Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Ríkisstjórnin heldur yfirveguð um stýrið. Rífur ekki í handbremsuna, rífur ekki í stýrið. Ófyrirsjáanlegir atburðir kalla á yfirveguð viðbrögð.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem fjármála- og efnahagsráðherra var að mæla á þingi fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029. Eins og kunnugir vita er um að ræða áætlun sem rammar inn fjármál ríkisins næstu fimm árin. Nánari útfærsla er síðan í fjárlögum hvers árs.

Sterk staða, forgangsröðun, lækkun skulda

Í fjármálaáætlun er lögð sérstök áhersla á að verja sterka stöðu, forgangsraða verkefnum og lækka skuldir. Í því felst að útgjaldavexti er haldið í skefjum til að stuðla að lækkun verðbólgu og vexti kaupmáttar og nýjum útgjöldum verður mætt með aðhaldi í öðrum rekstri. Mikilvægt er að lækka skuldir ríkisins, ekki aðeins til að lækka vaxtakostnað heldur einnig til að ríkið hafi svigrúm til viðbragða ef áföll skella á okkur, hvort sem það er af náttúrunnar hendi eða öðrum orsökum.

Vöxtur hagsældar í sérflokki

Ef horft er á stóru myndina þá er vöxtur hagsældar á Íslandi í algjörum sérflokki á síðustu árum. Kaupmáttur launa hefur vaxið verulega frá árinu 2013 á meðan hann hefur staðið í stað eða minnkað annars staðar á Norðurlöndum og löndum Vestur-Evrópu. Skuldir í hlutfalli við ráðstöfunartekjur heimila eru líka í sögulegu lágmarki. Sama má segja um skuldir fyrirtækja.

Lægri vextir eru sameiginlegir hagsmunir

Ríkisstjórnin lagði mikla áherslu á að styðja við það sameiginlega markmið launafólks og atvinnurekenda á almennum markaði að ná niður verðbólgu og vöxtum með hófsömum langtímasamningum. Almenni markaðurinn gekk á undan með góðu fordæmi og skiptu þar miklu máli aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Nú er komið að opinbera markaðnum sem verður að fylgja fordæmi þeirra sem þegar hafa samið á almennum markaði. Það er stærsta hagsmunamál alls launafólks að vextir lækki. Ábyrgð hins opinbera og viðsemjenda þeirra er því mikil. Mjög mikil.

Mjúk lending að raungerast

Aðgerðir Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar eru farnar að hafa áhrif á verðbólgu sem hefur lækkað hægt en örugglega síðasta árið. Ný fjármálaáætlun styður við áframhaldandi lækkun. Fjármálaáætlun 2025-2029 er hófsöm. Hún boðar engar byltingar og blóðugan niðurskurð. Staðinn er vörður um grundvallarkerfi samfélagsins, svo sem heilbrigðiskerfið, menntakerfið, löggæslu og félagsleg úrræði. Sú mjúka lending sem ríkisstjórnin hefur stefnt að frá því í heimsfaraldrinum er að raungerast.

Ljóst er að alltaf eru tækifæri til umbóta í rekstri ríkisins. Unnið verður að því að forgangsröðun fjármuna sé ávallt í samræmi við þarfir samfélagsins.

Ríkisstjórnin heldur yfirveguð um stýrið. Rífur ekki í handbremsuna, rífur ekki í stýrið. Ófyrirsjáanlegir atburðir kalla á yfirveguð viðbrögð.

Þannig er nú það.

Höfundur er formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra.