði hjá einstökum framleiðendum. Íslenskir aðilar horfa nú þegar upp á mikinn breytileika í kostnaði. Þetta þýðir að fyrirhugað framleiðslugjald mun einnig leiða til mjög mismunandi skatthlutfalla milli aðila á tilteknu ári.“

Þeir telja þó ljóst að það kerfi sem lagt er til í frumvarpinu sé betra en það sem ríkir nú „í þeim skilningi að það getur í ríkara mæli gert ráð fyrir kostnaðarbreytileika í greininni í heild. Nokkurt svigrúm virðist því vera til að bæta samsetningu kostnaðarvísitölunnar og þarf að huga betur að því hvernig búast má við að fjármagnskostnaður breytist í framtíðinni.“

Sé raunverulegur vilji til að taka upp nýtt skattaumhverfi fyrir fiskeldi á Íslandi er það að mati skýrsluhöfunda lykilatriði að slíkt skattkerfi geti tekið tillit til kostnaðarbreytileika milli aðila. „Þetta er mikilvægt vegna þess að kostnaður getur verið mismunandi milli aðila. Skattur sem hunsar þennan þátt verður erfiður viðureignar fyrir fyrirtæki með háan kostnað. Þetta þýðir líka að kerfið mun standa sig betur þegar hagnaður er lítill. Fyrirhugað kerfi reynist illa þegar hagnaður er lítill. Þetta getur skekkt ávöxtun einkaaðila og samfélagsins, sem felur í sér efnahagslegt velferðartap,“ segir að lokum.