Apótek Líkur eru á lokun apóteka vegna skorts á lyfjafræðingum.
Apótek Líkur eru á lokun apóteka vegna skorts á lyfjafræðingum. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ef þarna verður ekki breyting á mun það hafa í för með sér alvarlega röskun á starfsemi apótekanna í sumar, ekki síst í apótekum á landsbyggðinni,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ef þarna verður ekki breyting á mun það hafa í för með sér alvarlega röskun á starfsemi apótekanna í sumar, ekki síst í apótekum á landsbyggðinni,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við Morgunblaðið. Útlit sé fyrir að nýútskrifaðir lyfjafræðingar fái ekki útgefin starfsleyfi fyrr en í júlí og geti þ.a.l. ekki hafið störf í apótekum fyrr en þá.

Andrés segir viðvarandi skort á lyfjafræðingum hér á landi og slegist sé um hvern þann sem útskrifast frá háskólanum, en búist sé við ellefu í vor. Apótekin hafi undanfarin ár treyst á að nýútskrifaðir lyfjafræðingar kæmu til starfa strax að námi loknu.

Segir hann að samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn þurfi embætti landlæknis að gefa út starfsleyfi til þeirra lyfjafræðinga, lækna og hjúkrunarfræðinga sem útskrifast til þess að þeir geti hafið störf. Venjulega sé ekki hægt að gefa út starfsleyfi fyrr en eftir formlega útskrift úr háskóla, sem hingað til hafi verið í kringum 25. júní, en það ferli taki jafnan tvær til þrjár vikur.

Undanfarin ár hafi Samtök verslunar og þjónustu og Landspítalinn þó fengið afhenta nemendaskrá Háskóla Íslands og notið til þess stuðnings heilbrigðisráðuneytisins að gefin væri út yfirlýsing um að viðkomandi nemandi hefði lokið námi með tilskildum árangri og staðist öll próf. Yfirleitt liggi fyrir um miðjan maí hvort svo sé. Á grundvelli slíkrar yfirlýsingar nemendskrár HÍ hafi landlæknir gefið út starfsleyfið.

„Lyfjafræðingar sem útskrifast hafa þannig getað farið að vinna sem slíkir í apótekum síðustu dagana í maí. Þannig hefur þetta verið mörg undanfarin ár; ráðuneytið hefur veitt okkur stuðning og nemendaskráin hefur gefið yfirlýsingu um að viðkomandi nemandi hafi lokið prófi með tilskildum árangri og einungis formleg útskrift sé eftir. Með þessa uppáskrift hefur fólk farið til landlæknis og fengið útgefið starfsleyfi,“ segir Andrés.

Hann segir að nú standi til að flýta útskrift úr Háskóla Íslands og verði hún 15. júní í ár. Frá nemendaskrá háskólans berist þær fregnir að vegna álags sé ekki hægt að gefa út staðfestingu á námslokum, líkt og hingað til, og bíða verði eftir formlegri útskrift. Þá fyrst geti fólk sóst eftir starfsleyfi hjá landlækni.

„Í ljósi reynslunnar verður fólk ekki komið til starfa í apótekunum fyrr en um mánaðamót júní og júlí eða í byrjun júlí, á miðjum sumarleyfistíma. Þetta mun örugglega raska starfsemi apótekanna vítt og breitt um landið og ekki síst á landsbyggðinni, þannig að ekki verður hægt að manna apótekin víða á sumarleyfistímanum. Menn sjá fram á það að loka verði einhverjum apótekum á landsbyggðinni, gangi þetta svona eftir,“ segir Andrés.

„Það sem verst er er að hingað til höfum við notið liðsinnis heilbrigðisráðuneytisins í þessu en nú er því ekki til að dreifa. Við höfum gert ráðuneytinu grein fyrir afleiðingunum en engin viðbrögð fengið,“ segir hann. Þá hafi heldur engin viðbrögð komið frá Landspítalanum, sem Andrés kveðst hissa á.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson