[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Danski hjólreiðamaðurinn Jonas Vingegaard sem hefur hrósað sigri í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, undanfarin tvö ár er byrjaður að hjóla að nýju eftir að hafa viðbeins- og rifbeinsbrotnað við keppni í Baskalandi á Spáni í síðasta mánuði

Danski hjólreiðamaðurinn Jonas Vingegaard sem hefur hrósað sigri í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, undanfarin tvö ár er byrjaður að hjóla að nýju eftir að hafa viðbeins- og rifbeinsbrotnað við keppni í Baskalandi á Spáni í síðasta mánuði. Rúmum mánuði síðar er Daninn byrjaður að hjóla utandyra að nýju og kvaðst í myndskeiði sem hann birti á samfélagsmiðlinum X vonast til þess að fá tækifæri til þess að verja titil sinn í Frakklandshjólreiðunum í júlí næstkomandi.

Sænski markvörðurinn Cornelia Hermansson hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til tveggja ára. Cornelia, sem er 23 ára gömul, gekk til liðs við Selfyssinga sumarið 2022. Hún var í liði Selfoss sem féll úr úrvalsdeildinni vorið 2023 en vann síðan 1. deildina með gríðarlegum yfirburðum á nýliðnu keppnistímabili og leikur á ný meðal þeirra bestu á næsta vetri.

Enski knattspyrnumaðurinn Jack Grealish, leikmaður Manchester City, hefur verið sektaður fyrir hraðakstur í heimalandinu. Grealish náðist á hraðamyndavél 17. júlí á síðasta ári er hann ók jeppa sínum á 71 kílómetra hraða þar sem var 48 kílómetra hámarkshraði í götu í Wythall í Worcester-skíri. Var Grealish sektaður um alls 1.042 pund, jafnvirði tæplega 183.000 íslenskra króna.

Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, er í úrvalsliði 31. umferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir frammistöðu sína með Leipzig um síðustu helgi. Viggó skoraði tíu mörk þegar Leipzig vann góðan útisigur á Göppingen, 30:27, á föstudagskvöldið.