Eyjafjörður Áform eru um mikla uppbyggingu stórskipahafnar og atvinnustarfsemi í Dysnesi. Búið er að tryggja lóð undir líforkuverið á svæðinu.
Eyjafjörður Áform eru um mikla uppbyggingu stórskipahafnar og atvinnustarfsemi í Dysnesi. Búið er að tryggja lóð undir líforkuverið á svæðinu.
Líforkuver ehf. áformar að reisa líforkuver á Dysnesi við Eyjafjörð. Framkvæmdin felur í sér uppbyggingu á vinnslu dýraleifa sem metnar eru í áhættuflokki. Afurðir eru kjötmjöl og fita sem eru nýttar til orkuframleiðslu

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Líforkuver ehf. áformar að reisa líforkuver á Dysnesi við Eyjafjörð. Framkvæmdin felur í sér uppbyggingu á vinnslu dýraleifa sem metnar eru í áhættuflokki.

Afurðir eru kjötmjöl og fita sem eru nýttar til orkuframleiðslu. Því samræmist vinnslan stefnu stjórnvalda um framleiðslu innlendra hreinorkugjafa og innleiðingu hringrásarhagkerfisins.

VSÓ ráðgjöf hefur unnið matsskyldufyrirspurn fyrir verkefnið. Þar er gerð grein fyrir framkvæmdinni og framleiðsluferlum, helstu áhrifaþáttum og lagt mat á möguleg umhverfisáhrif. Áhugasamir geta kynnt sér fyrirspurnina á skipulagsgatt.is.

Fram kom í fréttum í byrjun árs 2023 að kostnaður við að byggja upp líforkuver fyrir Norðurland eystra á Dysnesi gæti orðið rúmir fimm milljarðar króna og rekstur þess er talinn borga sig upp á 15 árum ef bjartsýnustu áætlanir um framlegð af rekstrinum ganga eftir.

Tímaramminn er 6-8 ár

Undirbúningur verkefnisins hófst fyrir nokkrum árum og það hefur verið þróað stig af stigi. Síðastliðið ár hefur það verið „hýst“ hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og notið stuðnings umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.

Haustið 2023 var stofnað einkahlutafélag um verkefnið, Líforkuver ehf. Í stjórn sitja fulltrúar ráðuneytisins, SSNE, Akureyrarbæjar og Hörgársveitar ásamt fulltrúa afurðastöðva

Fyrir liggur viljayfirlýsing um 6.700 fermetra lóð fyrir líforkuverið í Dysnesi við vesturströnd Eyjafjarðar í Hörgársveit. Dysnes er 14 kílómetra fyrir norðan Akureyri. Hafnasamlag Norðurlands bs. áformar uppbyggingu á hafnarsvæði við Dysnes, þar sem stór flutningaskip geti lagst að bryggju. Framkvæmdinni verður skipt upp í allt að fimm áfanga og tímarammi yrði 6-8 ár. Þessi áform getur almenningur sömuleiðis kynnt sé á skipulagsgatt.is.

Fram kemur í skýrslu VSÓ ráðgjafar að áhættuúrgangur er dýraafurðir sem ekki eru hæfar til manneldis. Þeim er skipt í þrjá flokka, Áhættuflokkur 1 er hæsti áhættuflokkurinn og inniheldur efni sem talið er mikilvægt að halda frá fæðu- og fóðurkeðjunni. Í þennan flokk falla t.d. heilir skrokkar dýra eða skrokkhlutar sem innihalda sérstakan áhættuvef.

Í áhættuflokki 2 eru heilir skrokkar dýra sem ekki innihalda sérstakan áhættuvef og t.d. innihald meltingarvegar. Í áhættuflokki 3 er efni sem er talið bera litla áhættu og hægt er að nota í fóður fyrir dýr, enda einna helst afurðir sem teljast hæfar til manneldis en sem af viðskiptalegum ástæðum á ekki að nýta sem slíkar.

Á Íslandi eru ekki til staðar fullnægjandi innviðir til móttöku og vinnslu dýraleifa í áhættuflokki 1 og 2. Segja megi að þessi mál séu í ólestri, segir í skýrslunni. Líforkuverið verði því mikilvæg innviðauppbygging til að tryggja að á landinu sé til staðar aðstaða sem uppfyllir kröfur sem settar eru í íslenskum reglugerðum og Evrópulöggjöf.

Þessi mál voru mjög til umræðu í fyrra þegar riða kom upp í fé í Miðfirði. Féð var fellt og urðað, þar sem ekki var hægt að brenna það. Eini brennsluofn landsins var bilaður, en hann er hjá Kölku í Reykjanesbæ.

Gert er ráð fyrir að líforkuverið muni taka við 3.000-4.000 tonnum af dýraleifum árlega, en vinnslan geti annað allt að 10.000 tonnum til að taka við álagstoppum. Í skýrslu sem birt var í fyrra kom fram að áætlað væri að rúmlega 5.500 tonn af dýrahræjum hefðu fallið til hér á landi árið 2021. Heildarorkuþörf líforkuversins er metin um 440 MWh á ári.

Tæknin er margreynd

Líforkuver eru starfandi víða um heim og tæknin sem valin hefur verið er vel þekkt og margreynd, segir í skýrslunni. Samið verður við aðila sem hefur langa reynslu af smíði, uppsetningu og rekstri framleiðslueininga fyrir líforkuver. Reiknað er með að starfsemi geti hafist árið 2026 eða 2027 og 5-7 manns vinni við framleiðslu og stjórnun.

„Að teknu tilliti til umhverfisáhrifa vegna umfangs, eðlis og staðsetningar fyrirhugaðrar framkvæmdar telur Líforkuver ehf. að ekki sé um að ræða matsskylda framkvæmd,“ eru lokaorð skýrslunnar.